Eyjan

Fiskimið, og einkaleyfi Seldens

Ari Brynjólfsson
Fimmtudaginn 12. október 2017 19:55

Einar Kárason rithöfundur og frambjóðandi Samfylkingarinnar. Mynd/Sigtryggur Ari

Einar Kárason skrifar:

Ég skrifaði um daginn grein auðlindamálin sem birtist hér á Eyjunni, og fékk við henni afar sterk og góð viðbrögð, jafnt í kommentum, tölvupóstum sem símhringingum. En málið snýst um það að tilteknir aðilar hafa fengið gefins einkarétt á nýtingu fiskistofnanna, og að þeir hinir sömu selja svo öðrum þeim sem vilja róa til fiskjar aðgang að auðlindinni en og hirða sjálfir andvirðið – gjaldið sem menn greiða fyrir aðgang að verðmætustu eigum þjóðarinnar. Þessu var líkt við það að fáum útvöldum yrði veittur einkaréttur til að sýna fólki þjóðgarða og náttúruperlur og selja aðgang að þeim í eigin vasa.

George B. Selden.

Í umræðum sem spunnust í framhaldinu kom mér í hug bók sem ég las sem unglingur, úr þýddum bókaflokki um allskyns frumkvöðla og brautryðjendur, en sú sem hér um ræðir var um ameríska bílaframleiðandann Henry Ford. En það sem hann mátti slást við þegar hann hafði fengið þá hugmynd að búa til einfalda og ódýra bíla fyrir alþýðu manna og hafði fundið aðferð til að framkvæma hana þá þurfti hann að fara í mikið stríð og skæklatog við hóp manna sem höfðu keypt Einkaleyfi Seldens – en George B. Selden var glúrinn lögfræðingur sem hafði verið nógu framsýnn til að fá sér patent fyrir framleiðslu sjálfrennireiða árið 1895. Í bókinni var barátta Fords við þessa einkaleyfishafa sett fram sem grátlegur og fáránlegur ójöfnuður, og mikill var léttir unglingsins sem sökkti sér ofan í bókina þegar Henry Ford hafði sigur að lokum. En því kemur mér þetta í hug að barátta t.d. nýliða fyrir að fá að róa til fiskjar minnir á ástandið sem lýst var í bókinni.

2800 kr fyrir langtímaveiðirétt, en 170 kr fyrir aflamark

(Hvar skyldu þær tölur vera fengnar?)

 Veltum því fyrir okkur að „eigendur“ einkaréttarins til að sækja á íslensk fiskimið reka jafnan upp ramakvein þegar jafnaðarmenn setja fram þá hugmynd að þeir sem róa greiði þjóðinni markaðsverð fyrir afnotin; það er sagt ranglátt og að það yrði útgerðum ofviða.

Hinsvegar finnst sömu útgerðargreifum ekki nema sjálfsagt að þeir fái að selja réttinn, sem þeir fá ókeypis, á markaðsverði frá sér, til dæmis til þeirra nýliða sem hafa komið sér upp bátshorni og vilja halda á miðin. Í tölvupósti sem ég fékk frá fiskihöfn hér við Faxaflóann kom þetta fram: „Nýliðar borga fullt verð fyrir veiðiheimildir til kvótaeigenda. Í þorski er þetta nú um stundir ca. 2800kr fyrir aflahlutdeild (langtímaveiðirétt) en 170kr. fyrir aflamark (leiguliðarnir)“

Hér er verið að tala um hvert kíló af þorski.

Hversu yfirgengilega fáránlegt er þetta? Hvílíkt himinhrópandi ranglæti!

Úr því að stöndugum og rótgrónum útgerðarmönnum finnst sanngjarnt að aðrir borgi þeim sjálfum 170 krónur fyrir að fá að draga kíló af þorski úr auðlindinni, af hverju eru þeir þá ekki látnir gera það sjálfir? Eða að þeir greiði að minnsta kosti markaðsverð samkvæmt útboði á veiðiheimildum, eins og hefur verið stefna Samfylkingarinnar frá stofnun.

Kerfi svokallaðra veiðigjalda, sem hefur orðið ofaná í þessum efnum er miklu verra en útboðsleiðin. Eins og sést á því að leiguliðinn borgar einkaaðila á hafnarbakkanum 170 krónur (sem má nú kalla fullt gjald) fyrir að fá að draga þorskkíló úr sjónum, en svo þarf hann að auki að greiða ríkinu veiði- eða auðlindagjaldið, sem nú er 23 krónur á kílóið.

Þeir sem aðhyllast réttlæti og skynsemi í þessum efnum eiga ekki að þurfa að velkjast í vafa um hvað þeir skuli kjósa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af