fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Áherslur flokkanna: Samgöngumálin

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 20. október 2017 19:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyjan mun fram að kjördegi bjóða framboðum sem taka þátt í Alþingiskosningunum 28. október næstkomandi að svara spurningum um ýmis málefni, allt frá landbúnaðarmálum til afstöðu flokkanna til veru Þjóðkirkjunnar á fjárlögum.

Í dag er spurt:

Hver er stefnan í samgöngumálum?

Svörum flokkanna er raðað eftir listabókstaf framboðsins.

 

Björt framtíð – X-A

 

Björt framtíð vill að samgönguáætlun verði alltaf höfð til grundvallar uppbyggingu og viðhaldi á samgöngukerfinu svo hægt sé að forgangsraða verkefnum og leggja raunhæft mat á árlegan kostnað við viðhald og nýlagningu vega og flugvalla eða annarra samgöngubóta . Álag á vegakerfið hefur til að mynda aukist gríðarlega undanfarin ár en viðhald á því hefur verið algerlega úr takti. Við viljum efla almenningssamgöngur og gera þær að raunverulegum valkosti. Framlög til samgöngumála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa þar að auki lækkað frá árinu 2013. Við kunnum ekki að meta svona vinnubrögð. Framtíðarsýnin þarf að vera skýr svo hægt sé að gera langtímaáætlanir sem taka til kostnaðar og framkvæmdahraða.

Björt framtíð telur líka mikilvægt að samstarf ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um Borgarlínu hefjist hið allra fyrsta og stigin verði ákveðin skref í þá veru strax í vetur.
Ef ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir lausn á áratugadeilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar er mikilvægt að hafist sé handa strax með því að stofna til formlegra viðræðna samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila.
Björt framtíð telur að skoða þurfi kosti þess að hefja gjaldtöku á helstu stofnbrautum út af höfuðborgarsvæðinu en í því felast tækifæri til að gera stórátak í uppbyggingu vegakerfisins þar sem umferðin er mest. Forsendan er að gjaldtakan standi undir framkvæmdunum og að vegafé verði ekki skert á móti heldur frekar aukið í og það notað til uppbyggingu samgagna á landsbyggðinni.

 

Framsóknarflokkurinn – X-B

 

Framsókn vill stórauka framlög til viðhalds og nýbyggingu vega

Slysatíðni vegna umferðar hefur hækkað um 13% sl. þrjú ár. Vegakerfið er að hruni komið. Framsókn vill stórauka framlög til að auka umferðaröryggi. Viðhald og nýbyggingar vega er ein mikilvægasta fjárfesting landsmanna. Greiðar samgönguleiðir eru lífæð búsetu í landinu.

Framsókn hafnar hugmyndum um vegatolla

Vegatollar eru viðbótarskattur sem leggst þyngst á þá sem sækja vinnu daglega til höfuðborgarsvæðisins.

Framsókn hafnar tillögu um hækkun olíugjalds

Eldsneytishækkanir koma verst niður á fjölskyldum sem hafa minni tekjur og íbúum á landsbyggðinni sem oft þurfa að sækja nauðsynjar, þjónustu og félagsstarf um langan veg. Framsókn vill ekki hækka álag á olíu á meðan innviðir fyrir rafbíla og tækniþróun er takmarkandi þáttur í notkun þeirra.

Framsókn vill efla almenningssamgöngur

Innanlandsflug er ekki raunhæfur kostur fyrir fjölskyldur vegna hárra flugfargjalda. Framsókn vill taka upp niðurgreiðslu á flugi innanlands fyrir íbúa á landsbyggðinni að skoskri fyrirmynd.

 

Viðreisn – X-C

 

Þjóðin þrífst best með blómlegri byggð. Til þess þarf góðar samgöngur, atvinnutækifæri, háhraðanettengingu og aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu. Innviði á að byggja upp á grunni jafnréttis, jafnræðis borgaranna og ákvarðanir á að taka með góðum stjórnarháttum.

