fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Björn ósáttur og skammar RÚV: Dæmigerð fyrirsögn fyrir RÚV og VG

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Mánudaginn 12. júní 2017 09:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Bjarnason fyrrverandi dómsmálaráðherra gagnrýnir Ríkisútvarpið fyrir fréttaflutning af vopnaburði lögreglunnar. Í fréttum Stöðvar 2 á laugardag kom fram að Ríkislögreglustjóri hefði aukið viðbúnað sinn á fjöldasamkomum. Sú ákvörðun var tekin í kjölfar hryðjuverkaárása í Bretlandi. Aukinn viðbúnaður birtist Íslendingum meðal annars í vopnuðum lögreglumönnum á Color Run þar sem fjöldi barna var þátttakendur sem og á landsleik Íslands og Króatíu.

Þetta hefur verið gagnrýnt af þingmönnum Vinstra grænna og Pírata, bæði Smára McCarthy og Katrínu Jakobsdóttur. Katrín ætlar að taka upp málið á fundi Þjóðaröryggisráðsins þar sem hún á sæti í dag. Var hún ósátt við að almenningur hefði ekki verið látinn vita af því fyrir fram að lögregla yrði vopnuð og myndi loka götum. Þá hefur fólk skipst í fylkingar vegna málsins og sitt sýnist hverjum.

Vön að sjá vopnaða lögreglumenn erlendis

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra ræddi þessa ákvörðun við RÚV og hélt fram að þessi aukni viðbúnaður væri ekki merki um að Íslendingar hefðu nokkuð að óttast. Hún sagði:

Nei, í sjálfu sér held ég að það sé ekki nokkur ástæða til að gera það. En menn verða auðvitað að sýna ákveðna ábyrgð í þessu og meta þetta á hverjum tíma. Það er gott að hafa það í huga líka að með þessari ákvörðun sem menn urðu varir við meðal annars á þessari almenningssamkomu í gær, þá er ekki þar með verið að taka neina ákvörðun til langs tíma endilega.

Þá var hún spurð hver hennar skoðun væri að vera með börn sín innan um vopnaða lögreglumenn. Sigríður svaraði:

Ég er nú vön því eins og margir Íslendingar að ferðast erlendis þar sem við sjáum auðvitað vopnaða lögreglumenn, ekki bara sérsveitarmenn, heldur almennt vopnaða lögreglumenn. Auðvitað er það ekki æskilegt til langs tíma, og ekki heldur til skamms tíma, að vera í slíku umhverfi, en maður hlýtur þó að treysta þeim sem með þessi mál höndla og greiningu þeirra.

Rúv birti svo fréttina og fyrirsögnin var: „Ekkert að óttast þrátt fyrir aukinn viðbúnað.“

Björn skammar RÚV

Björn Bjarnason sem gegndi stöðu dómsmálaráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árum áður gagnrýnir fyrirsögn og framgöngu RÚV. Hann segir.

„Fyrirsögnin er dæmigerð fyrir fréttastofu ríkisútvarpsins og VG. Nú ætlar Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, að taka það upp sem gagnrýnisatriði í Þjóðaröryggisráði á morgun að lögreglan hafi gert öryggisráðstafanir. Fréttastofa ríkisútvarpsins virðist taka undir með VG ef marka má spurningarnar til dómsmálaráðherra. Kenningin um að meiri hætta stafi af þeim sem gæta öryggis en þeirra sem ógna því hefur lengi mótað afstöðu VG og fréttastofunnar til öryggismála.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt