fbpx
Miðvikudagur 01.maí 2024
Eyjan

Þau segja við okkur: „Passið ykkur Íslendingar að lenda ekki í sömu aðstæðum og við“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 17. apríl 2017 08:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnhildur Helga Jónsdóttir í Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri. Heimasíða safnsins er landbunadarsafn.is.

Við sitjum í Ullarselinu á Hvanneyri. Það er verslun með lopa og ullarvörur úr Borgarfjarðarhéraði. Öðrum þræði er Ullarselið líka eins konar móttaka fyrir Landbúnaðarsafn Íslands sem er í sama húsi. Þetta hús var fyrrum til áratuga fjósið á Hvanneyri og er kallað Halldórsfjós. Kýrnar eru nú fyrir allnokkrum árum síðan fluttar yfir í nýmóðins fjósbyggingu. Halldórsfjósi hefur hins vegar með afar vel heppnuðum hætti verið breytt í Ullarsel og Landbúnaðarsafn. Hér ætlum við að spjalla við Ragnhildi Helgu Jónsdóttur. Frá síðustu áramótum hefur hún veitt Landbúnaðarsafninu forstöðu. Auk þess kennir hún við Landbúnaðarháskólann.

 

Bóndi og fræðikona

Ég tók við sem verkefnisstjóri safnsins núna um áramótin. Ég hef unnið við nokkur rannsóknaverkefni í tengslum við Landbúnaðarsafnið. Meðal annars hef ég unnið að rannsóknum á nýtingu flæðiengja hér í Borgarfirði. Sú nýting var mikilvæg undirstaða undir landbúnað á stórum svæðum. Annað er að ég hafði nú upp á síðkastið unnið ásamt fleirum að skýrslu um ræktunarminjar í Ólafsdal. Það var í samstarfi við Landbúnaðarsafnið. Áður hafði ég einnig verið starfsmaður í ígripum, tekið á móti hópum og fleiri. Annars er ég aðjúnkt við Landbúnaðarháskólann og námsbrautarstjóri í náttúru- og umhverfisfræðum. Þar kenni ég kúrsa í landnýtingar- og umhverfisfræðum,

útskýrir Ragnhildur í upphafi samtalsins.

Strax kemur fram að tengsl hennar við Hvanneyrarstað, landbúnaðinn og umhverfið eru sterk. Hún er fædd og uppalin í Andakílnum.

Ég bý nú hér á næsta bæ við Hvanneyri, í Ausu. Þarna fæddist ég og er uppalin. Við búum þar mæðgur og erum með okkar fé sem er svona liðlega frístundabúskapur. Þarna eru við með 90 kindur, þannig að ég er líka sauðfjárbóndi.

Ragnhildur hleypti þó heimdraganum og sótti sér menntun sem landfræðingur. Síðan lauk hún meistaragráðu í umhverfis- og auðlindafræði með áherslu á sögu landnýtingar. Allt þetta nam hún við Háskóla Íslands.

Nei, ég fór aldrei í skóla á Hvanneyri en ég er hins vegar búin að kenna hér af og til í tuttugu ár eða meira,

segir Ragnhildur og hlær. Eftir fjölda ára þar sem hún starfaði við Landbúnaðarháskólann með hléum hefur Ragnhildur verið fastráðin þar síðan 2012.

 

Háskólinn réttir úr kútnum

Ragnhildur segir að það henti sér vel að geta samtvinnað það að nýta sitt eigið land heima í Ausu og búa þar, en jafnframt starfa við kennslu og fræðastörf. Hún segist kannski svona í og með hafa horft í það þegar hún var í námi.

Það var þó ekki svona alveg ákveðið. Þetta var kostur að geta nýtt menntunina á þessu sviði sem ég geri í dag. Ég hef alltaf haft áhuga á kennslu. Mér þykir það mjög skemmtilegt. Þetta er krefjandi og mikil vinna en það að geta miðlað og verið í þessum skoðanaskiptum og samskiptum við nemendur er mikils virði og gefandi.  Það er nóg að gera, það eru ekki margar dauðar stundir.

Við víkjum spjalli okkar að Landbúnaðarháskólanum. Þessi afar mikilvæga fræða- og menntastofnun á Vesturlandi gekk í gegnum erfiða niðurskurðartíma í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Ragnhildur upplýsir að nú sé staðan öll að batna.

Á síðasta ári náðist að koma rekstrinum í mjög gott horf. Hann skilaði afgangi. Það fékkst líka niðurskurður á skuldum sem skólinn var búinn að safna gagnvart ríkissjóði eftir erfið ár þar sem reksturinn var ekki í takti við þær fjárveitingar sem ríkið innti af hendi. Nú er þetta að baki og við horfum til þess að geta farið að byggja upp aftur.