Samgöngumannvirki mæti kröfum nútímans

Landsmenn og ekki síður ferðamenn eiga að komast um öruggar samgönguæðar um allt land árið um kring. Án tafar þarf að gera úrbætur á fjölförnum vegum þar sem dæmin sýna að slys eru tíð. Leggja þarf áherslu á fjölbreyttar samgöngur og greiða fyrir samgöngumáta sem stuðlar að heilbrigðari lífsstíl. Gæta skal þess að hagsmunir heildarinnar séu hafðir í fyrirrúmi við stefnumótun í samgöngumálum.

Öruggur aðgangur að rafmagni

Flutningskerfi raforku þarf byggja upp þannig að það sinni orkuþörf almennings og atvinnulífs með öryggi hvar sem er á landinu. Haga þarf lagningu raflína þannig að það valdi sem minnstri röskun og grafa í jörð eftir föngum þegar umhverfisrök eru sterk.

Háhraða netsamband til allra

Fyrsta flokks netsamband er órjúfanlegur þáttur þess að gott atvinnu- og mannlíf fái þrifist um land allt. Þeirri uppbyggingu verður að hraða. Netsamband Íslands við umheiminn þarf að sama skapi að vera öflugt og traust. Gera þarf nauðsynlegar öryggisráðstafanir til að tryggja að það rofni ekki.

 

Sjálfstæðisflokkurinn – X-D

 

  • Stórauka þarf fjármagn til viðhalds og uppbyggingar á vegakerfi landsins
  • Fækkum einbreiðum brúm og aukum umferðaröryggi á þjóðvegum
  • Ferjuleiðir verði hluti af þjóðvegakerfinu
  • Ljósleiðaratenging landsins tryggð
  • Stuðla að öflugu innanlandsflugi og millilandaflugi
  • Áhersla lögð á viðhald flugmannvirkja í samræmi við alþjóðastaðla
  • Reykjavíkurflugvöllur verður í Vatnsmýri

Samgöngur eru æðakerfi landsins og mikilvæg undirstaða atvinnulífs, ferðaþjónustu og samkeppnishæfni byggðarlaga landsins. Fjárfestingar í innviðum samfélagsins eru almennt arðsamar, enda þjóna þær Íslendingum, ferðaþjónustu og styrkja bæði atvinnulíf og búsetu. Því ber að efla almenningssamgöngur jafnt í þéttbýli sem og í hinum dreifðari byggðum. Skoða þarf sérstaklega annars konar fjármögnun samgöngumannvirkja en bein framlög af fjárlögum, svo sem samstarfsfjármögnun.

Allar framkvæmdir í samgöngumálum hafi aukið öryggi að leiðarljósi. Sjálfstæðisflokkurinn vill veita stórauknu fjármagni til viðhalds á vegakerfi landsins sem hefur látið á sjá á undanförnum árum. Aukin burðargeta og stytting vegalengda verði þar markmiðið.

Átak hefur verið gert í því að fækka einbreiðum brúm. Vinna þarf áfram ötullega að fækkun þeirra, bæði til þess að auka umferðaröryggi og greiða fyrir umferð. Ferjuleiðir verði skilgreindar sem hluti af þjóðvegakerfinu og sem liður í eflingu ferðaþjónustu.

Ljósleiðaratengingu landsins hefur miðað vel en Sjálfstæðisflokkurinn mun gera gangskör að því að breiða háhraðatengingar út til hinna dreifðu byggða. Það er mikilvægt lífsgæðamál en jafnframt lykill að styrkingu fjölbreytts atvinnulífs á landsbyggðinni. Verkefnið Ísland ljóstengt hefur að markmiði að koma á 4000 ljóstengingum fyrir árslok 2020. Þar verður um eina mestu innviðabyltingu fjarskipta í landinu að ræða.

Hlúð verður að öflugu innanlandsflugi, sem er mikið hagsmunamál fyrir þjóðina alla. Hafin er vinna við að fara yfir núverandi fyrirkomulag og er henni ætlað að bæta aðgengi landsmanna og ferðaþjónustunnar að hagkvæmu innanlandsflugi og styrkja atvinnurekstur á landsbyggðinni. Lögð verður áhersla á viðhald flugvalla og varaflugvalla í samræmi við alþjóðastaðla.

