Eyjan

Bleikt

Orðið á götunni

Fimmtudagsfríin færð

Sunnudagur 22.apríl 2018
Eyjan

Klastrað framan við Háskólann

Egill Helgason skrifar
Sunnudaginn 18. júní 2017 08:14

Það er full ástæða til að taka undir viðvaranir Minjastofnunar vegna byggingar nýrra stúdentaíbúða beint fyrir framan Gamla Garð á Hringbrautinni. Eiginlega skilur maður ekki að neinum detti í hug að byggja þarna stórhýsi sem á að líta svona út.

 

 

Þetta mun gerbreyta ásýnd Háskólasvæðisins eins og það blasir við frá Hringbrautinni þaðan sem flestir sjá það. Þar líkt og stallast upp í kringum Skeifuna við Háskólann sjálf Háskólabyggingin, Gamli Garður og Þjóðminjasafnið. Takið eftir að allar þessar byggingar hafa turna og eru í ágætu samræmi hver við aðra.

Nýja byggingin stingur hins vegar algjörlega í stúf. Hún er í allt öðrum stíl. Það verður að segjast eins og er, í henni virðist vera miklu meira lagt upp úr notagildi en fagurfræði. Þetta er ekki áhugaverður arkítektúr á neinn hátt – og ekki samboðinn þessum stað.

Í áliti frá Minjastofnun segir að framkvæmdirnar feli í sér mjög neikvæð umhverfisáhrif og raski listrænt mikilvægri skipulagsheild með óafturkræfum hætti. Pétur H. Ármannsson, sviðsstjóri hjá Minjastofnun, segir í viðtali við Morgunblaðið.

Það eru mjög fá dæmi um það í skipu­lags­sögu Reykja­vík­ur að svona stórt stofn­ana­svæði hafi frá upp­hafi verið mótað með ákveðna list­ræna heild­ar­sýn í huga og alla tíð síðan hafi menn virt þá grunnþætti. Þannig hafa menn ekki raskað skeif­unni fyr­ir fram­an Há­skóla Íslands né sér­kenn­um svæðis­ins í kring.

Við ræddum það í þáttunum Steinsteypuöldinni við Pétur að Háborg íslenskrar menningar, sem ætlaður var staður, á Skólavörðuholti, hefði í raun risið á Melunum. Þarna er fjöldi menningarstofnana – og þeim fer fjölgandi.

Svo má benda á grein Hilmars Þórs Björnssonar arkitekts um þessar framkvæmdir en hún birtist hér á Eyjunni. Hilmar telur að vinningstillagan sé unnin af afar færu teymi arkitekta og segir að til standi að endurskoða tillöguna svo hún samræmist betur byggðinni. En vandséð er hvernig það getur gerst án þess annað hvort að teikna þetta allt upp á nýtt eða einfaldlega henda því.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af