fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Óhugnanlegt kennaramorð í Gautaborg skekur Svía: Skotinn með köldu blóði fyrir framan börnin

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 14. maí 2017 23:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Knattspyrnumaðurinn og -þjálfarinn Alan Amin varð aðeins 27 ára gamall. Hann hafði vakið athygli fyrir að kenna innflytjendastúlkum knattspyrnu því hann vildi hjálpa þeim að aðlagast sænsku samfélagi.

Morð sem framið var í Gautaborg í Svíþjóð síðastliðinn fimmtudagsmorgun hefur vakið mikinn óhug. Þá var ungur aðstoðarkennari skotinn til bana af þremur grímuklæddum mönnum fyrir utan skólann þar sem hann starfaði.

Fjöldi nemenda varð vitni að því þegar hinn 27 ára gamli Alan Amin var myrtur með þaulskipulögðum hætti og aðferð sem líkt er við hreina aftöku. Morðingjarnir gengu að honum þar sem hann sat í bíl sínum og skutu hann margoft.

Ódæðismennirnir komust undan. Þeir hafa ekki enn fundist þrátt fyrir ákafa leit lögreglu.

Alan Amin starfaði við Lövgärdeskolan í Gautaborg. Ekki er vitað til þess að hann hafi verið flæktur í neina glæpastarfsemi, hann var vinsæll og virkur í sínu nærumhverfi meðal annars sem knattspyrnumaður og -þjálfari og frumkvöðull í því að fá ungar innflytjendastúlkur til að stunda íþróttina.

Í fyrrasumar vakti Alan athygli þegar hann kom af stað knattspyrnuiðkun meðal barna í sínum borgarhluta. Hann hafði séð að fæst þeirra fóru með fjölskyldum sínum í sumarfrí. Sjálfur spilaði hann með Svearud FC þar sem hann var einnig þjálfari fyrir kvennaliðið og sat í stjórn félagsins. Í viðtali við fjölmiðla sagði hann að það væri mikilvægt að stúlkur meðal innflytjenda hlytu aðlögun að sænsku samfélagi og fékk 45 slíkar til að hefja æfingar og leik í knattspyrnu.

Markmiðið er að þáttakendur fái að kynnast nýju fólki og aðlagist, forgangsverkefnið er að stúlkur í Angered [Lövgärdet]-hverfinu njóti aðlögunar,

sagði Alan Amin í viðtali við sænska ríkisútvarpið í júlí síðastliðinn.

Dagblaðið Göteborg-posten skrifar að ekki sé vitað hvað bjó að baki morðinu en Amin hafi borist hótanir. Blaðið upplýsir á vefsíðu sinni að lögreglan í Gautaborg telji ekki að hér hafi verið um að ræða uppgjör milli glæpahópa þar sem Alan Amin var ekki þekktur að neinu misjöfnu. Aftur á móti naut hann vinsælda og virðingar að því er kemur fram í frétt Expressen.

Göteborg-posten upplýsir að lögreglan rannsaki nú málið meðal annars út frá þeirri kenningu að um svokallað „heiðursmorð“ hafi verið að ræða. Ekki er þó tilgeint nánar um ástæður þess. Lövgärdet-hverfið er að sögn Göteborg-posten, eitt af sex hverfum borgarinnar sem lögregluyfirvöld telja áhættusöm með tilliti til félagslegra vandamála og afbrota.

Lögreglan í Gautaborg vinnur nú að rannsókn málsins en virðist lítt verða ágengt meðal annars vegna þess að fólk þorir ekki eða vill ekki veita upplýsingar. Í gær sendi hún út ákall til almennings:

Við leysum ekki þetta mál án aðstoðar almennings. Þöggunarmenningunni [meðal fólks] verður að linna. Við viljum að fólk sem hefur upplýsingar um málið hafi samband við okkur,

sagði Christer Fuxborg talsmaður Gautaborgarlögreglunnar við Göteborg-posten á laugardag.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt