Eyjan

Kolbeinn: Bull og lýðskrum að tengja aðstoð við flóttafólk og hælisleitendur við stöðu fátækra Íslendinga

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 11. ágúst 2017 12:10

Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður Vinstri grænna.

„Ég er blá­eygur og barna­legur bjáni. Maður sem hefur ekki opnað augun fyrir raun­veru­leik­an­um, heldur lifir í ein­hvers konar sápu­kúlu. Og gott ef ég er ekki á móti Íslend­ingum sem búa við skort, eru fátæk­ir. Allt þetta, og meira til, má lesa út úr þeirri orð­ræðu sem verður sífellt hávær­ari, nefni­lega að þau sem telja að Ísland eigi að leggja meira af mörkum til að aðstoða flótta­fólk og hæl­is­leit­endur séu á móti Íslend­ingum sem lifa við fátækt.“

Svona hefst harðorður pistill Kolbeins Óttarsonar Proppé þingmanns Vinstri grænna sem hann skrifar á Kjarnann í dag. Segir Kolbeinn það vera bull og lýðskrum að halda því fram að þeir sem telji að Ísland eigi að leggja meira af mörkum til að aðstoða flótta­fólk og hæl­is­leit­endur séu á móti Íslend­ingum sem lifa við fátækt. Þetta sé ein af stærstu lygum samtímans sem sett sé fram til að spila á tilfinningar fólks:

Ég hef fengið meira en nóg af þeim sem láta eins og staða flóttafólks og hælisleitenda hafi eitthvað að gera með stöðu fátækra á Íslandi. Hættiði þessu rugli. Þetta er mannfjandsamleg skoðun og stórhættuleg, því hún gerir ekkert nema viðhalda fátækt,

segir Kolbeinn á Fésbók. Segir hann í pistlinum að ef einhver segi þér að einhver tenging sé á milli þess að við sem sam­fé­lag eyðum í aðstoð við flótta­fólk og hæl­is­leit­endur og þess að við eyðum ekki nægu fjár­magni í hús­næði, félags­að­stoð og stuðn­ing við fátæka Íslend­inga, þá sé við­kom­andi að ljúga að þér. Það tengist því jafn mikið og því sem stjórnarráðið eyði í ljósritunarvél og malbikun í Beru­fjarð­ar­botni. Kolbeinn segir að sá sem haldi þessu fram hafi hins vegar rétt fyrir sér þegar komi að fátækt landsmanna því það eigi ekki líðast að fólk lifi á lúsarlaunum og enn lægri bótum:

Við eigum að berj­ast með kjafti og klóm fyrir því að allir hafi aðgang að mann­sæm­andi hús­næði, eigi í sig og á og meira en það; hafi tóm til að sinna sjálfum sér og sín­um, ekki bara skrimta. En þetta hefur nákvæm­lega ekk­ert að gera með flótta­fólk og hæl­is­leit­end­ur, ekki neitt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af