Eyjan

Bruni í næturklúbbi sem kostaði 492 mannslíf

Egill Helgason
Mánudaginn 7. ágúst 2017 04:33

Þetta er heldur tíkarlegur minnisvarði um eitthvert skelfilegasta slys í sögu Bandaríkjanna, lítill skjöldur sem maður sér ekki nema maður leiti sérstaklega að honum, framan við bílastæðahús.

Þarna í svonefndu Bay Village í Boston var næturklúbburinn Cocoanut Grove sem var vinsæll á árunum eftir að bannlögunum var aflétt. 28. nóvember 1942 kom upp eldur í klúbbnum, breiddist út á örskotsstundu, tala látinna var að lokum 492. Það er næstum þriðjungur af Titanic-slysi hvað varðar mannfall, en samt hefur verið furðu lítið fjallað um þennan mikla eldsvoða.

Enn er ekki vitað fyrir víst hvernig hann kviknaði, hvort það var bilun í rafmagni eða, hvort, eins og sagt var, bruninn hefði orðið með þeim hætti að hermaður í fríi hafði skrúfað burt ljósaperu til að hann gæti kysst kærustuna sína í myrkrinu. Samkvæmt því var unglingspiltur sendur til að setja peruna aftur í, hann sá illa til, notaði eldspýtur, og það kviknaði í miklum skeytingum sem voru í klúbbnum, gervipálmatrjám og slíku. Þessi ungi maður hét Stanley Tomaszewski og þurfti að lifa með því allt sitt líf að hafa líklega verið valdur að brunanum – hann dó 1994.

Tala látinna var 32 hærri en leyfður gestafjöldi á staðnum. Eldurinn breiddist svo hratt út að sumir gestirnir náðu ekki að yfirgefa sæti sín. Aðrir reyndu að komast út um hringdyr sem stífluðust undireins. Hinir útgangarnir voru lokaðir til að fólk gæti ekki laumað sér út án þess að borga. Loftið á staðnum fuðraði upp – allar brunavarnir voru i skelfilegum ólestri.

Eigandi staðarins, Bernie Welansky, hafði fengið hjartaáfall nokkrum dögum áður og var ekki á staðnum. Pólitísk sambönd hans höfðu gert honum kleift að hafa staðinn opinn þrátt fyrir ágalla. Dómsmál var höfðað gegn Welansky og hann var dæmdur í 12-15 ára fangelsi. Honum var sleppt fáum árum síðar og dó úr krabbameini 1946. Sjálfur sagðist hann óska þess að hann hefði farist með hinum í brunanum.

Þetta hræðilega slys hafði ýmsar afleiðingar. Reglur um brunavarnir voru hertar til muna. Til dæmis mátti ekki lengur hafa hringdyr án þess að aðrar opnanlegar dyr væru til hliðar. Eldfimar skreytingar voru bannaðar. Læknisfræðilega hliðin er enn athyglisverðari. Þeir sem lifðu af brunann fengu meðferð með nýju undralyfi, pensillíni. Slæmar sýkingar fylgja brunasárum en sýklalyf geta unnið á þeim. Á eftirlifendunum var líka gerð rannsókn á áföllum sem þótti marka tímamót.

Eins og segir er minnisvarðinn um þetta hræðilega slys heldur lítilfjörlegur. Hann er reyndar gerður, eins og stendur, af Anthony C. Marra sem var sá yngsti sem lifði brunann af. Skjöldurinn hefur ekki einu sinni fengið að vera í friði, því hann var fjarlægður um tíma að kröfu einhverra íbúa á svæðinu, en svo komið fyrir aftur. Sagt er að skjöldurinn sé um það bil þar sem hinar illræmdu hringdyr voru.

 

 

Myndin var tekin af okkur þegar við gerðum okkur ferð í Bay Village í kvöld. Hér fyrir neðan eru tvær myndir frá tíma eldsvoðans. Þetta var í miðri heimsstyrjöldinni síðari og sagt er að þetta hafi verið einn af fáum atburðum sem ýtti stríðinu af forsíðum blaða.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af