Eyjan

Um eina af uppáhaldsbókum Bubba Morthens

Kristjón Kormákur Guðjónsson skrifar
Sunnudaginn 22. október 2017 15:00
Bubbi Morthens tónlistarmaður. Mynd/DV

Einar Kárason skrifar:

Ég heyrði um daginn viðtal við Bubba Morthens ljóðskáld með meiru þar sem hann gat um sumar af sínum eftirlætisbókum, þar á meðal ævisögu Sigurðar Ingjaldssonar frá Balaskarði, sem hefur verið í miklu uppáhaldi hjá sjálfum mér alveg frá því ég heyrði Indriða G. Þorsteinsson lesa hana sem kvöldsögu í útvarpinu fyrir meira en þrjátíu árum.

Sigurður Ingjaldsson fæddist árið 1845 á Ríp í Skagafirði og bjó lengst af norðanlands. Hann kenndi sig við bæinn Balaskarð í Laxárdal í Húnaþingi, en skrifaði ævisögu sína, þá gamall maður, í Gimli, Nýja-Íslandi vestanhafs. Hann var af fátæku alþýðufólki og naut lítillar skólamenntunar, en var hins vegar ósérhlífinn dugnaðarmaður alla sína tíð. Stærstur hluti bókar hans segir frá harðri lífsbaráttu öreigafólks við óblíð kjör og í vondri tíð á ofanverðri nítjándu öld. Hann stundaði lengst af sjósókn, á þessum opnu bátum sem þá tíðkuðust; það var mikið gert út á hákarl á vetrum, og eru hlutlægar en kveinstafalausar lýsingar höfundarins víða sérlega áhrifamiklar. Sams konar sögu hafa auðvitað fleiri nítjándualdarmenn skrifað, og reyndar breyttist ekki margt fyrr en komið var fram á tuttugustu öld með vélvæðingu og togaraútgerð, en ég hef heyrt það sagt af fróðum mönnum að íslenskir sjósóknarar á þeim tímum hafi verið í meiri lífshættu en algengt er með hermenn í stríði, nema ef til vill þá sem eru í fremstu víglínu. Ein klausan af mörgum úr bókinni er lýsandi fyrir þau kjör sem þessir harðdrægu menn máttu sætta sig við, en árið 1887 gerðist þetta:

*„Rétt eftir nýárið gerði ógurlega norðaustanhríð, og reru þann dag sjö skip af Skagaströnd til fiskjar, því það var bærilegt veður um morguninn, og fórust fimm skipin, og þá drukknaði mikli sjómaðurinn Árni Sigurðsson og Páll Pálsson á Litlabakka og Guðmundur Ólafsson frá Árbakka, báðir bestu formenn, og margir fleiri góðir sjómenn.“*

Landnám í Nýja heiminum

Það sem mér finnst áhugaverðast í allri frásögn bókarinnar er síðasti hlutinn, sem segir frá því þegar Sigurður Ingjaldsson gafst upp á baslinu og hélt utan til Nýja heimsins í júlí 1887, sama ár og skipsskaðarnir urðu sem greinir frá hér á undan. Ingjaldur og Margrét kona hans höfðu stundað búskap, en harðindin voru óskapleg ár eftir ár með landföstum hafís langt fram á sumar og eilífum norðanstormum og hríð.
*„Það gerði ógurlega hríð og fönn um miðjan maí, svo það var varla hægt að komast neitt fyrir fönn, og urðu fjarska fjárskaðar í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslu.“*
Þau hjón Sigurður og Margrét gáfust semsé upp, þrátt fyrir að Sigurður hafi fram að því verið á móti brottflutningunum til Ameríku. En þau ákváðu samt að selja allt sem þau áttu, bæði bústofn og lausa muni, en það segir sitt um fátækt þessa alþýðufólks að þótt þau hafi bæði unnið hörðum höndum alla sína tíð til sjós og lands, hann meðal annars róið meira en þrjátíu vetrarvertíðir, þá fór það svo þegar þau höfðu selt alla aleigu sína að þau áttu bara fyrir farinu, aðra leið, fyrir annað þeirra. Og varð úr að hann héldi einn af stað, slyppur og snauður, en ætlaði að reyna að vinna fyrir peningum þar vestra og senda til Margrétar, svo hún gæti komið í kjölfar eiginmannsins.

Öll frásögnin, um ferð Sigurðar þangað vestur, með viðkomu í Englandi, og komuna til Nýja heimsins og atvinnuleit hans og lífsbaráttu er næstum einstæð og afar falleg. Þetta er auðvitað feiknalega áhugaverður tími, áhugavert söguefni, eins og vinsældir vesturfarabóka Böðvars Guðmundssonar sýna, og hin bjartleita og látlausa frásögn Sigurðar sem upplifði þetta allt á eigin skinni er geysilega verðmæt.

Um það hversu mikla óvissu þessir snauðu landar vorir voru að fara út í er þeir hleyptu þarna heimdraganum á ofanverðri nítjándu öld má nefna sem dæmi að Sigurður hafði bitið það í sig að sigla til New York, því að þar þekkti hann til einhvers samlanda. Þegar hann var kominn til Englands og hitti Eymundsson agent *„þá sýndi ég honum farbréf mitt, því ég hafði heyrt, að ég yrði að fara á öðru skipi en því, sem færi til Quebeck, en hann sagði að það væri sama, þó ég færi þaðan til Quebeck, ég kæmist þaðan til New York, og trúði ég því.“*

Mállaus í þrældómi á framandi slóðum

Sigurður Ingjaldsson: Ósérhlífinn dugnaðarmaður alla sína tíð.

Þegar vestur kom varð það til nokkurra vandræða að hann hafði ekki rétt farbréf, sem ég reikna með að sé það sem við í dag köllum vegabréfsáritun. Hann komst að vísu inn í Kanada, en seinna komu bróðir hans og mágkona, og á endanum eiginkonan Margrét, en þau fóru öll til New York til að hitta Sigurð Ingjaldsson þar. Vegna farbréfsvandans lenti hann í hópi sem var sendur 300 mílur inn í land; þegar þangað kom var hann spurður hvað hann kynni að vinna og hann nefndi þá sjómennsku, sem var heldur óhentugt svona órafjarri úthöfunum. Hann fór svo í erfiða og stórhættulega námuvinnu með miklum sprengingum og lífshættu, það var verið að vinna „fossfit.“
*„Mikið leiddist mér þessi vinna, því á hverjum morgni, sem við fórum ofan í námurnar, máttum við eins búast við að komast ekki lifandi þaðan, þann daginn. Lofaði ég guð á hverju kvöldi fyrir varðveislu hans þann daginn, og á hverjum morgni fól ég mig honum.“*

Sigurður lærir fljótt eitthvað hrafl í ensku og fer að geta bjargað sér; *„Nú vorum við ekki vel staddir, allslausir og mállausir að heita mátti. Ég fékk enska kennslubók um veturinn og var búinn að læra dálítið í henni og gat ofurlítið talað og var skárstur, þótt lítið væri.“* Hann notar ensku eðlilega líka yfir fyrirbæri sem hann þekkti ekki að heiman, og litar það frásögn hans á mjög skemmtilegan hátt; þegar hópurinn sem hann er með ferðast í lest þá skipta þeir sér niður á körin; hann stundar veiðað á rabitum og kattfiski, að ekki sé minnst á pikk og pæk.

Ávallt þakklátur guði og lífinu

Eitt af því sem gerir frásögn Sigurðar af ævi sinni jafn geðuga og raun ber vitni er að hann kvartar aldrei, kennir ekki öðrum um, liggur gott orð til nær allra, og hann er þakklátur guði sínum fyrir allt sem lánast í hans lífi. Þegar Margrét eiginkona hans kemst loks vestur og alla leið til Kanada þar sem hann dvelst, þá er það ekki beiskjan yfir þeirra sára aðskilnaði og óvissunni sem þau máttu búa við sem litar frásögn hans, heldur innilegt þakklæti til hans góða guðs fyrir að þau fengu eftir allt saman að sameinast á ný.

Höfundinum liggur eins og áður sagði gott orð til nær allra, og hann hefur hlýlegt samband við fólk af öllu þjóðerni þar vestra; í viðræðum við indverskan mann sem verður á vegi hans verða þeir þess áskynja að tungumál þeirra eru greinilega skyld og mörg orð samstofna, meðal annars hundur og köttur. Um landa sína segir hann: *„Ég ætla að lýsa fólkinu í Nýja-Íslandi eins og það kom mér fyrir sjónir. Það var þægilegt, greiðvikið og samhent og eins og einn maður í öllum málum, bæði pólitík og safnaðarmálum. Það voru allir með frjálslyndu stjórninni um kosningar, og allir virtust glaðir og ánægðir með kjör sín, þótt þeir væru ekki ríkir.“*

En svo kom sundrung og ósamlyndi

Gimli: Þar skrifaði Sigurður Ingjaldsson ævisögu sína.

Eins og þeir vita sem fengið hafa veður af sögu Vestur-Íslendinga þá hófust þar fljótt illvígir flokkadrættir út af minniháttar trú- eða safnaðarmálum; ein grein mótmælendakirkjunnar fór í hatrammar deilur við aðra. Er þetta þeim mun undarlegra að í þúsund ára sögu Íslendinga heima í gamla landinu hafði mönnum eiginlega aldrei þótt taka því að láta trúarkrytur mynda vík milli vina, og má nærri geta að þetta hafi fallið jafn jákvæðum manni og jafn miklum vini Drottins og Sigurði Ingjaldssyni mjög illa. Enda skín það úr eftirfarandi tilvitnun:

*„En þá kom sú sorglega breyting að Magnús Skaftason skipti um trúarskoðun sína, sem öllum er kunnugt. Eftir það skiptist fólk í 2 flokka í trúmálum og pólitískum málum, og hófst þá sundrung og ósamlyndi manna á milli, sem mér hefur virst halda áfram síðan.“*

Þessar trúardeilur voru þannig að þótt Halldór Laxness, þá kornungur maður færi upp úr 1920  til Nýja heimsins, líklega með það fyrir augum að dveljast í hópi landa sinna þar, þá gafst hann upp og flúði allt þetta stagl og nagg um smáatriði. En líklega fáum við aldrei að vita hvort hann hitti fyrir höfundinn Sigurð Ingjaldsson í þeirri heimsókn, eins gaman og hefði nú verið að hugsa til þess, en sá síðarnefndi lifði til jóla 1933.

Sigurður segir frá því á einum stað að hann hafi, eftir að hann kom vestur, sent bréf heim til Íslands með fréttum af sínum högum, og bætir því svo við að það bréf hafi þótt fróðlegt og greinargott, sem það hefur líka án efa verið. Kannski er það þess vegna sem hann fékk þá hugmynd að fara að skrifa þessa miklu ævisögu sína, sem ber einmitt greinargóðum og sterkminnugum manni vitni, sem segir frá á einföldu og kjarnmiklu alþýðumáli sem unun er að lesa.

Og falleg er myndin sem lesendur hljóta að fá í hugann af gamla fátæka Íslendingnum sem í hárri elli situr á sléttum Norður-Ameríku og skrifar stóra bók um allt sitt viðburðaríka líf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af