Eyjan

Davíð um Dag: „Slíka menn þarf að finna í fjöru sem fyrst“

Ari Brynjólfsson
Þriðjudaginn 11. júlí 2017 14:05

Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Samsett mynd/DV

Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur segist vilja finna Dag B. Eggertsson núverandi borgarstjóra, í fjöru og það sem fyrst. Segir leiðarahöfundur Morgunblaðsins, sem er að öllum líkindum Davíð Oddsson, í leiðara blaðsins í dag að borgaryfirvöld hafi brugðist borgarbúum:

Formaður borgarráðs Reykjavíkur tjáði sig seint og illa um viðbjóðinn sem bíað hafði út strandlengjur höfuðborgarinnar vikum saman, án þess að fólkið, borgarbúarnir, væri látið vita og gæti gætt sín og barna sinna. Fjöldi starfsmanna borgarinnar á veitusviði og heilbrigðissviði vissi um vandræðin og um ógnina sem af þeim stafaði,

segir Davíð. Nú séu sumardagar og strandlengjan heilli, á þeim vikum sem skólpið flæddi hafi hins vegar hafi ekkert frést frá borginni, þar hafi vísvitandi verið þagað um málið og borgarbúar hafi þá þurft að leita til fjölmiðla. Þetta mál setji vanda borgarinnar í hnotskurn, málaflokkar hafi verið hlutaðir í sundur og ólík málefni sameinuð með þeim afleiðingum að borgaryfirvöld tapa þræði:

Eftir því sem samhengi stjórnsýslunnar hefur orðið óljósara hefur þjónustan við borgarbúa versnað jafnt og þétt um leið og kostnaður við hana hefur farið úr böndum,

segir Davíð og bætir við:

Embættisheiti sem borgarbúar nauðaþekktu var fargað án skynsamlegra skýringa en tekin upp í staðinn ógagnsæ heiti þar sem verksviðið deildist á svo margar hendur að algjörlega óljóst varð hvar ábyrgðin lá í einstökum tilvikum. Þetta er uppskrift að upplausn. Þetta voru allt óþarfar breytingar, gerðar breytinganna vegna, og fúlgum fjár fórnað í vasa „ráðgjafa“ sem lágu yfir hverri löngu vitleysunni af annarri. Jafnvel gömul og gróin götuheiti voru lögð af vegna tilgerðarþarfar meirihluta borgarstjórnar með tilheyrandi óhagræði og útgjöldum fyrir borgarbúa og fyrirtæki þeirra.

Davíð Oddsson var borgarstjóri Reykjavíkur frá 1982 til 1991. Mynd úr safni DV.

„Núverandi borgaryfirvöld halda að borgin snúist um þá sjálfa“

Rifjar hann upp fyrri tíma þegar borgarstjórar hittu sína tuttugu æðstu embættismenn, sem höfðu þræði um allt borgarkerfið, tvisvar í viku allt árið:

„Það hefði engum embættismanni dottið í hug að láta stórmál, eins það sem hér var nefnt, ónefnt á fundi með borgarstjóra. Og þeir borgarstjórar sem tóku starf sitt alvarlega hefðu á sama fundi lagt drög að viðbragðsáætlun sem birt hefði verið ekki seinna en strax.“

Nú sé staðan önnur:

Núverandi borgaryfirvöld halda að borgin snúist um þá sjálfa. Reykjavíkurborg á að gæta að því umfram allt annað að veita borgarbúum fullkomna þjónustu með hagkvæmum hætti, tryggja hreinlæti, snyrtimennsku, öryggi og framtíð, svo sem með lóðaframboði og öflugri þjónustu fyrir unga sem aldna. Það tekst ekki á meðan stór hluti fjármunanna sem úr er að spila hverfur í óráðsíu og æðstu menn borgarinnar hafa ekki áhuga á öðru en gervivandamálum sem snerta ekki borgarbúa beint. Hneykslið, sem borgarbúar hafa þurft að horfa upp á og fundið fnykinn af að undanförnu er til komið vegna þess að yfirvöldin í borginni þekkja hvorki verkefni sitt né vitjunartíma og myndu ekki valda því, þótt hin einfalda mynd rynni upp fyrir þeim.

Slíka menn þarf að finna í fjöru sem fyrst. Það er ekki kræsilegt en hjá því verður ekki komist.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af