Eyjan

Sjallsímar sem þunglyndisvaldur

Egill Helgason
Þriðjudaginn 8. ágúst 2017 12:48

Börn eru öruggari en nokkru sinni fyrr. Þau eru jú með síma og við getum nánast alltaf fylgst með því hvar þau eru. Símar, samskiptamiðlar og tölvur hafa hertekið huga barna og unglinga með þeim hætti að þau eru ólíklegri til að stunda áhættusamt athæfi en nokkru sinni fyrr. Þau fara minna út, leika sér minna, þau hafa síður áhuga á að aka bílum en áður var, þau eyða minni tíma með vinum, þau stunda minna kynlíf. Þau virðast hafa minni þörf fyrir að sýna sjálfstæði sitt en fyrri kynslóðir – ögra síður foreldrum sínum.

Fyrir foreldra er þetta að mörgu leyti þægilegt. En Jane M. Twenge skrifar á vef tímaritsins Atlantic að gríðarleg bylting hafi orðið í hegðun barna og unglinga eftir að snjallsímar komu til sögunnar. Árið 2012 fór hlutfall Bandaríkjamanna sem eiga snjallsíma yfir 50 prósent – og nú eru þessir símar alls staðar. Ekkert mótar ungmenni jafnmikið og þessi tæki; þau lifa stóran hluta lífs síns í tækjunum.

Twenge segir að menn geri sér enn litla grein fyrir áhrifum þessarar byltingar. Hún heldur því fram að hin nýja tækni sé að valda ungu fólki alvarlegri óhamingju. Ungmennin þroskist seinna, takist síðar á við lífið – og þau séu ósjálfstæðari. Þau séu samt ekki nánari foreldrum sínum, heldur lifi þau undir sama þaki og þeir – en á valdi tækjanna. Snjallsímarnir séu alvarlegur þunglyndisvaldur. Börn sem eyði miklum tíma í slíkum tækjum séu líklegri til að vera óhamingjusöm en hin. Tölfræðin í þessu sé svo eindregin að í raun sé ekki annað hægt en að segja við ungt fólk – leggið frá ykkur símana, slökkvið á tölvunum, gerið eitthvað sem fer ekki fram við skjá.

Twenge tekur djúpt í árinni og segir að þarna sé geðheilsa heillar kynslóðar í húfi. Snjallsímar séu svo eindreginn þunglyndisvaldur að það muni fylgja ungu fólki áfram í lífinu – og auka hættuna á geðsjúkdómum síðar á æfinni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af