Eyjan

Mikil fækkun í smábátaflotanum – verðhrun í strandveiðum

Ritstjórn Eyjunnar skrifar
Fimmtudaginn 6. júlí 2017 23:57
Á strandveiðum. Smábátum fækkar og verðhrun hefur orðið á þorski í sumar.

Mörg undanfarin ár hefur mikil fækkun átt sér stað í þeim flota smábáta sem notaðir eru í atvinnuskyni hér við land.

Tölur varðandi þetta eru birtar í nýjasta hefti tímaritsins Brimfaxa sem kom út á dögunum.

Brimfaxi er málgagn Landssambands smábátaeigenda (LS).

Arthur Bogason trillukarl og fyrrum formaður samtakanna er ritstjóri Brimfaxa.

Ég hef dauðans áhyggjur af því hvað er um að vera í smábátaflotanum því hún er í eina átt. Það er eins og það sé viljandi verið að láta þennan flota leggjast af,

segir hann.

Hafa týnt tölunni hratt

Í Brimfaxa eru birt súlurit sem sýna þróunina.

Árið 1990 var öllum smábátum yfir sex tonna stærð, og þeim sem það kusu undir sex tonnum, að fara inn í sama kvótakerfi og stóru skipin og þar með stóru útgerðafyrirtækin. Þá voru þetta 1.043 bátar. Þeir eru rétt um hundrað í dag.  Aðeins örfáir bátar eru eftir af þessum hundrað báta flokki sem enn eru með einhverjar aflaheimildir að ráði. Hafi það verið ætlunarverk stjórnvalda að losna við smábátana í kvótakerfinu þá er það að takast fullkomlega.

Arthur rekur síðan aðra aðgerð sem kom síðar og er að hafa svipaðar afleiðingar.

Árið 2004 var sett á annað kvótakerfi sem var hugsað eingöngu fyrir smábátaflotann.Það voru smábátar sem áður höfðu verið á svokölluðu dagakerfi þar sem þeir höfðu ákveðinn fjölda daga sem þeir gátu notað til sóknar. Þarna fengu þessir bátar úthlutað kvótum í staðinn. Í upphafi 2004 voru 715 bátar í þessu kerfi. Á þessum 12 árum sem liðin eru þá var þessi tala komin niður í 277 á síðasta ári.

 

Smábátaflotinn að hverfa?

Arthur segir myndina skýra.

Þróunin telur niður og mun kannski gera það enn hraðar nú í náinni framtíð heldur en við höfum séð gerast á undanförnum misserum. Fari fram sem horfir þá verður smábátaflotinn að mestu horfinn eftir nokkur ár.

Hann segir að það séu nánast engar nýsmíðar í smábátaflotanum og nýliðun ungra manna hverfandi. Eina glætan sem Arthur segir sjá í þessum efnum sé tilkoma strandveiða um sumartímann. Grásleppuveiðar hjálpi mönnum líka að tóra. Markíllinn hafi gefið von en hann var brátt settur í kvóta.

Í strandveiðum eru einhverjir tæplega 700 bátar. Stjórnvöld virðast þó ekki hafa mikinn áhuga á að þær veiðar séu þannig úr garði gerðar að menn geti haft úr þessu alvöru afkomu. Því kerfi er haldið þannig að menn geta í raun og veru hvorki lifað né dáið. Þetta er látið reka svona á reiðanum ár eftir ár.

 

Heimta kvóta og selja svo

Arthur Bogason segist yfirleitt andvígur samsæriskenningum. Hann sé þó farinn að hallast að því að það sé viljandi gert að halda strandveiðunum á horriminni.

Fyrir rest mun krafan koma frá einhverjum ákveðnum hópi manna innan strandveiðimanna um að þessi floti verði settur í kvóta. Það verður gert undir því yfirskini að það sé svo miklu hagkvæmara að vera með kvótakerfi. Raunverulega ástæðan verður þó sú að menn munu vilja geta selt frá sér kvótana. Við höfum reynsluna af því frá 2004. Þeir sem börðu harðast fyrir því að fá kvóta þá voru búnir að selja þá skömmu eftir að lögin tóku gildi.

Afleiðingar af fækkun smábáta eru miklar víða um land.

Það segir sig sjálft að þegar jafn stórkostleg fækkun verður á fjölda smábáta að þá hlýtur hún að koma niður á mannlífi í litlum sjávarplássum,

segir Arthur.

Þessar ljósmyndir voru teknar í sumarbyrjun á nákvæmlega sama stað í höfninni í Ólafsvík árið 1996 og síðan 2015. Þessar myndir endurpegla gögn um þróun í fjölda smábáta sem gerðir eru út í atvinnuskyni. (Ljósm.: Brimfaxi).

Þorskverð hrunið í sumar

Samkvæmt heimasíðu LS (smabatar.is) þá hefur strandveiðibátum fækkað milli ára. Nú í sumar hafa 560 bátar stundað veiðar en þeir voru 628 í fyrra. Verðhrun hefur orðið á þorski milli ára. Semdæmi má nefna að 29. júní 2016 var meðalverðið á þorski strandveiðibáta í flokknum „blandaður góður“ 327 krónur fyrir kílóið.

Sama dag í júní sl. seldist þorskur í sama flokki fyrir 157 krónur kílóið. Verðið hafði þannig lækkað um ríflega helming á einu ári.

Sterkt gengi krónunnar er nefnt sem aðalástæða verðlækkunarinnar. Einnig er talað um dýrari vinnslu, hærri flutningskostnað, lokun markaða í Rússlandi og minnkun kaupmáttar í Bretlandi.

 

Birtist í landshlutafréttablaðinu Vesturlandi:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af