Eyjan

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar handteknir í nótt

Ari Brynjólfsson
Þriðjudaginn 1. ágúst 2017 12:07

Frá mótmælum í Caracas í gær. Mynd/EPA

Tveir af leiðtogum stjórnarandstöðunnar í Venesúela voru handteknir í nótt. Þeir Leopoldo López og Antonio Ledezma voru handteknir af öryggislögreglu Venesúela í rúmlega hálf fimm í nótt á íslenskum tíma. BBC hefur hefur eftir fjölskyldum López og Ledezma að ekki sé vitað hvert farið var með þá.

Aðgerð öryggislögreglunnar kemur í kjölfarið á umdeildum stjórnlagaþingskosningum en að minnsta kosti tíu létu lífið í götubardögum í tengslum við kosningarnar. Nicolás Maduro forseti Venesúela boðaði til kosninganna í maí síðastliðnum til að breyta stjórnarskránni í ljósi gífurlegra mótmæla í landinu. Sagði Maduro að ný stjórnarskrá myndi stuðla að friði milli stétta í landinu en stjórnarandstaðan sagði að ný stjórnarskrá yrði aðeins til þess fallin að auka völd forsetans. Kosningarnar hafa verið fordæmdar af bæði öðrum löndum Suður-Ameríku, Bandaríkjunum og Evrópusambandinu.

Stjórnarandstaðan hvatti landsmenn til að sniðganga kosningarnar og þess í stað mótmæla ríkisstjórninni.  Steven Mnuchin fjármálaráðherra Bandaríkjanna tilkynnti svo að Bandaríkin myndu beita Venesúela viðskiptaþvingunum, kallaði Mnuchin Maduro „einræðisherra sem færi gegn þjóðarvilja“.

Myndband af handtöku Leopoldo López má sjá hér að neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af