Eyjan

Virkjum kraft eldri borgara

Ritstjórn Eyjunnar skrifar
Mánudaginn 23. október 2017 19:00

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og þingmaður Norðausturkjördæmis skrifar: Á sínum tíma var kannski eðlilegt að miða við að fólk ynni til sjötugs. Það er ekki lengra síðan en árið 1970 að meðalævi íslenskra karlmanna var um sjötíu ár og konur lifðu heldur lengur. Samhliða lengri ævi hefur heilsa almennt batnað, þannig að það á sjaldnast við lengur að fólk sé komið að fótum fram við 67 eða 70 ára aldur. Samfélagið virðist samt líta framhjá þessum alþekktu staðreyndum og er fast í sömu aldursmörkum. Þessu vill Viðreisn breyta. Afnema þarf bæði frítekjumarkið og ákveðinn aldur þar sem fólki er sagt upp störfum óháð starfsgetu.

Alls 82% skerðing launa aldraðra

Fyrir um ári var samþykkt frumvarp ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks þar sem frítekjumark aldraðra var lækkað úr 110 þúsund krónum á mánuði í 25 þúsund krónur. Þetta þýðir að af 100 þúsund krónum (umfram 25 þúsund kr.) sitja eftir um 18 þúsund þegar tekið hefur verið tillit til skatta og skerðingar. Hver kærir sig um að vinna með 82% skerðingu launa? Þarf vart að taka fram að auk Sjálfstæðisflokksins stóðu báðir armar Framsóknarflokksins að þessari skerðingu. Líka þeir sem nú hafa stofnað nýjan flokk.

Þegar fólk hættir að vinna missir þjóðarbúið af miklum verðmætum. Á undanförnum árum hefur það færst í vöxt að fólk hætti störfum upp úr sextugu, jafnvel þó að það hafi heilsu til þess að vinna fulla vinnu miklu lengur. Því lengist eftirlaunatímabilið í báða enda og á þjóðfélagið leggst mun meiri kostnaður en hlýst af lengingu meðalævinnar. Batnandi heilsufar ætti aftur á móti að verða til þess að menn gætu unnið lengur en áður. Þannig styttum við í raun elliárin. Nú hafa stórir árgangar eftirstríðsáranna hafið töku ellilífeyris þó að stór hluti þeirra sé í fullu fjöri.

Afnemum frítekjumarkið að fullu!

Á ferðum mínum á Siglufirði um daginn hitti ég 69 ára gamlan mann sem vinnur í vélsmiðju. Hann er enn í fullu starfi, en sagði mér frá félaga sínum sem hafði ætlað sér að vinna einn dag í viku eftir að hann varð sjötugur. En þegar hann sá hve litlu hann hélt eftir hætti hann við og situr nú heima daginn langan og lætur sér leiðast. Hvaða vit er í því?

Það er hægt að reyna að reikna það út hve mikið það kostar ríkið að hætta öllum skerðingum á ellilífeyri, en það er í raun tilgangslaust, vegna þess að 82% skerðing veldur því að nánast enginn vill vinna. Með öðrum orðum kostar það ríkið í raun og veru sáralítið að afnema frítekjumarkið. Þá mun vinnuþátttaka eldri borgara stóraukast sem er gott, því að nú er skortur á starfsfólki víða. Með því móti fá fyrirtækin reynda starfsmenn, aldraðir einstaklingar fá tekjur og njóta ánægjunnar af því að vera áfram í sambandi við vinnufélaga og ríkið fær tekjur, því starfsmennirnir borga líka skatta. Það græða sem sé allir. Þess vegna ætlar Viðreisn að afnema frítekjumarkið með öllu.

Afnemum reglur um starfslokaaldur

Það er beinlínis kjánalegt að miða starfslok við ákveðinn fjölda afmælisdaga fremur en að horfa á vilja og getu fólks til að vinna. Stefna Viðreisnar er hér skýr: „Nýtt verði vinnuframlag allra sem hafa starfsorku og reglur og lög um ákveðinn starfslokaaldur afnumdar.“ Þannig sýnum við Íslendingar að við berum virðingu fyrir öllum, óháð aldri.

Viðreisn vill afnema frítekjumarkið að fullu sem og kjánalegar reglur um starfslokaaldur óháð starfsgetu.

Birtist fyrst í Akureyri vikublað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af