Reykjavíkurflugvöllur er og verður í Vatnsmýri þar til betri kostur finnst. Flugvöllurinn er þýðingarmikil miðstöð íslensks áætlunarflugs, áfangastaður til bráða- og hátæknisjúkrahúss landsins og mikilvægur varaflugvöllur millilandaflugs. Jafnframt verði áfram hugað að uppbyggingu flugvalla til þess að styrkja millilandaflug til fleiri staða en Keflavíkurflugvallar.

 

Flokkur fólksins – X-F

 

Gert verði átak til að efla samgöngur og umferðaröryggi í landinu. Flugvöllur verði áfram staðsettur í Vatnsmýri.

 

Píratar – X-P

Píratar vilja tryggja viðunandi almenningssamgöngur til allra þéttbýlisstaða á landinu til að jafna megi aðgengi allra íbúa landsins að grunnþjónustu, t.d. heilbrigðisþjónustu og menntun, óháð búsetu. Með stórbættum samgöngum má stuðla að betri dreifingu ferðamanna sem losar um spennu á suðvesturhorni landsins og eykur hagsæld alls staðar á landinu, auk þess að minnka álag á þeim ferðamannastöðum sem eiga í vök að verjast vegna mikils ágangs.

Fjármögnun samgönguáætlunar

Samgönguáætlun, sem samþykkt var í breiðri sátt á Alþingi fyrir rúmu ári, er afar metnaðarfull og vilja Píratar fjármagna hana að fullu, eins og fram kemur í frumvarpi þeirra til fjárlaga, þar sem skref í þá átt kynnt var fyrir nokkrum dögum. Með því verður loksins hægt að hrinda henni í framkvæmd að fullu, sem mun þýða miklar umbætur í vegamálum, ferjusiglingum, hafnamálum og síðast en ekki síst fjarskiptamálum.

Rafvæðing samgangna

Píratar leggja mikla áherslu á að samgöngur verði rafvæddar, svo fljótt sem auðið, enda eru helstu sóknarfæri þjóðarinnar í loftslagsmálum fólgin í því. Mikilvægt er að hið opinbera gangi á undan með góðu fordæmi, styrki enn frekar uppbyggingu rafhleðslustöðva og framlengi jákvæða hvata til kaupa á umhverfisvænum samgöngutækjum.

Vegtollar

Píratar hafna hugmyndum um vegtolla vegna framkvæmda á vegum ríkisins, ekki hvað síst ef um er að ræða einu leiðirnar sem í boði eru. Slíkar hugmyndir munu verða til þess að auka skattbyrði almennings og koma verst við pyngju þeirra sem minnst fjárráðin hafa.

Að lokum

Píratar líta svo á að bættar samgöngur, hvaða nafni sem þær nefnast, muni stuðla að aukinni hagsæld alls staðar á landinu og að aukinni og nauðsynlegri sjálfbærni á landsbyggðunum. Þannig aukast lífsgæði allra.

 

Alþýðufylkingin – X-R

 

Tryggja þarf almenningi aðgang að góðu, tíðum og ódýrum almenningssamgöngum í lofti, á láði eða legi. Mikilvægt er að þær séu félagslega reknar. Þetta er ekki bara velferðarmál, heldur líka umhverfismál því góðar almenningssamgöngur ættu að minnka notkun einkabílsins. Auk þess þarf að félagsvæða alla orkusölu og aðra innviði samgöngukerfisins. Hindra þarf einkavæðingu og gjaldtöku á vegum.

Samgöngur þarf að rafvæða eins og kostur er með nauðsynlegu þjónustuneti við rafbíla. Ríkið á að gefa rafmagn á rafbíla til að hvetja fólk til að eignast þá, enda er rafmagnið innanlands en einnota orkugjafar innfluttir og borgaðir með erlendum gjaldeyri. Byggja þarf rafknúið lestakerfi á höfuðborgarsvæðinu, sem gæti teygt sig til nágrannasvæða. Öflugar og rafknúnar almenningssamgöngur munu bæta ásýnd þéttbýlisins og loftgæði og spara á mörgum sviðum.

