Eyjan

Mun fleiri sækja um hæli í Mexíkó eftir að Trump tók við forsetaembætti

Ritstjórn Eyjunnar skrifar
Miðvikudaginn 19. apríl 2017 06:58

Frá því að Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna hefur hælisleitendum fjölgað mikið í Mexíkó en þeim hefur fjölgað um 150 prósent. Einnig eru mun færri, sem reyna að fara ólöglega yfir landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó, stöðvaðir á landamærunum. Flest bendir til að fólk frá Mið-Ameríku sæki nú frekar um hæli í Mexíkó en að reyna að komast til Bandaríkjanna. Meiri líkur séu á að það fái að dvelja í Mexíkó en Bandaríkjunum.

Þetta kemur fram í nýjum tölum frá mexíkóskum yfirvöldum. Þar kemur fram að frá því að forsetakosningarnar í Bandaríkjunum fóru fram í nóvember og þar til í mars sóttu 5.421 um hæli í Mexíkó en á sama tíma ári áður voru umsóknirnar 2.148. Sérfræðingar segja að það sé þó enn of snemmt að segja með fullri vissu að þessi mikla aukning sé tilkomin vegna kjörs Trump í forsetaembættið.

Cinthia Perez, forstjóri mexíkósku útlendingastofnunarinnar, segir að upplifun fólks á pólitískum breytingum hafi örugglega áhrif á hvar það sæki um hæli. Jótlandspósturinn segir að samkvæmt því sem Perez segi þá eigi nú að reyna að komast til botns í af hverju svo margir sækja nú um hæli í Mexíkó. Meðal annars á að spyrja hælisleitendur beint hvort kjör Trump hafi haft áhrif á ákvörðun þeirra.

Tölur frá bandaríska innanríkisráðuneytinu sýna að mun færri ólöglegir innflytjendur hafa verið stöðvaðir á landamærunum við Mexíkó eftir að Trump var kjörinn forseti. Í mars voru rétt rúmlega 1.000 stöðvaðir en það er 93 prósent fækkun ef borið er saman við desember.

Stærsti hluti þeirra sem sækja um hæli í Mexíkó eru frá Hondúras, El Salvador og Gvatemala en í þessum ríkjum ríkir nánast óöld með tilheyrandi ofbeldi og óróleika í samfélaginu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af