Eyjan

Kjartan segir ráðninguna hneyksli

Ari Brynjólfsson
Fimmtudaginn 10. ágúst 2017 14:57

Kjartan Magnússon.

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir vinnubrögð Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og annarra fulltrúa meirihluta borgarstjórnar við ráðningu borgarlögmanns vera vítaverð og skólabókardæmi um hvernig eigi ekki að standa að ráðningu í opinbert embætti. Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að ráða Ebbu Schram hrl.  í stöðu embættis borgarlögmanns, fram kom í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að þegar tekið hafi verið tillit til menntunar og reynslu, í starfsviðtölum og með öflun umsagna hafi Ebba Schram metin hæfasti umsækjandinn í starf borgarlögmanns. Ebba hefur frá árinu 2013 gegnt starfi staðgengils borgarlögmanns.

Segir Kjartan að illa hafi verið staðið að auglýsingu stöðunnar og upplýsingagjöf stórlega ábótavant til þeirra kjörnu fulltrúa, sem tóku endanlega ákvörðun í málinu. Ekki hafi verið orðið við ábendingum og óskum, sem bárust frá kjörnum fulltrúum meðan á ferlinu stóð, um bætt vinnubrögð, til dæmis hindrunarlausan aðgang að upplýsingum og að auglýsa stöðuna betur í ljósi þess hversu fáar umsóknir bárust:

Óviðunandi vinnubrögð borgarstjóra og annarra fulltrúa meirihlutans í þessu máli sem og sambærilegum málum að undanförnu benda til að annarleg sjónarmið ráði þegar ráðið er í æðstu stöður hjá Reykjavíkurborg,

Ebba Schram var í dag skipuð borgarlögmaður.

segir Kjartan. Á fundi borgarráðs í dag lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að allt ferli málsins yrði endurskoðað og staðan þar með auglýst að nýju. Tillögunni var vísað frá með atkvæðum Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina. Athygli vekur að forseti borgarstjórnar studdi ekki tillögu borgarstjóra um ráðningu borgarlögmanns. Fram kemur í bókun Sjálfstæðismanna að borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins geri alvarlegar athugasemdir við óvönduð vinnubrögð meirihluta borgarstjórnar vegna ráðningar borgarlögmanns. Það vekji athygli að einungis tveir einstaklingar hafi sótt um embættið, sem sé eitt hið mikilvægasta og best launaða innan borgarkerfisins. Staðan hafi aðeins verið auglýst einu sinni í einu dagblaði og kunni það að vera skýringin á því að ekki sóttu fleiri um stöðuna. Umsækjendur voru Ebba og Ástráður Haraldsson.

Á fundinum lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks einnig til að ráðningunni yrði frestað þar sem fulltrúar í borgarráði hafi ekki fengið tækifæri til að kynna sér gögn málsins með fullnægjandi hætti. Segir Kjartan að þetta gangi í berhögg við langa hefð í borgarráði að hægt sé að fresta afgreiðslu máls um einn fund ef ósk berst um það, var tillagan felld með atkvæðum Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af