 

Stofnun með erindi

Það má greinilega merkja brennandi áhuga í röddu Ragnhildar þegar hún talar um mikilvægi starfsemi Landbúnaðarháskólans fyrir samfélagið. Hún segir það snúast um grundvallaratriðin.

Þessi vél stendur óuppgerð í verkstæðisumhverfi á Landbúnaðarsafninu.

Við erum kenna hvernig við lifum með og af landinu. Hvernig við getum nýtt okkar auðlindir meðal annars til að brauðfæða fólkið sem býr hér. Við þurfum að geta gengið sómasamlega um landið á sjálfbæran hátt. Þau fög sem eru kennd hér við Landbúnaðarháskólann snerta öll þessa þætti, hvort sem það er búfræðin sjálf og búvísindin, eða þá brautir eins og náttúru- og umhverfisfræði, skógfræði og landgræðsla, og síðan umhverfis- og skipulagsfræði. Þetta eru allt undirstöðugreinar undir það að lifa í landi og geta nýtt það á sómasamlegan hátt.

Hún bætir svo við:

Við eigum mikið erindi við samfélag nútímans. Þetta eru málin sem brenna á okkur. Hvernig göngum við um auðlindir okkar? Hvernig eigum við að geta lifað af þeim til lengri tíma litið? Við sjáum alltaf fleiri og fleiri dæmi um umhverfisvandamál. Dæmi um það eru loftslagsbreytingarnar. Þetta eru mál sem virkilega brenna á fólki. Ég hef algerlega staðfasta trú á því að við eigum virkilega erindi við samfélagið,

segir hún ákveðin.

 

Ríkar skyldur

Nú líður hratt að vori. Þá eru nemar útskrifaðir en líka tekið við umsóknum um skólavist. Hvernig er staðan í þeim málum á Hvanneyri?

Háskóladeildirnar gætu tekið við fleiri nemendum. Það er auðveldara að bæta við þar heldur en í búfræðinni sem byggir mikið á verklegu námi. Það takmarkar fjöldann þar. Á síðustu árum höfum við því miður orðið að vísa frá um þriðjungi umsækjenda í bændadeild. Það hefur verið mjög mikil ásókn í bændadeildinnia. Fólk vill búa í sveitum landsins og það vill starfa við landbúnað. Sem betur fer segi ég og það er virkilega ánægjulegt að svo sé.

Íslenskur landbúnaður á þannig fortíð en líka framtíð. Ragnhildur segir að Landbúnaðarsafnið hafi skýrt hlutverk í því að halda utan um söguarfinn, en líka varðveita verðmæti til framtíðar. Það sé og eigi að vera eðlilegur hluti þess lærdóms- og fræðaseturs sem Landbúnaðarháskólinn er.

Landbúnaðarsafnið sýnir sögu ýmiss konar tækniþróunar til matvælaframleiðslu í landbúnaði þjóðarinnar. Þar má ekki gleyma mjólkurvinnslunni. Varðandi hana má sjá bæði strokka, skilvindur og fleira.

Við erum ekki bara að kynna safnið heldur líka staðinn. Hér eru ýmsar menningarminjar og hluti af Hvanneyri er friðaður. Staðarheildin hér og búsetulandslagið í kring er einstakt á landsvísu. Safnið hefur verið að koma sér fyrir eftir að það var flutt í nýja aðstöðu hér í Halldórsfjósi á Hvanneyri fyrir um tveimur og hálfu ári síðan. Við höfum meira pláss hér í húsinu sem á eftir að taka í gegn og innrétta. Það eru tækifæri til ýmiss konar uppbyggingar. Svo er spurning hvort safnið þróist líka í fleiri áttir. Við eigum til dæmis mikinn fjársjóð í erfðalindum okkar. Þar er ég að tala um þessi sérstöku búfjárkyn hér á Íslandi. Þar höfum við skyldur um að varðveita þessi kyn samkvæmt samningi um líffræðilegan fjölbreytileika. Innan Landbúnaðarháskólans er starfrækt Erfðalindasetur sem hefur það hlutverk að varðveita ekki bara búfjárstofna heldur líka stofna plantna sem við höfum verið að nýta. Innan þessu eru stundaðar rannsóknir og haldið utan um hvar þetta allt er staðsett, á hvaða svæðum og þess háttar. Þessi starfsemi gæti tengst Landbúnaðarsafninu enda snertir hún hluta af sögunni.

 

Varnaðarorð erlendis frá

Ragnhildur útskýrir hlutverk sitt í Landbúnaðarsafninu þannig að það sé hennar að stýra vinnunni í samstarfi við aðra.

Þessi Farmall-vél er dæmigerð fyrir traktorana sem leystu af hendi vinnuafl í landbúnaðinum og vélavæðingin hófst á flug.

