fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Sigmundur Davíð ræðir Panamaskjölin og segir RÚV haga sér eins og stofnun í Austur-Þýskalandi

Ari Brynjólfsson
Fimmtudaginn 10. ágúst 2017 16:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Mynd: DV/Sigtryggur Ari

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra segir að grundvallaratriðum Panamaskjalamálsins hafi enn ekki verið gert skil á Ríkisútvarpinu. Vísar hann í mál Kára Arnórs Kárasonar, sem var í hópi þeirra sem kom fyrir í Panamaskjölunum, umfangsmiklum leka frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca. Kári Arnór fór fram á að fá aðgang að gögnunum sem Kastljós notaði til umfjöllunar um hann í fyrra. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál vísaði kröfunni frá þar sem RÚV væri ekki með gögnin heldur hefði fengið aðgang að þeim hjá þriðja aðila við vinnslu fréttarinnar.  Sigmundur Davíð segist hafa mikla samúð með Kára Arnóri, manns sem hann þekki ekki neitt:

Þegar ég var, ásamt eiginkonu minni, sakaður um allt mögulegt, og ráðinn mér óafvitandi og launalaust sem leikari í einhverjum fáránlegum farsa (sem síðar reyndist hafa verið skrifaður fyrir fram), varð mér ljóst líklega væri best að skýra málið. Ég fór þess því á leit við þá sem að þessu stóðu að ég fengi að sjá á hvaða gögnum hinar fjölskrúðugu ásakanir byggðust svo ég gæti svarað þeim. Mér var þá tjáð, eins og Jósef K í sögu Kafka, að það kæmi ekki til greina,

segir Sigmundur í grein sem hann skrifar á vefsíðu sína í dag. Segir hann að öfugt við grundvallarreglu allra réttarríkja gilti hér sú regla að maður teldist sekur ef hann sannaði ekki sakleysi sitt:

„Fyrir vikið þurftum ég og fleiri að leita allra leiða til að komast yfir hverjar þær upplýsingar sem ákærendurnir kynnu að vera að leita eftir. Krafan virtist raunar vera sú að hinn ásakaði sannaði sakleysi sitt með gögnum sem ekki væru til.  Gögnin sem ekki voru til átti að nálgast hjá fyrirtæki í Panama sem hafði verið í samstarfi við Landsbankann, banka sem varð gjaldþrota fyrir hátt í áratug.“

Hjónin eyddu vikum í að leita upplýsinga og svara spurningum, þar á meðal frá erlendum fjölmiðlum sem höfðu fengið rangar upplýsingar og beinlínis undarlegar upplýsingar um gang mála frá íslenskum starfsbræðrum sínum:

Við útskýrðum að allt hefði verið gefið upp til skatts á Íslandi, nafn, eignir og skráningarland og því hefðu Panamapappírstígrarnir ekki verið að gera neina uppgötvun. Þá var svarið að menn tryðu þessu ekki. Ekki veit ég hvort það var vegna þess að viðkomandi þótti sannleikurinn svekkjandi eða hvort þetta var sett fram til að „fiska“, reyna að fá okkur til að senda enn fleiri gögn til að snúa út úr. Líklega var það hvort tveggja.

„Fölsun í öllum skilningi þess orðs“

Segir Sigmundur Davíð að afrakstur gagnaöflunarviknanna hafi ekki skipt neinu máli, búið hafi verið skrifa söguna og hugsanlega hafi átt að halda honum uppteknum á meðan væri verið að vinna þáttinn:

Og auðvitað bæta við öðru efni. Efni sem braut ekki aðeins allar lágmarksreglur siðferðis og mannlegra samskipta og vinnureglur heiðarlegra fjölmiðla heldur fól í sér hreinar falsanir. Til að mynda með dæmalausu viðtali þar sem viðmælandinn var skipulega blekktur að því marki að hann vissi ekki í hvaða vídd hann væri, hvað þá um hvað væri verið að spyrja, og allt svo sett í nýtt samhengi. Fölsun í öllum skilningi þess orðs.

Skjáskot úr viðtalinu við Sigmund Davíð.

Segir hann það mikla kaldhæðni að RÚV skuli afsaka sig með því benda á að fjallað hefði verið um Panamaskjölin í erlendum fjölmiðlum. Meira að segja í Bretlandi þar sem forsætisráðherra landsins hafði notið ávinnings af peningum í raunverulegu skattaskjóli hafi umfjöllun flestra fjölmiðla verið hófstillt miðað við „hið gagnalausa RÚV“:

Líklega verður maður að sýna því skilning að eftir alla fyrirhöfnina og spenninginn við að fá að kíkja á  „leyniskjöl“ frá útlöndum hafi ekki verið hægt að ætlast til að menn segðu fréttir af því að eiginkona forsætisráðherra hafi alltaf leitast við að greiða skattana sína og gera það á Íslandi en ekki annars staðar þar sem skattar eru lægri. Og það þótt hún hafi verið „sett í sama pakka“ í bankanum og flestir sem áttu umtalsverða peninga á Íslandi fyrir 12 árum. Svo hefði auðvitað verið sérlega óspennandi að segja frá því að hún hafi ekki hagnast fjárhagslega heldur tapað verulega á því að vera gift stjórnmálamanni og stefnunni sem hann barðist harðast fyrir.

Sömu vinnureglur og stuðst var við eystra

Gerð hafi verið rík krafa um játningu og notuð sú gamla brella að krefja þann ásakaða um afsökun á því sem hann sé sakaður um. Ítrekar Sigmundur að gagnrýni sín snúist fyrst og fremst að tilteknum hópi innan stofnunarinnar sem hafi fengið að nota hana að vild og stjórnendum sem láti það viðgangast. Líkir Sigmundur  viðbrögðum RÚV við stofnanir Austur-Þýskalands:

Svo verður líka að taka tillit til þess að Ríkisútvarpið, „fjölmiðill í almannaþágu“ má auðvitað ekki leyfa fólki að fá þá flugu í höfuðið að stofnuninni geti skjátlast, ekki frekar en stofnanir þýska alþýðulýðveldisins forðum „stofnanir í almannaþágu“ gátu leyft sér að umbera slíkar grillur. Það er því bara af praktískum ástæðum sem teknar hafa verið upp sömu vinnureglur og stuðst var við þar eystra: „Ef staðreyndirnar falla ekki að skoðun stofnunarinnar eru staðreyndirnar rangar“. Af því leiðir svo óhjákvæmilega að þeir sem eru sakaðir um eitthvað teljast þar með sjálfkrafa sekir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma
Eyjan
Fyrir 2 dögum

„Vopnið ykkur fyrir kosningarnar“

„Vopnið ykkur fyrir kosningarnar“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Skortir heimildarmynd

Svarthöfði skrifar: Skortir heimildarmynd
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Baldur með mesta fylgið samkvæmt nýrri könnun

Baldur með mesta fylgið samkvæmt nýrri könnun