Eyjan

Stefnir í rúmlega þriggja milljarða króna framúrkeyrslu beinna útgjalda ríkisins vegna hælisleitenda

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 10. ágúst 2017 21:33

Haraldur Benediktsson formaður fjárlaganefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokks í hljóðveri Útvarps Sögu.

Horfur eru á að kostnaður vegna móttöku hælilseitenda hér á landi fari rúmlega þrjá milljarða fram úr fjárlögum á þessu ári. Í fjárlögum fyrir 2017 samþykkti Alþingi 2,5 milljarða króna í málaflokkinn.

Nú stefnir í að þingið verði að veita rúmlega þremur milljörðum til viðbótar í fjárlaukalögum sem lögð verða fyrir Alþingi í haust. Þetta kom fram í vikulegum þætti Magnúsar Þórs Hafsteinssonar ritstjóra á síðdegisútvarpi Útvarps Sögu í dag, fimmtudag. Haraldur Benediktsson þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður fjárlaganefndar var gestur þáttarins.

Við höfum verið að vinna með ákveðin frávik í fjárlögum ársins 2017. Það eru nokkrir málaflokkur sem hafa frávik og þessi málaflokkur meðal annars. Fjárlaganefndin hefur blakað við dómsmálaráðherra og við höfum verið í samskiptum við dómsmálaráðherra um þróun útgalda þar. Við sjáum fram á verulega framúrkeyrslu í þeim málaflokki. Við vitum ekki enn þá hvað hún verður, en það kæmi mér ekki á óvart að hún yrði á bilinu þrír milljarðar – kannski plús, sem er umframfjárþörf miðað við fjárlagafrumvarpið sem við samþykktum í desember síðastliðnum,

sagði Haraldur Benediktsson. Hann taldii að svo gæti farið, miðað við fyrirliggjandi tölur á borði fjárlaganefndar, að beinn heildarkostnaður vegna hælisletenda yrði um fimm og hálfur milljarður króna á þessu ári.

Einhverjum hluta af þessu verðum við að mæta í fjáraukalögum. Þetta eru í eðli sínu ófyrirséð fjárútlát að einhverju leyti.

Haraldur vildi ekki meina að með rúmlega hundrað prósenta framúrkeyrslu í málaflokknum væru stjórnvöld að missa tökin.

Ég vil ekki taka undir að við séum að missta tök, en við þurfum að herða tökin verulega og gera bragarbót á mörgum þáttum hvernig við framkvæmum þennan málaflokk. Það veit ég að dómsmálaráðherrann [Sigríður Andersen Sjálfstæðisflokki] hefur verið að gera. Hann hefur verið að taka mjög föstum tökum ýmis kostnaðarmál í kringum málaflokkinn, eins og útboð þjónustu og slíka þætti. Hann hefur vaxið það hratt og við höfum ekki náð utan um hann sem skyldi.

Haraldur var spurður hvort þessi þróun mála hefði verið rædd meðal ríkisstjórnarflokkanna.

Já. Þetta er nákvæmlega mál sem oft og iðulega kemur til umtals inni í þingflokkunum og inni í fjárlaganefndinni, hvernig á að ná tökum á þessu. Og eins og ég segi, ég held það hafi verið stór hluti af starfi dómsmálaráðuneytisins og hins nýja dómsmálaráðherra, að ná utan um málaflokkinn.

Hér fyrir neðan má hlusta á þáttinn í heild sinni þar sem einnig var rætt um landbúnaðarmál, og þá stöðu sauðfjárræktarinnar sérstaklega, auk fleiri mála. Umræðan um framúrkeyrsluna í málefnum hælisleitenda hefst á 46. mínútu:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af