Eyjan

Viðskiptaþvinganir hafa lamað útflutning Norður-Kóreu á kolum

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 5. maí 2017 06:31

Kim Jong Un, einræðisherra Norður Kóreu. Mynd/EPA

Tilraunir Sameinuðu þjóðanna til að loka fyrir eina helstu fjáröflunarleið Norður-Kóreu virðist vera að virka. Í kjölfar þess að Norður-Kórea sprengdi kjarnorkusprengju á síðasta ári voru refsiaðgerðir gegn ríkinu hertar enn frekar. Eitt markmið með nýju hertu reglunum var að loka fyrjr sölu Norður-Kóreu á kolum en Kínverjar hafa verið helstu kaupendur þeirra. Nú virðist þetta hafa tekist því í mars keypti ekkert ríki kol af Norður-Kóreu.

Þetta kemur fram í gögnum sem nefnd, sem hefur eftirlit með framkvæmd refsiaðgerðanna fyrir hönd SÞ, hefur birt á heimasíðu sinni. Suður-kóreska fréttastofan Yonhap skýrir frá þessu. Því virðist sem stjórnvöld í Norður-Kóreu hafi ekki náð að selja eitt einasta kol úr landi allan mars. Fyrrnefnd eftirlitsnefnd fær gögn frá öllum aðildarríkjum SÞ um viðskipti þeirra við Norður-Kóreu. Þær eru síðan birtar opinberlega mánuði síðar.

Samkvæmt samþykkt öryggisráðs SÞ númer 2321 er nær óheimilt að kaupa kol frá Norður-Kóreu. Heildarkaup ársins 2017 mega ekki vera meiri en 400 milljónir dollara eða 7,5 milljónir tonna.

Kol eru ein mikilvægasta útflutningsvara Norður-Kóreu en með kolasölunni fær þetta fátæka ríki erlendan gjaldeyri sem er síðan notaður til að fjármagna kjarnorkuvopnatilraunir landsins.

Kínverjar eru stærstu kaupendur kola frá Norður-Kóreu en samþykkti fyrrgreinda ályktun númer 2321 í öryggisráðinu en þar eru Kínverjar með neitunarvald.

Talið er að Kínverjar hafi keypt kol frá Norður-Kóreu í upphafi árs en í febrúar tilkynntu kínversk stjórnvöld að þau myndu banna öll kaup á kolum frá Norður-Kóreu út árið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af