Aðgengi að upplýsingum, got símasamband og aðstaða til fjarskipta eru einnig samgöngumál. Tryggja verður öllum góðan, öruggan og ódýran aðgang að fjarskiptum óháð búsetu en til þess verður að félagsvæða símkerfið.

 

Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands – X-S

 

Þau framlög sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir til samgangna og fjarskipta er of lítil og það hamlar eðlilegri þróun atvinnulífs og rýrir búsetuskilyrði víðs vegar um landið. Ástand vegakerfisins er orðið bágborið bæði vegna þess að viðhaldi er ekki sinnt og nýframkvæmdir er litlar í sögulegu samhengi. Á sama tíma stóreykst álag á vegi landsins vegna fjölgunar ferðamanna.

Stórauka þarf almenningssamgöngur í þéttbýli og dreifbýli. Til að spara fé, fjölga ódýrum ferðamöguleikum, bæta loftgæði, lýðheilsu og lífsgæði.

Samfylkingin leggur áherslu á að:

  • staðið verði við samgönguáætlun sem var samþykkt á Alþingi. Bættar samgöngur skila sér í margvíslegu formi til íbúa landsins. Betri og greiðari samgöngur styrkja atvinnuvegina, búsetuskilyrðin og stuðla að uppbyggingu og bættri líðan fólks á landssvæðum þar sem samgöngur eru svo slæmar að ástandið bitnar á lífsgæðum íbúa.
  • nauðsynlegt er að ríkið kom að uppbyggingu borgarlínu í samstarfi við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og efli almenningssamgöngur um allt land.
  • byrja undirbúningsvinnu vegna sjálfakandi bifreiða og þeirra breytinga sem sú tækni mun hafa í för með sér. Almenningssamgöngur munu þrátt fyrir þessa þróun gegna lykilhlutverki í góðu samgöngukerfi sem er aðgengilegt öllum og því mikilvægt að efla þær.

 

Vinstrihreyfingin grænt framboð – X-V

 

Vinstri græn leggja áherslu á markvissa uppbyggingu í vegamálum með sérstakri áherslu á viðhald. Markaðir tekjustofnar þurfa að renna óskipt til samgöngumála.

Umhverfissjónarmið þarf að hafa að leiðarljósi við allar ákvarðanir í samgöngumálum þar sem mikil tækifæri eru í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda í þeim málaflokki.

Áfram þarf að byggja upp almenningssamgöngur um land allt og auka möguleika gangandi og hjólandi vegfarenda í þéttbýli. Huga þarf að lestarsamgöngum og borgarlínu í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Hrinda þarf af stað stórátaki í þrífösun rafmagns í dreifbýli og gera tímasetta áætlun um að ljúka háhraðanettengingu um allt land.

Unnið verði að því að opna fleiri hlið inn til landsins til að auka möguleika fleiri svæða til að uppskera arð af ferðaþjónustu.

Samgöngukerfið er ein mikilvægasta leið Íslendinga til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þættir í því verkefni eru rafvæðing hafna, rafbílavæðing og notkun lífeldsneytis í öðrum samgöngumátum.

 

Sjá einnig:

Þrjú helstu atriðin sem flokkurinn setur á oddinn í kosningabaráttunni

Velferðarmálin og almannatryggingar

Efnahags- og atvinnumál

Mennta- og menningarmál

Utanríkismál

Stjórnkerfið

Það sem kjósendur ættu að varast

Umhverfismál

Þarf að herða refsingar í kynferðisbrotamálum?

Samgöngumál

Á Þjóðkirkjan að vera á fjárlögum?

Stjórnarskráin

Húsnæðismál

Sjávarútvegsmál

Uppreist æra

Málefni krabbameinssjúklinga

Útlendingamál

Landbúnaðarmál

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins