Eyjan

Bleikt
Mánudagur 23.apríl 2018
Eyjan

Davíð: Fjárlög vinstri stjórnar – Þorbjörn: Ábyrg markmið ríkisstjórnarinnar

Ari Brynjólfsson skrifar
Fimmtudaginn 14. september 2017 10:15
Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins og Þorbjörn Þórðarsson fréttamaður 365. Samsett mynd/DV

„Þau fjár­lög sem fjár­málaráðherra hef­ur nú kynnt hefðu sómt sér vel í tíð vinstri stjórn­ar­inn­ar sem hér sat á ár­un­um 2009 til 2013. Eng­inn hefði furðað sig á því þá ef ein­hver af fjár­málaráðherr­um þeirr­ar rík­is­stjórn­ar hefði kynnt slík fjár­lög, enda gerðu þeir það.“ Þetta segir leiðarahöfundur Morgunblaðsins í dag, en leiða má að líkum þar haldi Davíð Oddsson ritstjóri á penna. Segir hann vinstri stjórnin hafi talið sem svo að þeir hefðu afsakanir til að hækka skatta vegna hallæris í efnahagsmálum:

En þá ber svo við, mitt í góðær­inu, að skatt­greiðend­ur sitja uppi með fjár­málaráðherra sem held­ur því fram að tíðin sé svo góð að ekki sé hægt að lækka skatta. Og það sem meira er, hann vill hækka skatta,

segir Davíð. Hann segir jafnframt að röksemdafærsla Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra um að verið sé að hækka gjöld til þess að jafn þau, séu falsrök. Ef það ætti að jafna gjöld á bensíni og dísilolíu, sem og bjór og léttvíni, væri hægt að lækka gjöldin en ekki hækka. Segir Davíð að fjárlagafrumvarpið hljóti að taka verulegum breytingum ef það eigi að verða að lögum með stuðningi Sjálfstæðisflokksins:

Verði ekki um veru­leg­ar breyt­ing­ar að ræða er aug­ljóst að rík­is­stjórn­inni er mik­ill vandi á hönd­um.

Glórulaust að lækka skatta í miðri uppsveiflu

Annað hljóð er í Þorbirni Þórðarssyni fréttamanni 365 sem skrifaði í leiðara Fréttablaðsins í gær að það sé ábyrgt markmið hjá ríkisstjórninni að skila eins miklum afgangi og mögulegt er:

Einhverjir stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa kvartað yfir því að álögur á landsmenn hafi ekki verið lækkaðar af neinu viti. Á síðasta ári var hagvöxtur 7,2 prósent hér á landi sem er hærra en hjá nokkru öðru OECD-ríki,

segir Þorbjörn. Gert sé ráð fyrir það hægi á vextinum þó útlit sé fyrir góðar horfur í efnahagsmálum:

Það er eðlilegt að svigrúm til skattalækkana verði nýtt í næstu niðursveiflu til að örva eftirspurn. Enda væri það glórulaus stefna að lækka skatta í miðri uppsveiflu.

Í uppsveiflu líkt og sé nú á Íslandi segir Þorbjörn mikilvægt að ríkissjóður skili eins miklum afgangi og mögulegt sé, en gert er ráð fyrir 44 milljarða afgangi í ár:

Bæði til þess að búa í haginn og lækka skuldir en einnig til þess að hafa taumhald á þenslu. Ekki verður annað séð en að ríkisstjórnin hafi haft þessi ábyrgu markmið að leiðarljósi við gerð fjárlagafrumvarpsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af