Eyjan

„Innflytjendavandinn“ á Akureyri

Ritstjórn Eyjunnar skrifar
Sunnudaginn 18. júní 2017 12:00
Fyrir nokkru kom Hermína Gunnþórsdóttir frá HÍ á skólanefndarfund þar sem hún kynnti fyrir nefndinni niðurstöður rannsókna á aðlögun innflytjenda í grunnskólum á Akureyri.
Misvísandi niðurstöður
Í rannsókninni komu fram áhugaverðar mótsagnir. Innflytjendum er vel tekið í skólum á Akureyri … en þó eru samskipti heimilis og skóla treg. Foreldrar eru jákvæðir gagnvart skólanum … en þó er íslenskt skólastarf mörgum foreldrum erlendra barna framandi. Það ríkir traust milli skólanna á Akureyri og foreldra barna af erlendum uppruna … en þó hefur skortur á samtali og vantraust á skólann hindrað foreldra í að fylgjast með námi barna sinna. Starfsfólk skólanna er jákvætt gagnvart innflytjendunum og foreldrum þeirra … en telur sig þó skorta bæði hvatningu og heildarsýn til að sinna verkefninu sem skyldi.
Þessar misvísandi niðurstöður sýna að nú er tími til að grípa í taumana og stýra þróuninni þannig að hún verði samfélaginu hagstæð. Við getum horft á bilið breikka milli innflytjenda og íslensku nemendanna með tilheyrandi félagslegum vandamálum eða við getum búið þannig að aðlögun innflytjendanna að þeir nái að blómstra í því samfélagi sem þeir búa í. Þetta eru krossgötur sem mörg Evrópulönd hafa staðið á og í þeim löndum hefur of oft verið gripið of seint í taumana.
Umburðarlyndi og vinsemd
Við höfum flest okkar skoðanir á innflytjendum. Sumar skoðanir eru þær réttu og við höldum þeim fram í opinberri umræðu. Það eru skoðanir sem lýsa umburðarlyndi, mannréttindum og vinsemd. Slík viðhorf eru algeng í samfélögum þar sem „innflytjendavandamál“ hafa ekki verið mikið í umræðunni. En í samtali manna á milli þekkist samt hræðsla, óöryggi og andúð. Sumir eru hræddir við að vera sakaðir um fordóma, aðrir um að missa menningu sína, atvinnuöryggi, þjóðerni eða sérstöðu.
Þetta eru allt skiljanleg og eðlileg viðhorf sem við þurfum að horfast í augu við.
Hugrekki og von
En til þess að vinna með þessi viðhorf þarf að tala um hvernig við getum öll búið saman í einu samfélagi. Til þess að ræða það af heiðarleika þurfum við hugrekki og von.
Von um að við getum lært að standa öll saman.
Von um að við getum látið af vanhugsuðum hugmyndum og tekið upp umhyggju fyrir öllu fólki.Von um að hægt sé að skipta á fordómum og skilningi.Von um að við getum færst frá hræðslu sem skapar vantraust og biturð að því að tala á heiðarlegan og sanngjarnan hátt um„innflytjendavandann“. Jafnvel þegar það gæti ógnað því sem við trúum á og treystum.
Nú er boltinn hjá stjórnvöldum á Akureyri og samfélaginu öllu.
Sýnum að við getum staðið að aðlögun innflytjenda að íslensku skólakerfi eins vel og okkur hefur tekist til þegar við höfum boðið flóttamenn velkomna í samfélagið okkar.
En til þess þarf að grípa inn í þróunina – frekar fyrr en seinna.
Höfundur er Inga Sigrún Atladóttir, skólastjóri og situr í skólanefnd á Akureyri fyrir VG
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Dularfull veikindi