fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Sölvi Tryggva: „Engar helvítis byssur!“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 12. júní 2017 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sölvi Tryggvason.

Það vakti athygli um liðna helgi þegar sást til vopnaðara sérsveitarmanna á stórviðburðum helgarinnar, Litahlaupinu í miðbænum, Sjómannadeginum og á landsleik Íslands og Króatíu á Laugardalsvelli. Sitt sýnist hverjum um þessa þróun, sumir telja þetta nauðsynlegt í kjölfar hryðjuverka í nágrannalöndum en aðrir eru mótfallnir því að hér á landi verði vopnuð gæsla á stórviðburðum. Fjölmiðlamaðurinn Sölvi Tryggvason leggur orð í belg með pistli á Facebook síðu sinni og gerir þar grein fyrir afstöðu sinni í málinu en hann er harður andstæðingur þess að lögreglan vígbúist.

Sölvi segir það sorglegt að sjá lögregluna hér á landi bera vopn á hátíð fyrir fjölskyldur í miðborg Reykjavíkur og vísar þar til Color Run eða Litahlaupsins sem haldið var á laugardaginn.

Það er algjör steypa að þessi Kanastemmning geri okkur öruggari. Byssuvæðing lögreglunnar býr þvert á móti til hættulegra samfélag. Byssur kalla á fleiri byssur. Ótti býr til ofbeldi,

skrifar Sölvi.

Að hans sögn hefur það verið ósk margra að vopnavæða íslenskt lögreglufólk. Þessi þróun hafi farið að stað fyrir alvöru þegar sérsveit Ríkislögreglustjóra fékk vopn í sínar hendur og nú séu hryðjuverk í nágrannalöndum notuð sem réttlæting fyrir því að auka hraða þessar þróunar, allt undir þeim formerkjum að verið sé að vernda óbreytta borgara.

Byggir skoðun sína á samskiptum við lögreglu

Í starfi sínu í fjölmiðlum segir Sölvi að hann hafi átt mikil samskipti við lögregluna og fylgst með störfum þeirra. Hann vitnar til orða yfirmannsin innan lögreglunnar sem sagði: „Ef almennir lögreglumenn á Íslandi fara að ganga með byssur verður bara tímaspursmál hvenær við sjáum skotbardaga í Reykjavík.“

Að sögn Sölva var þessi tiltekni lögreglumaður andsnúinn vopnaburði lögreglunnar og segist hann algjörlega sammála honum og hugsa til þessara orða þegar þessi umræða fer af stað í þjóðfélaginu.

Röksemdafærslan nú fyrir því að setja vopn í hendur í lögreglumanna er eins og áður sagði að það sé nauðsynlegt til verndar borgurum. Sölvi segir að það myndi hins vegar hafa þver öfug áhrif, vopn kalli á vopn og undirheimarnir muni vígbúast til að svara því ef lögreglan geri það.

Lögreglustarfið er erfitt – Einmitt þess vegna er vopnaburður óæskilegur

Það er þó ekki svo að Sölvi treysti ekki íslensku lögreglufólki fyrir þeirri miklu ábyrgð sem vopnaburði fylgi. Hann hefur fylgt lögreglunni að störfum að næturlagi og segir að margir átti sig ekki á því mikla álagi sem starfinu fylgi.

En einmitt þess vegna er alls gott að ekki sé verið að höndla með byssur. Jafnvel allra besta fólk getur misst stjórn á sér eitt augnablik þegar verið er að vinna enn eina næturvaktina eftir lítinn svefn og enn einn snillingurinn í misjöfnu ástandi byrjar að áreita þig,

skrifar Sölvi.

Ísland hefur sérstöðu

Stærstu rökin gegn vopnavæðingu lögreglunnar eru að mati Sölva þau að með því væri tekið „risastórt skref í kolranga átt.“ Ef það yrði að veruleika myndi Ísland tapa stöðu sinni sem fyrirmynd fyrir önnur ríki heims, með vopnlausri götulögreglu. Með því að láta lögreglunni í hendur vopn værum við í stað þess farin að apa eftir öðrum.

Sú sérstaða sem Ísland hafi í þessum efnum er að mati Sölva gríðarlega falleg og það veki alltaf með honum jafn mikið þakklæti þegar hann er erlendis og sér lögreglumenn gráa fyrir járnum, þakklæti fyrir að hafa fæðst á Íslandi.

Það er einnig mikilvægt að hans mati að ákvarðanir um þessi mál séu ekki tekin á ógagnsæjan hátt, „í bakherbergjum af íhaldssömum og óttaslegnum einstaklingum. Ofbeldisbrotum á Íslandi er ekki að fjölga og engin almennileg rök hafa verið færð fyrir því af hverju það þarf allt í einu að vígbúast.“

Sölvi lýkur pistlinum með ákalli til almennings að standa upp gegn þessari þróun:

Ef það á að verja mig með því að skammbyssuvæða opinbera starfsmenn bið ég frekar um að fá að vera varnarlaus. Berjumst gegn þessu með kjafti og klóm. Engar helvítis byssur!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt