Eyjan

Það sem ekki er talað um

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 27. október 2017 08:18

Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri DV.

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar:

Ýmis mál komust á dagskrá í kosningabaráttunni og loforðalisti stjórnmálamanna varð æði langur. Eitt mikilvægt mál rataði þó af einhverjum ástæðum ekki í umræðuna. Það snýr að skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi sem færist mjög í aukana.

Í nýrri skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra kemur fram að áhættustig vegna skipulagðrar glæpastarfsemi hér á landi er rautt, sem þýðir mikil áhætta. Hér á landi eru skipulagðir glæpahópar með alþjóðleg tengsl. Vændi hefur aukist og sömuleiðis framboð á sterkum fíkniefnum. Ísland er áfangastaður fyrir mansal og smygl á fólki færist í vöxt. Lögreglan er illa mönnuð og ekki í stakk búin til að tryggja öryggi og vernda borgarana.

Bíðum nú við! Þetta er ekki þjóðfélagið sem við viljum búa í. Við viljum búa við öryggi, geta gengið um götur óáreitt og ekki þurfa að lifa í ótta við að á okkur verði ráðist eða eignum okkar stolið. Við viljum ekki heldur að vændi sé sjálfsagður hlutur. Við viljum ekki að fólki sé haldið nauðugu eða að glæpagengi berjist á götum. Við viljum lifa í frjálsu og opnu samfélagi. Það má hins vegar ekki vera svo frjálst og opið að glæpagengi fái hér að valsa um óáreitt. Stór hluti Íslendinga er mótfallinn vopnaburði lögreglu á mannamótum, en ef ískaldur raunveruleikinn er eins og lýst er í skýrslunni þá getur sú skoðun þurft að víkja.

Á einum stað í skýrslunni segir að lögreglu sé kunnugt um hópa og menn sem eru umsvifamiklir í fíkniefnaviðskiptum og hafi sumir hverjir fúlgur fjár sem þeir geti þvættað í gegnum lögmæt fyrirtæki sem þeir tengjast. Hvernig má vera að starfsemi eins og þarna er lýst fái að þrífast? Þarna eru glæpamenn sem sannarlega sjá við löggunni.

Í skýrslunni segir að smygl á fólki færist í vöxt og haldist meðal annars í hendur við mikla fjölgun þeirra sem óska alþjóðlegrar verndar. Dæmi eru um að menn sem dvalist hafa hér á landi og verið umsækjendur alþjóðlegrar verndar hafi stundað hér ólöglega starfsemi eða afbrot. Þarna er komið við viðkvæman blett. Hér á landi finnst fólk sem amast við innflytjendum og hælisleitendum og tengir þá sjálfkrafa við glæpi. Slík viðhorf ber að fordæma. Það breytir hins vegar engu um það að þá útlendinga sem koma hingað til að stunda glæpi á að handsama, rétt eins og þá Íslendinga sem leggja út á glæpabraut. Hér eiga lög og regla að gilda.

Stjórnmálamenn geta ekki látið eins og ástand sem lýst er í skýrslunni komi þeim ekki við. Það er mikilvægt í málum eins og þessum að vandinn sé greindur og gripið til aðgerða meðan enn er tími til. Það þarf að styrkja og efla lögregluna svo hún verði í stakk búin til að rannsaka mál ofan í kjölinn og grípa í taumana. Skortur á fjármagni til lögreglu og mannekla innan hennar má ekki leiða til þess að hér verði til samfélag þar sem ofbeldi grasserar í alls kyns myndum og enginn fær neitt að gert.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af