Eyjan

Smábátafloti á hverfanda hveli

Ari Brynjólfsson skrifar
Sunnudaginn 16. júlí 2017 14:00

Magnús Þór Hafsteinsson skrifar:

Á handfæraveiðum.

Tölur um fækkun smábáta sem gerðir eru út í atvinnuskyni i hljóta að vekja ugg, að minnsta kosti meðal þeirra sem vilja sjá veg sjávarbyggðanna sem mestan.

Það er engum vafa undirorpið að smábátaflotinn skilur mikið eftir sig. Tekjurnar af slíkum bátum hríslast um æðar samfélagsins. Útgerð þeirra fylgir vinna í sjávarbyggðum og líf í höfnum. Þeir styrkja búsetu í byggðalögum sem víða eiga undir högg að sækja. Þessir bátar  nýta mið á grunnslóð sem örugglega má segja að séu vannýtt í dag.

Hernaðurinn gegn smábátunum er nokkuð sem mér hefur ávallt verið fyrirmunað að skilja. Hvað er það sem fær stjórnmálamenn til að fremja skemmdarverk gegn þeim samfélögum sem þeir eiga að vera að vinna fyrir, með því að keyra þessa krókaveiðibáta í kvóta? Af hverju var það gert með bolfiskinn? Hvernig gat mönnum dottið í hug að gera þetta í makrílnum?

Til hvers létu þingmenn landsbyggðar draga sig út í það óhæfuverk að setja dagabátana í kvóta árið 2004? Ég marg varaði við þessu á sínum tíma og benti á að þetta myndi hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarbyggðirnar. Nú liggja tölurnar á borðinu. Á aðeins tólf árum hefur þessum bátum fækkað úr rúmlega 700 niður í tæplega 300 og mun sjálfsagt fækka enn meir fari fram sem horfir. Smábátunum sem fóru í kvóta 1990 hefur fækkað um 90 prósent síðan þá.

Hafi menn viljað takmarka sóknargetu smábátaflotans, sem reyndar mun aldrei getað ofveitt nokkurn fiskistofn, þá voru ótal aðrar aðferðir mögulegar til þess.

Afleiðingar þess hvernig þrengt hefur verið að smábátaflotanum eru nú stöðugt að koma skýrar í ljós. Honum hefur einfaldlega verið rústað. Þrælabönd hafa verið lögð á duglega athafnamenn sem hefðu að óbreyttu getað orðið burðarásar til framtíðar í sínum samfélögum. Afleiðingarnar fyrir sjávarbyggðirnar eru geigvænlegar. Verkmenning og mannauður tapast. Grunnstoðir íslensks samfélags á landsbyggðinni veikjast. Þau sem eru eldri ein tvævetur og muna tímana tvenna vita mætavel hvernig þróunin hefur verið. Sum kjósa þó kannski ekki að horfast í augu við staðreyndir og afleiðingar misgjörða sem þau studdu á sínum tíma.

Um þetta þarf ekki að hafa fleiri orð.

Greinin er leiðari nýjasta tölublaðs Vesturlands:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af