Eyjan

Bleikt

Orðið á götunni

Fimmtudagsfríin færð

Sunnudagur 22.apríl 2018
Eyjan

Fjölskyldumyndir síðasta keisarans

Egill Helgason skrifar
Fimmtudaginn 15. júní 2017 22:07

Fátt fólk í sögunni finnst manni skringilegra en þetta. Maður getur horft lengi á myndir af því – ráðgátan er slík. En samt var þetta líklega bara frekar venjulegt fólk, hafði ekki mikla hæfileika eða gáfur, var ekki framúrskarandi á neinn hátt  – en hafði stöðu sem var utan og ofan við það sem flestir kynnast. Þetta er fjölskylda Nikulásar II Romanov, síðasta keisara Rússlands, teknar ekki löngu áður en hann og fjölskylda hans, keisaraynjan Alexandra, fjórar dætur og sonurinn ríkisarfinn voru myrt – það gerðist eftir rússnesku byltinguna.

Það er eitthvað óendanlega dapurlegt við þetta fólk og alla sögu þess. Nikulás var algjört meðalmenni og hafði enga burði til að ríkja yfir Rússlandi. Hann var algjörlega úr takti við timann. Keisaraynjan var hálfrugluð, leit mjög stórt á sig, en ánetjaðist hinum skringilega klerki Raspútín. Í sjálfu sér var hann kannski ekki svo slæmur en hann fékk á sig afar slæmt orðspor vegna lifnaðarhatta sinna – Raspútín varaði við því að Rússar færu í stríð. Það var heimsstyrjöldin fyrri og skelfilegar mannfórnir í henni sem leiddu fyrst til febrúarbyltingarinnar 1917 og síðan til valdaráns bolsévíka í október sama ár.

Keisarafjölskyldan var loks flutt til Ekaterinenburg þar sem hún var myrt í kjallara að næturþeli og líkunum síðan varpað í djúpa námu. Það voru skelfileg endalok veldis sem hafði staðið í mörg hundruð ár. Keisarastjórnin var spillt og vanhæf – því miður var það sem kom á eftir ennþá verra.

 

Nikulás og Alexandra og dæturnar fjórar, Olga, Anastasia, Tatiana og María.

 

Anastasia grettir sig framan í myndavél. Lengi voru á kreiki sögur um að hún hefði komist undan – og á Vesturlöndum birtust konur sem þóttust vera hún.

 

Olga, Tatiana og ríkisarfinn Alexei ásamt keisaranum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af