fbpx
Föstudagur 10.maí 2024
Eyjan

Guðjón Brjánsson: Hvernig á að auka sjávarútveg á Vestfjörðum?

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 22. október 2017 07:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Blaðið Vestfirðir sendi frambjóðanda í efsta sæti á öllum níu listum í Norðvesturkjördæmi svohljóðandi spurningu: Aðeins um 7% af framleiðslunni í sjávarútvegi var 2015 á Vestfjörðum, en hlutfallið var um 16% fram til um 1995. Hvaða breytingar telur þú að þurfi að gera, m. a. á löggjöf um stjórn fiskveiða, til þess að sjávarútvegur vaxi á Vestfjörðum til fyrra horfs? 

Guðjón Brjánsson, Samfylkingin.

Þróunin á Vestfjörðum og víðar hefur verið nöturleg og við horfum upp á það með trega. Núverandi kerfi hefur leitt til þessa og fyrirstaða virðist harla lítil. Sömuleiðis virðist enn lítill pólitískur vilji í raun til breytinga og til að rétta hag sjávarbyggða sem farið hafa halloka í núverandi laga- og rekstrarumhverfi.  Ein birtingarmyndin er sú að auki að starfsmenn í greininni eru gerðir uggandi um sinn hag, því skilaboðn frá útgerðinni eru skýr, að breytingar þýði ekkert annað en ólán, atvinnumissi og almenna ógæfu fyrir land og þjóð.

Það er ekki auðvelt að sjá hvernig Vestfirðir geti náð fyrri stöðu í óbreyttu umhverfi. Fiskveiðikerfinu þarf að breyta í heild sinni en þó er hægt að taka lítil en markviss skref í áttina strax. Það var áréttað fyrr á þessu ári þegar við í Samfylkingunni lögðum fram frumvarp til breytinga á núverandi lögum um stjórn fiskveiða. Breytingin gekk út á, að á því fiskveiðiári sem nú er nýhafið yrði viðbótarkvótanum ekki dreift með sama hætti og áður. Tvö árin á undan hafði þorskkvótinn verið aukinn umtalsvert og horfur eru á sömu þróun á næstu árum. 1. september s.l. var hann aukinn um 11 þús. tonn að mig minnir.  Þá aukningu vildum við skv. frumvarpinu að yrði tekin til hliðar og boðin út í tilraunaskyni.  Það hefði engan skaðað og ekkert verið tekið frá neinum. Með því hefði hinsvegar fengist dýrmæt reynsla á þeirri leið sem við tölum fyrir. Í útfærslu tilboðsleiðarinnar yrðu settar reglur sem tækju tillit til byggðasjónarmiða til að koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða.  Þetta hefði aukið svigrúm innan kerfisins og sennilega gert nýliðun viðráðanlegri og veitt best reknu fyrrtækjunum aukin tækifæri hvort sem þau eru gömul eða ný. Á þetta var blásið með gamalkunnum rökum, aðrir í minnihlutaflokkar hengdu haus og við sitjum enn föst í sama farinu.

Það er komin marktæk reynsla af þeirri aðferð sem er notuð við álagningu veiðigjalda.  Staðan er og hefur verið sú að nýliðar borga fullt verð fyrir veiðiheimildir til kvótaeigenda.

Í þorski er þetta um þessar mundir c.a. 2800 kr. fyrir aflahlutdeild (langtímaveiðirétt) en 170 kr. fyrir aflamark (leiguliðarnir). Ríkið bætir svo sínum auðlindagjöldum ofaná. Núna eru þau 23 kr. á kíló. Þessi aðferð lokar aðganginum fyrir nýliðun. Vilji stjórnvöld fá hærri hlut arðsins til ríkisins loka þau enn meira fyrir aðgang nýliða. Þetta er vítahringur sem kemur líka í veg fyrir að þróun geti orðið til eðlilegs endurgjalds af auðlindinni. Með öðrum orðum, ríkisvaldið afhendir útgerðarmönnum séraðstöðu til að selja aðgang að atvinnugreininni, svo einfalt og skýrt er það.  Þeir mæta á hafnarbakkann og innheimta fullt verð af nýliðum og kvótalitlum útgerðum. Þegar svo þessir sömu nýliðar og kvótalitlir útgerðarmenn koma að landi með afla sinn mætir síðan ríkið og heimtar sinn hlut.

Þetta er vítahringur og sjálfhelda sem kemur í veg fyrir að þjóðin fái eðlilegt afgjald af auðlindinni og brot á jafnræði þeirra sem vilja stunda útgerð og þetta er óboðleg gagnvart nýliðum og kvótalitlum útgerðum.  Þetta er það kerfi sem íhaldsöflin verja með kjafti og klóm.

Einn af kostum tilboðsleiðar er að leigugjald sem greitt er fyrir aflahlutdeildir sveiflast sjálfkrafa með arðsemi veiða og dregur úr líkum á pólitískum inngripum um ákvörðun leiguverðs. Þannig byggist upphæð leigugjalds ekki á matskenndum ákvörðunum. Eigendur auðlindarinnar, fólkið í landinu getur treyst því að ekki sé verið að hygla einum umfram annan. Útgerðin ákvarðar sjálf það gjald sem hún telur sér fært að greiða fyrir aðgang að auðlindinni með tilboðum á markaði og það kemur líka í veg fyrir brask með kvótann. Einnig styrkir tilboðsleiðin rekstrarumhverfi sjávarútvegsins til lengri tíma vegna þess að duttlungar stjórnmálamanna ráða ekki með ófyrirséðum breytingum frá einu kjörtímabili til annars.

Stefna Samfylkingarinnar byggist á jafnræði og í þá veru viljum við breyta kerfinu.  Það er sannarlega ástæða til að árétta það með þær væntingar í huga að hagsmunaaðilar skoði málin með ábyrgum og yfirveguðum hætti í því ljósi.

Birtist fyrst í Vestfirðir. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Ólafur Ragnar tekur sér Eirík Fjalar til fyrirmyndar og telur sig vera höfund þjóðarsáttarinnar

Orðið á götunni: Ólafur Ragnar tekur sér Eirík Fjalar til fyrirmyndar og telur sig vera höfund þjóðarsáttarinnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Spáglaðir jarðfræðingar

Óttar Guðmundsson skrifar: Spáglaðir jarðfræðingar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Fast skotið á Höllu Hrund – Líkt við froðusnakk sem hafi það eitt fram að bjóða að hafa búið í blokk og farið í sveit

Fast skotið á Höllu Hrund – Líkt við froðusnakk sem hafi það eitt fram að bjóða að hafa búið í blokk og farið í sveit
Eyjan
Fyrir 1 viku

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Tómasdóttir – fólkið velur forsetann, ekki fjölmiðlar eða skoðanakannanir

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Tómasdóttir – fólkið velur forsetann, ekki fjölmiðlar eða skoðanakannanir