Eyjan

Hagsmunamál eldri borgara voru ekki ofarlega á forgangslistanum hjá Katrínu og Vinstri grænum

Ritstjórn Eyjunnar skrifar
Sunnudaginn 22. október 2017 09:11
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna.

Sigurður Jónsson skrifar: Nú styttist í það að landsmenn gangi að kjörborðinu og velji sér þingmenn til að sitja á Alþingi. Athyglisvert er að fylgjast með
málflutningi Katrínar Jakobsdóttur formanns VG. Loforðin flæða úr munni hennar. Henni vefst aftur á móti tunga um tönn þegar hún er spurð hvernig eigi að fjármagna öll loforðin. Segist ekki ætla að hækka skatta á almenning nema á þá sem hafa yfir 25 milljónir í árstekjur. Hvernig ætlar hún að ná 70 milljörðum á ári á þennan hátt. Katrín segist ætla að fjölga skattþrepum. Það verður ekki gert öðru vísi en að auka skattbyrði millitekjuhópa. Í dag þurfa þeir sem eru með um 900 þúsund krónur í tekjur og meira að greiða af umframtekjum 46% í skatt. Er það bara ekki nóg.

Staðreyndin er sú að með þeirri leið sem Bjarni Benediktsson og Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað að taka eigi milljarða út úr bankakerfinu til að standa undir uppbyggingu innviðanna er óþari að ráðast í skattahækkanir. Það á frekar að stuðla að skattalækkunum hjá almenningi.

Sigurður Jónsson, höfundur greinar og ritstjóri Reykjaness.

Nú segir Katrín Jakobsdóttir og VG að gera verði mun betur við eldri borgara.
Sem betur fer eru allir stjórnmálaflokkar sammála um þetta. En hvernig
er reynsla eldri borgara af forgangsröðun Katrínar og VG þegar þau voru í Vinstri stjórninni. Hagur eldri borgara var ekki ofarlega á forgangslistanum hjá Katrínu formanni VG þá en hún átti sæti í Vinstri stjórninni. Eldri borgarar þurftu að sæta mikilli kjaraskerðingu hjá Vinstri stjórninni á meðan Katrín og félagar stóðu vörð um fjármálakerfið. Við erum ekki búin að gleyma þessu.

Eftir að Katrín og Vinstri stjórnin setti Evrópumet í fylgistapi hefur hagur eldri borgara lagast, en langt frá því að það sé nóg að gert. Eldri borgarar þurfa að fá mun meiri leiðréttingu,en miðað við fyrri reynslu er ekki líklegt að Katrín  Jakobsdóttir og VG setji það ofarlega á forgangslista sinn.

Til að hægt sé að bæta hag eldri borgara þarf að vera stöðugleiki og næg atvinna til að skapa ríkissjóði tekjur. Reynsla þjóðarbúsins af vinstri stjórn hefur aldrei verið góð.

Tvískinnungur Vinstri grænna í umhverfismálum

Vinstri græn gefa sig út fyrir að vera mikill umhverfisverndarflokkur. Á þeim tíma sem VG og Katrín Jakobsdóttir sátu í ríkisstjórn með Samfylkingunni var umhverfismálunum hressilega fórnað. Katrín Jakobsdóttir og félagi Steingrímur J. beittu sér af fullum þunga til að byggja kísilver á Bakka við Húsavík. Merkilegt að flokkur sem kennir sig við umhverfisvernd skuli stuðla að byggingu kísilvers sem kemur til með að brenna 66 þúsund tonnum af kolum á ári. Hvað á það skylt
við umhverfisnefnd?

Í umræðuþætti í sjónvarpinu var Katrín formaður VG spurð um þetta. Hún sagði að gera hefði þurft málamiðlum við Samfylkinguna. Katrín reynir sem sagt að koma skömminni yfir á Samfylkinguna. Ansi er þetta ódýrt hjá Katrínu. Sem sagt Katrín og VG voru reiðubúin að fórna umhverfishugsjóninni til að fá ráðherrastólana.

Geta kjósendur virkilega treyst svona stjórnmálamanni?

Annað dæmi um tvískinnung VG. Þau samþykktu að hefja olíuleit á drekasvæðinu. Reyndu svo að klóra yfir það þegar þau voru ekki lengur í ríkisstjórn.

Skítkast í stað málefna

Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með kosningabaráttunni að þessu sinni. Vinstri flokkarnir forðast það eins og heitan graut að ræða málefnin og hversu staða  þjóðarbúsins er góð. Sjálfstæðisflokkuirinn leggur áherslu á framtíðina,hvernig getum við haldið áfram að stuðla að framförum,hvernig er hægt að byggja upp innviðina og auka t.d. heilbrigðisþjónustuna, bæta hag eldri borgara,stuðla að því að yngra fólk geti eignast húsnæði svo eitthvað sé nefnf.

Nei, þetta vilja vinstri menn ekki ræða. Aðalatrið er að ráðast á manninn. Nógu mikið af skítkasti er þeirra aðalmarkmið.

Kjósendur fá tækifæri til að kveða upp sinn dóm laugardaginn 28.október n.k. Þú ræður hvort málefnaleg umræða með lausnum er það sem þú kýst eða hvort skítkastið.

Birtist fyrst í Reykjanes.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af