Eyjan

Bleikt

Orðið á götunni

Fimmtudagsfríin færð

Föstudagur 20.apríl 2018
Eyjan

Ást fyrir tvo – á portúgölsku og í venjulegum fötum

Egill Helgason skrifar
Sunnudaginn 14. maí 2017 09:18

Það fór líkt og ég skrifaði í litlum pistli sem ég birti 9. apríl – að Portúgalinn Salvador Sobral hlyti að vinna Evróvisjónkeppnina. Það gerði hann með miklum yfirburðum. Hann hélt litla ræðu um nauðsyn tilfinninga og ástríðu í tónlist. Svo sungu hann og systir hans Luísa saman sigurlagið Amar Pelos Dois – sem Hallgrímur Helgason hefur íslenskað. Þetta var einhver hjartnæmasta og tilfinningaþrungnasta stund í Evróvisjón fyrr og síðar – það blikuðu tár á hvarmi.

Bretar hafa löngum haft mjög kaldhæðið viðhorf til Evróvisjón, hrauna helst yfir keppnina, en meira að segja Euan Ferguson sem skrifar í The Observer segist vera glaður yfir því að hann hafi horft á keppnina sem hafi verið sú besta í langan tíma.

Það er ýmislegt heillandi við portúgalska lagið, og ekki bara að það sé flutt af hinum heilsuveila Salvador. Luisa, systir hans, er djasstónlistarkona, menntuð í Berklee tónlistarskólanum í Boston þar sem margir Íslendingar hafa farið til náms. Eins og heyrðist þegar systkinin fluttu lagið er það nokkuð djassað, en þarna eru líka áhrif frá brasílískri músík og hinni þjóðlegu portúgölsku fado-tónlist.

Takið svo eftir því að þau systkinin eru í „venjulegum“ fötum á sviðinu. Það er tónlistin sem talar, ekki búningarnir og uppsetningin.

 

 

 

Og svo er það sungið á portúgölsku, þessu söngvæna tungumáli sem aðeins 10 milljónir Evrópubúa tala. Portúgalir hafa á einu ári náð að sigra bæði í Evrópukeppninni í fótbolta og í Evróvisjón. En þarna sanna þeir að það þarf alls ekki að syngja á ensku. Hún getur þvert á móti dregið lögin og keppendurna niður ef þeir ekki kunna að tjá sig á henni.

Í gærkvöldi rifjaðist upp fyrir mér lag sem Frakkar sendu í Evróvisjónkeppnina sem var haldin í Róm árið 1991. Það var sungið af Aminu Annabi, söngkonu sem er ættuð frá Túnis. Lagið, Le dernier qui a parlé, blandaði á þokkafullan hátt saman franskri sönglagahefð og arabískum áhrifum.

 

 

Lag Aminu náði efsta sætinu í keppninni ásamt sænska laginu, Fångad av en stormvind með sænsku söngkonunni Carolu. Það er miklu síðra lag, virkar nokkuð hallærislegt núorðið, en sigraði við endurtalningu.

 

 

Við sjáum á þessum myndböndum hvað Evróvisjónkeppnin hefur breyst á þessum aldarfjórðungi. Umgjörðin er miklu hófstilltari. Það er ekki þessi ljósasýning sem lítur út eins og við séum stigin inn í tölvuleik – Portúgalinn þurfti reyndar ekkert slíkt. Það eru hljóðfæraleikarar á sviðinu, meira að segja strengjasveit með stjórnanda. Og keppendurnir syngja á sínu eigin tungumáli.

Það er svo lítil viðbót við þessa sögu að Amina kom til Íslands skömmu eftir keppnina og hélt tónleika með hljómsveit sinni. Það var nokkuð gott, minnir mig. En vinur minn, Frakki sem þá bjó á Íslandi, varð sjúkur af ást til hennar og losnaði ekki undan þeirri áþján en mörgum árum síðar. Ástin var ekki endurgoldin. Amina var reyndar mjög glæsileg kona, það vantar ekki, hún náði nokkrum frama í kvikmyndum á þessum árum, lék meðal annars í mynd Bertoluccis, The Sheltering Sky.

En aftur að systkinunum Salvador og Luisu, eftir henni er haft í viðtali um lagið og flutninginn.

Mér finnst tungumálið mitt fallegt, hljóðin eru falleg og ég held að fólk skilji lagið út frá túlkun bróður míns. Ég held að fólk finni fyrir textanum og merkingunni eða því sem fólk á að finna fyrir í gegnum flutning hans á laginu. Þannig að mér finnst ég ekki þurfa að þýða textann, auk þess sem ég er ekki hrifin af því að þýða ljóð. Mér finnst það skrýtið.

Okkur er báðum sama um það hvernig við lítum út á sviði, við viljum bara finna fyrir laginu. Þegar líkami þinn er mjög tengdur hjartanu og því sem þú segir þá túlkar maður orð með hreyfingum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Dularfull veikindi