Eyjan

Bjartsýnn á að geta leyst deiluna við Norður-Kóreu

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 11. ágúst 2017 10:01

James Mattis varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Mynd/EPA

James Mattis varnarmálaráðherra Bandaríkjanna er bjartsýnn á að það takist að ná sáttum við Norður-Kóreumenn og koma í veg fyrir stríð. Orð Mattis koma í kjölfar háværra yfirlýsinga og hótana bæði frá Pyongyang og Washington, hafa Norður-Kóreumenn hótað eldflaugaárásum á herstöð Bandaríkjanna í Gúam og hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti sagt að „eldi og óhemju“ muni rigna yfir Pyongyang ef þeir ráðist á Bandaríkin eða bandamenn þeirra.

Mattis sagði við blaðamenn í Kaliforníu í gærkvöldi að það væri hans starf sem varnarmálaráðherra að vera tilbúinn fyrir átök en ef svo færi hefðu þau í för með sér gríðarlegar hörmungar og eyðileggingu:

Við þekkjum harmleika stríðs, það er engu við það að bæta að það hefði í för með sér hörmungar.

Donald Trump Bandaríkjaforseti er nú í sumarfríi í Bedminster í New Jersey. Mynd/EPA

Aðspurður um hvað Bandaríkin væru að gera sagði Mattis að Bandaríkin væru tilbúin, en „ég er ekki að fara að segja óvininum hvað ég muni gera“.

Þurfa að taka sig saman í andlitinu

BBC hafði eftir Trump, þar sem hann ræddi við blaðamenn á golfvelli í New Jersey í gær, að Bandaríkin hefðu fram til þessa sýnt Norður-Kóreu linkennd og gagnrýndi hann einnig Kínverja fyrir að gera ekki nóg til að leysa deiluna í tengslum við eldflauga- og kjarnorkutilraunir Norður-Kóreu:

Ég segi ykkur þetta, ef Norður-Kórea gerir eitthvað sem bendir til að þeir séu að hugsa um að ráðast á einhvern sem við elskum, við tölum fyrir eða bandamenn okkar þá ættu þeir að vera mjög mjög stressaðir,

sagði Trump og bætti við:

Ég skal segja ykkur hvers vegna, því það munu gerast hlutir fyrir þá sem þeim hefur aldrei dottið í hug. Norður-Kórea þarf að taka sig saman í andlitinu nema þeir vilji lenda í vandræðum sem fáar aðrar þjóðir hafa lent í.

Trump sagði þó að Bandaríkin væru alltaf tilbúin að semja. Kínverjar hafa gefið það út að þeir hyggist vera hlutlausir ef Norður-Kórea ræðst á Bandaríkin. Ástralir munu taka þátt í stríði við hlið Bandaríkjanna, sagði Malcolm Turnbull forsætisráðherra að Ástralir munu virða samkomulagið frá 1951 sem var gert í lok Kóreustríðsins og „að Bandaríkin munu einnig koma okkur til liðs ef það yrði ráðist á okkur“.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af