fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

„Frægur klofningsmaður“ mætti á stofnfund Miðflokksins

Ari Brynjólfsson
Þriðjudaginn 10. október 2017 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margt var um manninn á stofnfundi Miðflokks Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar í Rúgbrauðsgerðinni á sunnudag. Sigurður Bogi Sævarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, var mættur með myndavélina á lofti og vakti athygli á því á Facebook að á meðal fundargesta hefðu verið tveir annálaðir uppreisnarmenn í hinum ýmsu samtökum og flokkum hefðu ekki látið sig vanta.

Stofnfundur Miðflokksins í dag. – Það þykir nú alltaf svona og svona í starfi svona samtaka og nánast váboði þegar Guðbjörn Jónsson félagaskelfir og Eiríkur Stefánsson fv. verkalýðsleiðtogi á Fáskrúðsfirði eru mættir. En þeir létu sig ekki vanta.

Færsla Sigurðar Boga vakti athygli þeirra sem eru eldri en tvævetra í stjónmálaumræðinni og þannig sagði Illugi Jökulsson í athugasemd við færslu Sigurðar Boga að:

Nú, mætti Guðbjörn? Það var í rauninni eina spurningin sem skipti máli. Hann mætti síðast á stofnfund Sósíalistaflokksins.

Atli Rúnar Halldórsson, almannatengill, lagði einnig orð í belg:

Ég sá andlit á stofnfundinum í sjónvarpsfréttum sem ég kannaðist við frá Alþýðuflokki, Framsókn, Bandalagi jafnaðarmanna, Þjóðvaka, Borgaraflokki og enn fleiri flokkum og flokksbrotum sem ég man ekki lengur að nefna. Það væri flókið að biðja um svona kokkteil á barnum …

Eiríkur Stefánsson hefur meðal annars látið til sín taka innan Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins með eftirminnilegum bægslagangi og saga brösóttra samskipta Guðbjarnar Jónssonar, fv. ráðgjafa, í ýmsum flokkum og félögum er býsna löng. Hann hefur þannig lengi verið kallaður „félagaskelfir“ og „frægur kofningsmaður.“

Félagaskelfirinn

Síðast sást til Guðbjarnar á fundi Sósíalistaflokks Gunnars Smára Egilssonar en sem kunugt er hefur sá flokkur hætt við framboð. Í bili að minnsta kosti. Guðbjörn hefur einnig í seinni tíð komið að stafi Íslensku þjóðfylkingarinnar og sýnt starfi Flokks fólksins áhuga.

Í ársbyrjun 1995 gekk Guðbjörn út af fyrsta landsþingi Þjóðvaka vegna ágreinings um breytingartillögu hans og fleiri um stefnu flokksins í sjávarútvegsmálum. Í frétt Morgunpóstsins fá 30. janúar 1995 segir um útgöngu Guðbjarnar og félaga:

Þetta kemur ekki öllum jafn mikið á óvart, einkum þegar haft er í huga að einn þeirra sem gekk út var Guðbjörn nokkur Jónsson. Guðbjörn er annálaður flokkaskelfir og fundaskelfir þó svo að hann segi í grein sem skrifuð var í Pressunni 2. desember 1992 undir fyrirsögninni „Arkitekt klofnings í þremur félögum“ að hann sé „aldeilis enginn klofningsmaður, þvert á móti er ég maður málamiðlana.“

Pressugreinin sagði einnig frá því þegar Guðbjörn sagði af sér sem varaformaður Landssamtaka atvinnulausra vegna ágreinings við formanninn.  Annað félag voru samtök gjaldþrota fólks, G-samtökin, þar sem Guðbjörn bauð fram þjónustu sína.

Þar mun hann hafa tekið upp á því að meina fólki aðgang og svo rammt kvað að ofríki hans að formaðurinn og stofhandinn, Grétar Kristjánsson, hætti,

segir í frétt Morgunpóstsins:

Þetta leiddi síðar til þess að Guðbjörn stofnaði ný samtök, Nýja framtíð, en samkvæmt heimildum Pressunnar mættu þrír á stofnfundinn.

Guðbjörn starfaði einnig fyrir Landsamband kanínubænda þar sem gustaði af honum og einnig komst hann upp á kannt við menn í Félagi farstöðvaeigenda.

Traustur stuðningsmaður Sigmundar Davíðs

Sigmundur Davíð ætti þó ekki að þurfa að hafa þungar áhyggjur af áhuga Guðbjarnar á starfi Miðflokksins þar sem Guðbjörn er yfirlýstur og einarður stuðningsmaður Sigmundar Davíð.

Hann hefur til dæmis varið Sigmund Davíð og Wintris-málið í löngum bloggfærslum á Moggabloggi sínu. Þar segir hann meðal annars:

„Það er afar sorglegt að hugsa til þess að í þjóðfélagi okkar skuli vera til svo illviljandi fólk að það spinni upp mikinn lygavef gagnvart eina manninum sem hafði kjark, styrkleika og þekkingarlega getu, til að standa svo í vegi fyrir risavöxnum fjármálaöflum, sem höfðu sett stefnuna á að knésetja þjóðina og hirða af henni allar tekjugefandi auðlindir og leigja henni svo aftur nýtingarrétt þeirra á okurverði. Með slíku hefði hér orðið til frambúðar fátæktarríki, einskonar þrælanýlenda fjármagnsaflanna, sem hirða mundu allan afrakstur af erfiði þjóðarinnar.“

Þá hefur hann mætt vaskur Sigmundi Davíð til varnar í þáttum á Útvarpi Sögu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega