fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

Embætti ríkislögreglustjóra tekur gagnrýni yfirlögregluþjóns illa: Togstreita almennrar lögreglu og sérsveitarinnar

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 21. apríl 2017 14:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í vikunni var skýrt frá því að sérsveit ríkislögreglustjóra væri að fá fjóra sérútbúna bíla til notkunar. Bílarnir eru af gerðinni Ford Police Interceptor og eru mjög kraftmiklir og vel búnir tækjum. Hver þeirra kostar 15 milljónir. Þessu til viðbótar er sérsveitin að taka nýjan einkennisfatnað í notkun. Morgunblaðið skýrði frá þessu. Í framhaldi af þessum fréttaflutningi hafði Morgunblaðið eftir yfirlögregluþjóni á Suðurlandi að einnig sé nauðsynlegt að endurnýja bíla og búnað almennrar lögreglu. Þessu tekur embætti ríkislögreglustjóra illa og sendi frá sér tilkynningu til Morgunblaðsins í gær vegna þessa.

Í Morgunblaðinu í gær var haft eftir Sveini Kr. Rúnarssyni, yfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á Suðurlandi, að það væri mikilvægt að efla sérsveitina en einnig sé mikilvægt að endur bíla og annan búnað almennra lögregluliða. Haft er eftir Sveini að lögreglan á Suðurlandi sé með 13 merkta lögreglubíla til notkunar. Þremur þeirra, allt Skoda Superb, hefur verið ekið 300.000 til 400.000 kílómetra og eru orðnir ansi viðhaldsfrekir að sögn Sveins. Einn dagur í notkun mest eknu bílanna hafi í för með sér að þeir séu á verkstæði í einn dag, það sé lítið vit í slíku. Hann sagði að fimm bílar hjá embættinu væru komnir á endurnýjunartíma en líklega fái embættið ekki nema einn nýjan bíl á árinu.

Gamall fatnaður á nýja lögreglumenn

Lögreglan á Suðurlandi fékk tvo nýja Skoda Superb bíla til notkunar og þurfti ekki að láta neinn bíl af hendi í staðinn. Þetta var að sögn Sveins nauðsynlegt þar sem verkefni lögreglunnar í umdæminu séu alltaf að aukast. Eftirlit hafi verið aukið vegna ferðamannastraumsins en embættið hefur fengið aukalegar fjárveitingar til að sinna þessu.

Sveinn vakti einnig athygli á að nú sé lögreglan ekki með neina samninga um kaup á einkennisfatnaði handa lögreglumönnum og því þurfi að grafa upp gamlan fatnað til að láta nýja lögreglumenn fá.

Hvað varðar bílamál lögreglunnar þá ráða embættin engu um endurnýjun bílaflotans því hún er háð fjárveitingum sem fara til embættis ríkislögreglustjóra. Ríkislögreglustjóraembættið kaupir síðan ný ökutæki og leigir lögregluembættunum en þau greiða kílómetragjald fyrir hvert ökutæki. Ríkislögreglustjóri fer með æðstu stjórn lögreglunnar í landinu í umboði innanríkisráðherra.

Í Morgunblaðinu í dag er aftur fjallað um málið og athugasemd sem Bílamiðstöð ríkislögreglustjóra sendi blaðinu. Þar kemur fram að lögreglan á Suðurlandi hafi fengið tvo nýja og vel búna Skoda Superb bíla á síðasta ári. Auk þess sé embættið með Ford Transit sem er nýttur við umferðareftirlit auk þriggja breyttra jeppa.

Í athugasemdinni kemur fram að lögreglan á Suðurlandi sé með þrjá ágætis Skoda Superb bíla, árgerðir 2011-2012 til notkunar. Þar er væntanlega um sömu bíla að ræða og Sveinn Kr. nefndi til sögunnar í gær og sagði vera ekna 300.000 til 400.000 kílómetra. Í athugasemdinni er einnig tekið fram að lögreglan á Suðurlandi fái nýjan bíl síðar á árinu auk þess sem hún fái einn af bílum sérsveitarinnar í maí. Þar er væntanlega um notaða lögregubifreið að ræða. Bílamiðstöðin hefur gert töluvert af því í gegnum tíðina að senda lögreglubíla á milli lögregluliða og hefur þá engu gilt hversu mikið þeir hafa verið eknir.

Bílar til að friða lögreglumenn

Heimildir Eyjunnar á meðal lögreglumanna herma að þetta hafi oft vakið mikla undrun lögreglumanna og oft á tíðum hafi virst sem friða hafi átt lögreglumenn og embættin með því að láta þá fá „nýja“ lögreglubíla. Það er þó rétt að hafa í huga að í vissum tilfellum getur hentað að senda notaða lögreglubíla á milli embætta, til dæmis getur myndast þörf hjá einu embætti fyrir að fá jeppa til umráða um tíma á meðan annað embætti þarf frekar á fólksbíl að halda.

Í athugasemdinni frá Bílamiðstöðinni segir að samkvæmt áætlun sé fyrirhugað að kaupa níu sérútbúna lögreglubíla fyrir embættin úti á landi á þessu ári auk þess sem þrjú mótorhjól og tveir sendibílar verði keyptir fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Í athugasemdinni, sem Morgunblaðið fjallaði um í dag, er ekkert sem hrekur orð Sveins um ástand bílaflota lögreglunnar á Suðurlandi eða endurnýjun hans.

Samtals verða því keyptir 15 nýir lögreglubílar á árinu ef nýju bílar sérsveitarinnar eru teknir með í reikninginn. Ljóst má vera að stór hluti þeirrar fjárveitingar sem á að verja til bílakaupa á árinu fer í bíla sérsveitarinnar. Það er hins vegar fjárveitingarvaldið sem ákveður hversu háum fjárhæðum er varið til bílakaupa og úr þeim fjármunum verður ríkislögreglustjóraembættið að spila.

Gremja í garð embættis ríkislögreglustjóra

Lögreglumenn hafa rætt þessi mál nokkuð sín á milli enda þykir þeim mörgum sem bílaflotinn sé orðinn ansi lúinn. Eyjan hefur heimildir fyrir að nokkur kergja ríki oft á milli almennra lögreglumanna og sérsveitarinnar, þó ekki persónuleg gremja manna á milli heldur gremja í garð ríkislögreglustjóraembættisins. Sumum þykir embættið hygla sérsveitinni á köflum og það á kostnað almennrar lögreglu í landinu sem þurfi að búa við þröngan kost á meðan sérsveitin virðist oft hafa úr nægu að spila.

Lögreglumenn eru þó almennt þeirrar skoðunnar að sérsveitin þurfi að vera vel búin og hafa besta fáanlega tækjabúnað til umráða enda er sveitin nauðsynleg við margvísleg hættuleg verkefni sem lögreglan þarf að takast á við. Þeim þykir þó oft sem hin almenna lögregla gleymist þegar kemur að búnaðar- og þjálfunarmálum. Þar má eflaust kenna fjárveitingarvaldinu um að hluta að minnsta kosti enda skammtar það lögreglunni peninga. Hitt er svo kannski annað mál hvernig ríkislögreglustjóri spilar úr þeim fjármunum sem ætlaðir eru til tækja- og búnaðarkaupa fyrir lögregluna í landinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega