Eyjan

Bleikt

Orðið á götunni

Fimmtudagsfríin færð

Miðvikudagur 25.apríl 2018
Eyjan

Tveir flokkar út – og allt öðruvísi flokkar inn

Egill Helgason skrifar
Sunnudaginn 8. október 2017 13:24

Það sýnir hvað pólitíkin á Íslandi er skrítin og sveiflukennd að horfur eru á að tveir stjórnmálaflokkar sem staðsetja sig á miðjunni, annar reyndar aðeinshægra megin við hana muni hugsanlega detta út af þingi en í staðinn muni koma tveir aðrir flokkar sem eru allt annarar gerðar og með allt öðruvísi hugmyndir.

Viðreisn og Björt framtíð eru í stórhættu, manni sýnist útilokað nema a.m.k. annar flokkurinn þurrkist út af þingi. Kannski hefðu þeir getað bjargað sér með samruna eða kosningabandalagi? Báðir flokkarnir eru evrópusinnaðir, alþjóðasinnaðir, frjálslyndir, tala máli innflytjenda. En banabitinn virðist vera samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn og hin snöggu stjórnarslit.

Skoðanakannanir benda til þess að bæði Flokkur fólksins og Miðflokkurinn fái þingmenn kjörna. Það gæti jafnvel farið svo að samanlagt fylgi þessara flokka yrði milli 15 og 20 prósent, eða svipað og Viðreisn og BF fengu í kosningunum í fyrra.

Það væri alls ekki fráleitt að Miðflokkurinn og Flokkur fólksins rynnu í eina sæng. Þetta eru ekki ósvipaðir flokkar. Báðir munu gera út á andstöðu við fjármálakerfið í kosningunum, þeim verður líklega tíðrætt um verðtrygginguna, í báðum flokkum er fólk sem geldur varhug við innflytjendum. Það er hins vegar spurning hvort formenn flokkanna geti unnið saman. Annað plan Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar gæti auðvitað verið að sigra Framsóknarflokkinn, niðurlægja hann, og taka hann svo aftur yfir.

Við vitum ekki hvort innflytjendamálin verða til umræðu í kosningunum, en líklegt er að Sigmundur Davíð tali af nokkrum hita bankamálin á stofnfundi Miðflokksins í dag. Arion-banki og sala hans til erlendra fjárfesta verður skotspónn ef marka má ræðu Þorsteins Sæmundssonar, sem verður væntanlega einn af frambjóðendum Miðflokksins, á fundi Verkalýðsfélags Akraness og VR í gær.

Það kæmi á óvart ef orðið hrægammar ber ekki á góma í kosningabaráttunni.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af