Eyjan

Meðmælendur Robert Downey þrír eða fleiri?

Ari Brynjólfsson
Fimmtudaginn 10. ágúst 2017 12:51

Robert Downey, áður Róbert Árni Hreiðarsson, skilaði inn þremur meðmælabréfum til innanríkisráðuneytisins með umsókn sinni um að fá uppreista æru. Heimildir Eyjunnar herma að meðmælendur Roberts hafi verið fleiri en tveir, þegar það var borið undir Brynjar Níelsson formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sagði hann að hann hefði séð þrjú bréf í umslaginu en vildi ekki staðfesta fjöldann. Brynjar segist ekki vita hverjir það eru sem vottuðu um góða hegðun Roberts og vill hann ekki útiloka að meðmælendurnir geti verið fleiri. Hann segir það ekki koma sér við hverjir það eru, hann hafi fengið trúnaðargögn frá ráðuneytinu og séð þrjú bréf í umslaginu.

Bergur Þór Ingólfsson og Eva Vala Guðjónsdóttir, faðir og stjúpmóðir Nínu Rúnar sem Robert braut gróflega á kynferðislega, hafa skrifað opið bréf til Brynjars þar sem þau heita því að berja ekki þá sem vottuðu um heilbrigði Roberts. Robert hlaut uppreist æru á síðasta ári en frá því var greint núna fyrr í sumar. Sú ákvörðun hefur reynst umdeild. Síðan þá hafa fleiri stígið fram og sakað Robert um kynferðisofbeldi. Bergur, Eva og fleiri þolendur Roberts hafi farið fram á að öll gögn um uppreist æru Roberts verði lögð fram opinberlega, þar á meðal nöfn þeirra sem veittu Roberti vottorð um heilbrigði hans, svo hægt verði að meta hvort rétt hafi verið að málum staðið.

Brynjar segir að það sé ekki hans hlutverk að hnýsast í hverjir hafi gefið Robert umsögn, hans verkefni sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sé að skoða hvort ráðuneytið hafi farið rétt að við framkvæmd málsins og hvort breyta þurfi reglunum um uppreist æru. Segir Brynjar að í sínum huga séu nöfn þeirra sem skrifuðu meðmælabréf fyrir Robert Downey ekkert leyndarmál í sjálfu sér, það sé hins vegar ekki hans að upplýsa þar sem gögnin eru í eigu ráðuneytisins.. Meðmælabréfin sjálf séu trúnaðarmál þar sem um sé að ræða persónuupplýsingar:

Þess vegna er hikið á því að afhenda umsagnirnar. Vegna þess að það eru persónulegar upplýsingar um hagi hans. Það fór allt á annan endann þegar það var lekið persónulegum upplýsingum um hælisleitanda frá Nígeríu, það var brot. Og vilja menn þá að ég afhendi gögn um persónuupplýsingar manna? Ég hef engan áhuga á að fara í fangelsi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af