Eyjan

Fjölskyldubönd fréttamanns RÚV við Stundina reita Björn Bjarnason til reiði: Kannski ráð að leggja RÚV niður?

Ari Brynjólfsson skrifar
Mánudaginn 23. október 2017 16:11
Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra, Aðalsteinn Kjartanson frétamaður. Samsett mynd/DV

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir fréttastofu RÚV, sem hann kallar FRÚ, harðlega og vekur meðal annars athygli á því að fréttamðurinn Aðalsteinn Kjartansson, sem flutti um helgina frétt um samskipti Glitnis og Bjarna Benediktssonar, er bróðir Ingibjargar Daggar, annars ritstjóra Stundarinnar, sem byrjaði að segja fréttir upp úr gögnum frá þrotabúi Glitnis þar til slíkt  var stöðvað með lögbanni.

Björn brást reiður við frétt RÚV um málið um helgina og viðbrögð við skrifum hans í gær urðu til þess að hann áttaði sig á nánum tengslum Aðalsteins við Stundina og Reykjavík Media. Björn tilfærir síðan langa athugasemd sem Páll Steingrímsson birti á Facebook-síðu ráðherrans fyrrverandi:

Tilviljanir eru oft einkennilegar og stundum eru skilin á milli tilviljunar og áætlaðs verknaðar lítil og ekki ljós.

Fréttamaðurinn [Aðalsteinn Kjartansson] sem sagði og vann (ekki) fréttina um að Bjarni Benediktsson hefði verið í sambandi við viðskiptabanka sinn fyrir 10 árum er ekki tilviljun heldur hlekkur í úthugsaðri og langvarandi keðju pólitískrar aðfarar að formanni Sjálfstæðisflokksins.

Hann er bróðir ritstjóra Stundarinnar [Ingibjargar Daggar Kjartansdóttur], fyrrverandi varaformaður ungra jafnaðarmanna Samfylkingarinnar og fyrrverandi starfsmaður Reykjavík Media og nánasti samstarfsmaður Jóhannesar Kr sem því stýrir. Hann tengir saman Stundina, Reykjavík Media og Rúv og kemur úr forystuteymi Samfylkingarinnar.

Björn segir að þessar upplýsingar ættu að vera fréttastofu RÚV áhyggjuefni enda telji margir vegið „að traustinu sem FRÚ hefur notið vegna metnaðar- og stjórnleysis við miðlun efnis í nafni FRÚ.

Björn vitnar einnig í Sigurð Kára Kristjánsson, fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins, sem gerði alvarlegar athugasemdir við fréttina, sem Aðalsteinn flutti um helgina, þar sem í henni hafi verið vegið að heiðarleika þingnefndar sem hann sat í ásamt Pétri Blöndal og Ólöfu Nordal, sem bæði eru látin:

Í ljósi alls þessa er í meira lagi einkennilegt fyrir mig, sem var hluti af þessari atburðarás og beinn þáttakandi í henni, að horfa upp á fréttaflutning RÚV nú, þar sem barátta okkar fyrir almannahagsmunum og viðleitni til að bjarga verðmætum er látin líta út sem sérhagsmunagæsla fyrir Glitni banka þar sem reynt er að ósekju að baða þátttöku Bjarna Benediktssonar sama spillingarljóma sem þeir fjölmiðlar sem nú sæta lögbanni hafa reynt að gera um langt skeið.

Það er dapurlegt að horfa upp á fréttastofu Ríkisútvarpsins vera þátttakanda í slíkri vegferð, viku fyrir alþingiskosningar.

Það er ekki hægt að láta hjá líða að gera athugasemdir við framgöngu fréttastofunnar og þess fréttamanns sem í hlut á.

Sjá einnig: Sigurður Kári: RÚV dró upp kolranga mynd

Björn telur ólíklegt að „FRÚ geri hreint fyrir sínum dyrum vegna þessara vinnubragða eða biðji þá afsökunar sem hafðir eru fyrir rangri sök með dylgjum um störf þeirra í almannaþágu.“

Hann beinir síðan spjótum sínum að yfirstjórn RÚV og lætur í það skína að haldi FRÚ áfram á sömu braut sé jafnvel farsælast að leggja RÚV niður:

Að yfirstjórn þessa opinbera hlutafélags sitji þegjandi og að því er virðist aðgerðalaus þegar þannig er staðið að málum á vegum FRÚ er hvatning fyrir sívaxandi hóp fólks sem er nóg boðið og krefst þess að þessu félagi sem rekið er fyrir sex milljarða á ári, þar af fjóra frá skattgreiðendum, verði einfaldlega slitið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af