Eyjan

Erlendir ferðaskipuleggjendur búast ekki við að selja margar ferðir til Íslands

Ari Brynjólfsson skrifar
Miðvikudaginn 17. maí 2017 11:43

Ferðaskipuleggjendur í Bretlandi og Þýskalandi hafa þurft að aflýsa fyrirhuguðum ferðum til Íslands og gera ekki ráð fyrir að selja margar ferðir hingað til lands 2018. Segir Manfred Schreiber hjá ferðaskrifstofunni Studiosus í Þýskalandi í samtali við Túrista að styrking krónunnar og fyrirhuguð hækkun á virðisaukaskatti geri það að verkum að erfitt verði að verðleggja Ísland til ferðamanna:

Við munum ekki taka Ísland út. Við erum hins vegar langt komin með skipulagningu ferða næsta árs og munum örugglega skera töluvert niður á Íslandi því við reiknum ekki með að margir muni kaupa ferðir þangað,

segir Schreiber. Afbókanir hingað til lands hafa verið nokkuð til umræðu að undanförnu, en í mars síðastliðnum greindi RÚV frá því að fimmtán hundruð afbókanir hafa borist norsku ferðaheildsölufyrirtæki vegna fyrirhugaðra ferða til Íslands í sumar.

Clive Stacey, stofnandi og framkvæmdastjóri bresku ferðaskrifstofunnar Discover the World, segir í samtali við Túrista að það stefni í dvalartími ferðamanna hér á landi styttist og að erfiðara sé að selja ferðir til Íslands en árin á undan:

Við urðum til að mynda nýverið að aflýsa 8 daga gönguferð um Austurland þar sem eftirspurnin var ekki næg til að standa undir kostnaði. Þetta kemur reyndar ekki á óvart því ferðin kostaði þrjú þúsund pund [395 þúsund kr.] sem er um 30 prósent hærra verð en í fyrra. Fyrir sama verð getum við boðið upp á tveggja vikna hreyfiferð um Nýja-Sjáland.

Að sama skapi hefur eyðsla ferðamanna dregist saman, samkvæmt greiningadeild Íslandsbanka jókst heildarkorta­velta erlendra greiðslu­korta hér á landi um 25% á milli ára en á sama tíma jókst heild­ar­fjöldi erlendra gesta um 62%.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af