Eyjan

Bjarni: „Við getum tekið tugi milljarða út úr bankakerfinu“

Ari Brynjólfsson
Þriðjudaginn 10. október 2017 21:30

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd/Sigtryggur Ari

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir að hægt sé að taka tugi milljarða úr bankakerfinu áður en bankarnir verða seldir til að byggja upp innviði í landinu. Fram kom í nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga um ástand innviða að 372 milljarða vantar í viðhald helstu innviða landsins, svo sem flugvalla, hafna, vega og fasteigna. Þar af vantar 100 milljarða í vegakerfið.

Bjarni sagði í þættinum Forystusætið á RÚV að hann sæi augljósa leið til að afla tekna í þetta verkefni:

Þetta er gríðarlega mikil áskorun og það er von að spurt sé hvernig eigum við að fara að þessu. Nú hefur samgönguráðherrann látið teikna upp þessu stofnæðar út frá höfuðborgarsvæðinu og bent á hversu mikið þetta kosti. Það hefur verið bent á að ef menn fara veggjaldaleiðina, sem við höfum sagt að sé ekki okkar leið, það væri hægt að gera það svona og svona. Ein augljós leið í mínum huga er sú að horfa til alls þess fjármagns sem er inni í bankakerfinu. Við getum minnkað bankakerfið. Við getum tekið tugi milljarða út úr bankakerfinu, jafnvel áður en við losum um eignarhaldið, sem ég vil að við gerum í framtíðinni,

sagði Bjarni. Nefndi hann að bankarnir væru nú að fá greiðan aðgang að alþjóðlegum fjármálamörkuðum og gæti því fjármagnað sig með víkjandi lánum:

Það mun losa um gríðarlega mikið fjármagn sem ella er bundið í eigið fé bankanna. Hérna erum við að tala um tugi milljarða, jafnvel allt að hundrað milljörðum. Við höfum reyndar tekið út úr bankakerfinu hundrað milljarða í arð á síðustu tveimur árum. Þarna er fjármagn sem er ekki getið um í langtíma fjármálaáætlun í ríkisfjármálum, sem við í Sjálfstæðisflokknum sjáum fyrir okkur að nýta til þess að fara í þessa innviðauppbyggingu. Klára til dæmis byggingu nýs Landspítala, fara í vegina og brýrnar, auka öryggi í umferðinni. Vegna þess að það er ekki rekstur, það er fjárfesting til framtíðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af