Eyjan

Beðið eftir strætó

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Föstudaginn 9. júní 2017 06:00

Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri DV.

Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri DV skrifar:

Almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu hafa verið í ólestri á sama tíma og almenningur er stöðugt hvattur til að leggja einkabílnum. Það er ekki hægt að álasa fólki fyrir að sjá engan sérstakan ávinning í því. Mikill fjöldi er með börn sem mun auðveldara er að setja upp í einkabíl en strætó og svo eru aðrir sem vilja einfaldlega keyra sjálfir á þá staði sem þeir þurfa að komast til. Þeir sem kjósa hins vegar að nýta sér almenningssamgöngur, og gleymum ekki að þetta er álitlegur hópur, þarf bæði að sýna þolinmæði og útsjónarsemi því það er bið eftir strætó. Og ekki skánar ástandið á árstíma eins og þessum þegar sumaráætlun hefur tekið gildi. Þá er enn lengra en áður á milli ferða á flestum strætisvagnaleiðum með tilheyrandi óþægindum fyrir farþega. Það er beinlínis gert ráð fyrir að þeir dragi úr notkun sinni á almenningssamgöngum á sumrin. Sennilega er ætlast til að þeir hjóli.

Gott almenningssamgöngukerfi er meðmæli með þeim borgum og bæjum sem leggja metnað í að hafa það í lagi. Það felst ákveðin uppgjöf í því að halda þar ekki úti góðri og hraðri þjónustu. Fólk verður að finna að það sé hagkvæmt og þægilegt að nýta sér almenningssamgöngur en því miður hefur ekki verið svo. Þess vegna er þotið inn í einkabílinn.

Nú er hins vegar eins og menn séu að ranka úr rotinu og tilbúnir að gefa í, því nýlega var tilkynnt um stofnun Borgarlínu sem ætlað er að bæta verulega almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Borgarlínan á að styðja við strætisvagnakerfið og ganga á 5–7 mínútna fresti á annatímum. Ekki er annað hægt að segja en að þetta sé hið allra besta mál. Sömuleiðis lýsir það metnaði að stefna að því að árið 2040 muni 12 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins velja að nýta sér almenningssamgöngur. Nú eru um fjögur prósent sem velja þann kost en ef fjölga á í þeim hópi þarf ýmislegt að breytast.

Það er ekki hægt að sitja með hendur í skauti og bíða eftir að farþegar láti sjá sig. Það þarf að veita þeim góða þjónustu. Borgarlínan er sannarlega þjónusta við íbúa en um leið þarf að efla sjálft strætisvagnakerfið. Farþegar sem bíða í vondu veðri í strætóskýli sem rúmar einungis fáeina einstaklinga og heldur auk þess stundum hvorki vatni né vindum eiga vissulega oft í erfiðleikum með að halda í góða skapið og brosið. Hugur þeirra hlýtur þá að leita til þæginda einkabílsins. Lái þeim hver sem vill.

Ljóst er að með tilkomu Borgarlínunnar fá almenningssamgöngur forgang á kostnað einkabílsins, eins og eðlilegt hlýtur að teljast. Borgarsamfélög víða um heim eru einmitt að þróast í þessa átt, þar hafa menn fengið nóg af umferðarteppu og mengun. Við þeirri þróun verður ekki spornað. En til að íbúarnir verðir sáttir þarf þjónusta almenningssamgangna ekki bara að vera í góðu lagi heldur í allra besta lagi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af