Eyjan

Kosið um festu og stöðugleika

Ritstjórn Eyjunnar skrifar
Sunnudaginn 22. október 2017 14:34
Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd: DV/Sigtryggur Ari

Það er ekki nema ár síðan við stóðum í nákvæmlega sömu sporum og nú: Alþingiskosningar framundan.

Er þetta ekki allt í lagi – er bara ekki í góðu lagi að kjósa einu sinni á ári?

Nei, það er ekki í lagi! Þessi óstöðugleiki í stjórnmálunum; þetta eilífa rót og tætingur er stærsta ógnin við þann efnhagslega stöðugleika sem sem við sækjumst svo mikið eftir – og stefnir í voða öllum þeim mikla árangri sem við höfum náð á síðustu árum.

Það er lífsnauðsyn fyrir atvinnulífið í landinu að fá nú meiri festu og fyrirsjánleika í umhverfi sitt. Fyrirtækin þurfa að geta gert langtímaáætlanir um rekstur og fjárfestingar. Og þetta er ekki bara mikilvægt fyrir fyrirtækin sjálf – heldur ekki síður fyrir fólkið sem vinnur hjá þeim.

Sjávarútvegurinn þarf að vita við hverskonar gjaldtöku hann á að búa næstu árin og helst áratugi.

Bændur þurfa að vita hvernig rekstrarumhverfi þeirra verður einhver ár fram í tímann; hvað eiga þeir að framleiða og hversu mikið.

Ferðaþjónustan þarf að vita með löngum fyrirvara í hvaða skattaumhverfi hún á að starfa.

Allur sá árangur sem við höfum náð í efnahagsmálum er í uppnámi ef nýir pólitískir lukkuriddarar komast til valda á nokkurra mánaða fresti – með nýja stefnu, nýja skatta og nýjar endurskoðunarnefndir. Halda svo fund eina kvöldstund – slíta ríkisstjórn – fara í kosningar og deyja. Næsti – gjörið svo vel! Og svo koll af kolli. Þetta býður heim svo mikilli óvissu og óstöðugleika í stjórnarfarinu að ekki verður við unað fyrir fólkið í landinu.

Kosningarnar núna snúast um festu og stöðugleika. Að komast út úr þessum vítahring. Ekki síst fyrir okkar kjördæmi, Suðurkjördæmi, sem á svo mikið undir þessum grunnatvinnuvegum komið. Þegar litið er yfir hið pólitíska landslag eins og það blasir við í dag, með klofningi og upplausn, má segja að eina haldfesta landsbyggaðarinnar sé í Sjálfstæðisflokknum.

Við þurfum festu og stöðugleika. Við þurfum sterkan Sjálfstæðisflokk.

Páll Magnússon.
Oddviti Sjálfstæðismanna og 1. þingmaður Suðurkjördæmis.

Birtist fyrst í Reykjanes. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af