fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Sigmundur Davíð tuskar til gagnrýnendur – Píratar svara

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 12. maí 2017 09:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Mynd: DV/Sigtryggur Ari

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður Framsóknarflokksins hefur svarað ásökunum um að mæta illa til vinnu á Alþingi. Í gær fór Fésbókarfærsla á flug þar sem kom fram að Sigmundur hafi alls verið viðstaddur einungis 12,8% atkvæðagreiðslna á þessu þingi og að Sigmundur hafi ekki verið viðstaddur atkvæðagreiðslu á þingi síðan 22. desember 2016. Þar að auki hafi hann aðeins mætt 4 sinnum á síðustu 13 fundum Utanríkismálanefndar, þar að auki ávallt of seint.

Færslunni deildu bæði þingmaður og varaþingmaður Pírata og var gert frétt um málið á Vísi. Segir Sigmundur á Fésbók að það sé langt síðan hann hætti að nenna að svara nettröllum, jafnvel þótt þau detti inn á Alþingi:

Ég ætla þó að gera smá undantekningu því frúin er að ergja sig á því að kunnuglegir hrekkjalómar séu að reyna að halda því fram að ég sinni ekki vinnunni. Hún er nefnilega orðin langþreytt á biðinni eftir að einhver skammi mig fyrir hið gagnstæða, þ.e. að vanrækja fjölskylduna. Henni fannst því fokið í flest skjól þegar að ónefndur fréttamaður Vísis hafði eftir varaþingmanni Pírata að ég væri ekki nógu mikið í vinnunni og það daginn eftir að hún spurði hvort ég væri alveg búinn að gleyma að ég ætti fjölskyldu.

Af því tilefni skrifaði Sigmundur pistill um starf þingmanns, er hann birtur hér í heild sinni:

Þingmenn eiga að fylgjast með umræðum í þingsal eins og kostur er. Salurinn er hins vegar oftast tómur eða því sem næst. Ég skal viðurkenna að það hendir stundum, alla vega í mínu tilviki, að starfið feli í sér verkefni sem eru meira aðkallandi en að hlusta á umræðu um fundarstjórn forseta (eða að taka þátt í slíkum uppákomum).

Þótt þetta séu áhugaverðir tímar í stjórnmálum hafa þingstörfin ekki endurspeglað það síðustu misseri.
Við stjórnvölinn er ríkisstjórn sem hefur einstaklega lítið fram að færa og hinum megin sundurlaus stjórnarandstaða sem veltir helst fyrir sér hvaða pólitísku leikatriði sé hægt að setja á svið þann daginn. -Æsa sig yfir einhverju aukaatriði sem engu máli skiptir í umræðu um fundarstjórn forseta eða leggja fram ályktun um að þingmenn meirihlutans mæti ekki nógu vel á nefndarfundi (þótt sumir þeirra eigi að vera á tveimur nefndarfundum samtímis).

Slík úrræði ætti að spara fyrir tilvik þar sem þeirra er raunverulega þörf. Hver er trúverðugleikinn þegar búið er að öskra um endalok lýðræðis af því formaður nefndar spurði stjórnarandstöðuþingmann í sakleysi sínu hvort hann teldi æskilegt að fresta máli?

Svo eru það atkvæðagreiðslurnar.
Fljótt á litið sýnist mér að það hafi verið þrír þingfundardagar á árinu þar sem atkvæðagreiðslur fóru fram um einhvern fjölda mála (auk tilfallandi atkvæðagreiðslna). Alls hafa fjögur ný mál orðið að lögum á árinu, öll á undanförnum dögum.

Það er hlutverk meirihluta að tryggja næga mætingu í atkvæðagreiðslur og tímasetja þær þannig að þingmenn meirihlutans séu á staðnum. En auðvitað er það leiðinlegt fyrir minnihlutaþingmann ef hann missir af tækifæri til að greiða atkvæði um framgang mála á miðju þingi.
Um helmingur þeirra atkvæðagreiðslna sem fram hafa farið á árinu var á fimmtudaginn fyrir viku. Þann dag var ég að sinna kjördæminu.

Auðvitað þykir manni vænt um það ef kollegar sem hafa ekki nóg að gera sakna manns. En það er samt ekki fallegt að skilja aðra út undan.
Hver man t.d. ekki eftir áfallinu sem tveir af brottföllnum þingmönnum Samfylkingarinnar urðu fyrir þegar ég tók mér þriggja daga frí með fjölskyldunni á síðasta kjörtímabili. Á meðan hverfa aðrir ráðherrar vikum saman án þess að vera saknað. Það hlýtur að vera leiðinlegt, getur jafnvel vakið höfnunartilfinningu.

Á þessu ári hef ég verið í vinnu sem þingmaður á hverjum einasta degi að frátöldum nýársdegi, páskadegi og öðrum degi páska. Á þingfundardögum mætir maður í þinghúsið eða á skrifstofuna nema maður sé á fundum eða í öðrum verkefnum annars staðar. Stundum eru þeir fundir annars staðar á landinu, langt frá Austurvelli. Þeir sem halda að starf þingmanns felist í að sitja allan daginn í sófunum í þinghúsinu eru ekki að vinna vinnuna sína.

Smári McCarthy þingmaður Pírata.

Þótt það geti verið áhugavert að bera saman hversu lengi hver og einn situr í þinghúsinu er líklega réttara að bera saman þann árangur sem menn skila. Ég er alltaf til í þann samanburð við hvern sem er.

Píratar svara

Smári McCarthy þingmaður Pírata svaraði svo Sigmundi í athugasemd:

Ef þú mættir aðeins oftar, eins og lög kveða á um, þá myndirðu vita að ég er ekki varaþingmaður. Öll sinnum við fundum og ýmiskonar störfum þingmanna langt frá Austurvelli (í augnablikinu er ég að sinna þingstörfum í 7400km fjarlægð frá Austurvelli, til dæmis), en flestir þingmenn sjá sér samt fært að mæta á nefndarfundi og atkvæðagreiðslur, þó ekki sé annað.

Viktor Orri Valgarðsson varaþingmaður Pírata

Viktor Orri Valgarðsson varaþingmaður Pírata svaraði honum einnig, segir Viktor það lítið vandamál fyrir aðra þingmenn, þó mismikið, að mæta á þingfundi og á nefndarfundi. Krefst Viktor svara:

„Hvað ertu eiginlega búinn að vera að gera svona miklu meira utan þingsins en aðrir þingmenn á þessu þingi, að þú hefur ómögulega getað mætt eða boðað forföll á fleiri en örfáa þingfundi, eða á fleiri en 4 nefndarfundi af 13?

Ertu að vinna að stofnun sprotafyrirtækis? Lækningu við kattaofnæmi? Friðarviðræðum í Mið-Austurlöndum? Það hlýtur að vera eitthvað gríðarlega tilkomumikið, verkefnið sem þú ert búinn að leggja nótt við dag við undanfarna mánuði…? Þú segist vera til í samanburð á árangri hvenær sem er – lát heyra!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki