Eyjan

Píratar vilja láta viðurkenna „þriðja“ kynið

Ari Brynjólfsson
Fimmtudaginn 12. október 2017 18:49

Oktavía Hrund Jónsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson. Samsett mynd/DV

Píratar vilja að „þriðja“ kynið verði formlega viðurkennt í opinberum skráningum hér á landi. Þýðir það meðal annars að á vegabréfum gefist einstaklingum kostur á því að skilgreina sig sem kvenmann, karlmann eða „þriðja“ kynið. Slíkt hefur þegar verið gert á Indlandi, Pakistan, Nepal, Ástralíu og á Nýja-Sjálandi.

Þetta atriði kemur fram í jafnréttisstefnu Pírata varðandi staðalmyndir og skapaðist nokkur umræða um málið á Fésbókarvegg Oktavíu Jónsdóttur sem skipar 2. sæti á lista Pírata í Suðvesturkjördæmi. Alda Villiljós stofandi Kynsegin Ísland vill að Píratar sleppi því að innleiða hugtakið „þriðja kynið“ þar sem í sumstaðar sé slík kynskráning notuð til að meina börnum aðgang að opinberri þjónustu. Helgi Hrafn Gunnarsson oddviti Pírata í Reykjavík spurði hvernig væri best að hafa þetta:

Ég skildi þetta alltaf þannig að „þriðja kynið“ væri í gæsalöppum einmitt vegna þess að það ætti bara að vera eitthvað í líkingu við „gef ekki upp“ eða „á ekki við“ eða eitthvað í þeim dúr.

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, sem hefur verið áberandi í baráttu hinsegin fólks, segir best að tala um kynhlutlausa skráningu:

Það forðar okkur frá því að nota úrelt orðalag eða sérstaklega tileinka ákveðnum hóp skráninguna.  Ég myndi því frekar orða þetta á þá leið að Píratar vilji lögleiða kynhlutlausa skráningu á vegabréfum, skilríkjum og opinberum skrám.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af