Ég hef stjórn safnsins á bak við mig og svo Bjarna Guðmundsson sem var áður forstöðumaður safnsins. Við höfum sameiginlega opnun með Ullarselinu. Við ráðum starfsmann í sameiningu sem er hér yfir sumarmánuðina og starfar þá bæði í Ullarselinu og við safnið. Síðan er mikill fjöldi hópum sem koma og ég tek á móti þeim flestum, veiti þeim leiðsögn og fylgi þeim hér í gegn. Það er vaxandi fjöldi bæði erlendra hópa sem koma hingað til Hvanneyrar og fá fyrirlestra hér um íslenskan landbúnað. Fólkið vill vita hvernig Íslendingar séu að framleiða sinn mat. Það gerir svo samanburð við sína heimahaga. Sérstaklega eru þetta Bandaríkjamenn sem eru að koma.

Hún segir að útlendingar sem komi til Hvanneyrar dáist að þeim forréttindum sem við höfum hér á Íslandi, til dæmis varðandi lyfja- og efnanotkun í landbúnaði.

Það er mikið til menntað fólk sem kemur í þessa fyrirlestra, fólk sem veit virkilega hvernig staðan er vestur í Bandaríkjunum. Þau segja við okkur: „Passið ykkur Íslendingar að lenda ekki í sömu aðstæðum og við í Bandaríkjunum. Passið ykkur, passið íslenskan landbúnað.“ Þar eru þau að tala um hreinleikann, lyfjanotkunina og efnanotkunina.

 

Víti að varast í lyfjanotkun

Greina má að Ragnhildur er ekki mjög hrifin af því að Íslendingar stundi innflutning á landbúnaðarvörum.

Lyfjanotkunin brennur sérstaklega á því erlenda fólki sem sækir okkur heim. Sýklalyfjanotkunin er upp úr öllu valdi í landbúnaði utan Íslands, nema þá í Noregi. Við erum á pari við Norðmenn og með allra lægstu lyfjanotkun sem þekkist í heiminum. Það er þessi staða sem við þurfum að hlúa að og verja. Þetta er ekki sjálfgefið en klárlega forskot sem við búum að í dag.

Hún segir að staðan í þessum málum sé mjög slæm í Bandaríkjunum.

Ein af gömlu dráttarvélunum á safninu og við hlið hennar plógur sem dreginn var af hesti.

Nautakjötframleiðslan þar byggir mikið á þauleldi þar sem gripirnir eru fóðraðir á korni í bland við smá gróffóður. Til að vambarstarfsemin gangi og skepnurnar þoli þetta fóður þá þarf að gefa þeim gríðarlegt magn af sýklalyfjum með fóðrinu. Þessi sýklalyf eru þannig ekki notuð til lækninga heldur í forvarnarskyni. Þetta er megin skýring þess að aukningin í sýklalyfjanotkun hefur verið svo mikil sem aftur birtist í ónæmi þegar nota á síðan sýklalyf hjá fólki. Það eru komnar fram bakteríur sem eru ónæmar gegn sýklalyfjum. Þegar fólk sýkist af svona bakteríum þá duga ekki sýklalyfin. Fá eða engin meðöl duga. Þetta er orðið verulegt vandamál. Sífellt fleiri deyja af þessum völdum. Ef fram fer sem horfir þá mun þetta bara aukast. Sýklalyfin virka ekki lengur þegar þau eru notuð til að berjast gegn sýkingum hjá fólki. Í svona tilfellum erum við komin hundrað ár aftur í tímann til þeirrar stöðu sem var áður en sýklalyfin voru fundin upp og sett á markað.  Þetta er hið grafalvarlega við þessa þróun og hin stöðuga sýklalyfjanotkun er kannski mesta vandamál landbúnaðarins í hinum vestræna heimi í dag. Þess vegna eigum við á Íslandi að passa okkur að fara ekki sömu leið og nágrannalöndin hafa gert í þessum efnum.

 

Vélarnar boðuðu byltingu

Landbúnaðarsafnið geymir fjölda gamalla dráttarvéla og ýmiss konar tækja sem voru notuð í tengslum við þær. Sjálf segir Ragnhildur að henni þyki mjög gaman að vinna landbúnaðarstörfin á dráttarvélum.

Appelsínugulur Allis Chalmers.

Ég hef unnið á þeim síðan ég var smákrakki og lærði ung að keyra traktor til að sinna þessari  hefðbundnu vélavinnu sem tilheyrir búrekstrinum á Ausu. Í starfi mínu hér við safnið samþættist grunnáhugi minn á vélunum sem slíkum svo við þennan sagnfræðilega þátt sem tengist þeim. Þar á ég við hvaða áhrif vélarnar höfðu á þróun landbúnaðar og möguleika okkar sem samfélags hér á Íslandi. Vélarnar gjörbreyttu öllum möguleikum til landnýtingar svo við gætum framleitt nægan mat. Fyrir miðja síðustu öld vorum við í þeirri stöðu að það var ekki framleitt nóg af matvælum hér.

Sem sérfræðingi í landnytjum þá þykir Ragnhildi samspilið milli vélasögunnar og landnýtingar mjög áhugavert. Inn í þetta blandast síðan samfélagsþróunin.

Fólk í sveitum fór að sækjast eftir öðrum lífs- og starfsháttum. Það sætti sig ekki við þann aðbúnað sem var áður. Seljabúskapur lagðist af og svo framvegis. Vinnufólki fækkaði. Jafnframt byggðist upp þéttbýli sem kallaði eftir meiri mat. Þannig urðu bændur að bregðast við. Það opnuðust möguleikar á nýrri tækni. Bændur fengu aðgang að fjármagni til að kaupa vélar til að framleiða meira fyrir þennan markað. Þarna verður samspil samfélagsþróunar, tækniþróunar og matvælaframleiðslu. Þetta tengist allt saman og við reynum að koma því á framfæri hér í safninu.

 

Sjálfum okkur nóg

Ragnhildur Helga Jónsdóttir segir að það eigi að vera grundvöllur allra samfélaga að þau séu sjálfum sér næg um matvæli.

Tól á borð við taðkvörn, ljáklöppu og hverfistein urðu svo gott sem úrelt þegar vélatæknin ruddi sér til rúms.

Við þurfum að framleiða nógan mat fyrir okkar þegna. Hvernig gerði tæknin okkur þetta kleift á síðustu öld? Við búum í harðbýlu landi. Tökum stóra hluta af Suður- og Vesturlandi sem dæmi. Þar voru mýrar sem voru í raun ónýtanlegt land þangað til við fengum skurðgröfur og ræstum fram. Þannig gátum við búið til tún og beitiland svo hægt yrði að halda úti stærri bústofni. Vissulega héldum við of lengi áfram að ræsa fram mýrlendi en við getum ekki dæmt fortíðina út frá því sem við vitum í dag. Það hefði verið betra ef menn hefðu stoppað fyrr því þetta fór líka yfir í offramleiðslu.

Og hér komum við að landnýtingu og umhverfismálum sem er sérsvið Ragnhildar.

Núna erum við byrjuð að fylla aftur í skurðina til að endurheimta votlendi. Mýrlendi eru mjög mikilvæg vistkerfi í náttúru landsins. Við eigum að láta land sem ekki er nýtt til matvælaframleiðslu komast nær upprunalegu horfi með endurheimt votlendis en þetta tekur tíma. Votlendið hefur mikið að segja varðandi loftlagsbreytingar og losun gróðurhúsalofttegunda. Mýrarnar binda mikið af lífrænum efnum. Þegar þær eru ræstar fram þá kemst súrefni að jarðveginum og niðurbrot hefst á lífrænum efnum. Það losar gróðurhúsalofttegundir. Blautt mýrlendi losar miklu minna. Síðan má ekki gleyma þýðingu votlendis fyrir fuglalíf, vistkerfi í vötnum, flóðasveiflur og annað.

 

Gætum notað landið markvissar

Er Ísland vannýtt til landbúnaðar?

Ragnhildur segir að íslenskur landbúnaður búi yfir miklum möguleikum til framtíðar.

Já, að mörgu leyti. Við gætum verið að nota það á markvissari hátt en þá vaknar líka spurningin um það til hvaða nytja landið sé vannýtt? Við gætum vissulega framleitt meira af mat í landinu. Ákveðin svæði landsins gætu hentað vel til dæmis til meiri kornræktar. Kannski ættum við að fara meira út í það. Slíkt væri liður í því að við yrðum sjálfum okkur næg varðandi fóður fyrir skepnurnar. Það myndi draga úr innflutningi á korni sem við vitum ekkert hvaðan kemur. Kornið er bara keypt á markaði í Rotterdam en að sjálfsögðu er það ekki ræktað þar. Í fæstum tilfellum er vitað hvaðan kornið kemur. Er þetta korn sem hefur verið ræktað á svæðum í Amazon þar sem skógi hefur verið eytt til að búa til akra með tilheyrandi efnanotkun og flutningum um langan veg? Það væri betra að við ræktuðum þetta nær okkur. Hér er minna af plágum sem þýðir minni efnanotkun í ræktuninni. Við spörum gjaldeyri og erum ekki eins viðkvæm fyrir sveiflum á erlendum mörkuðum. Það er allt sem mælir með því að við ættum að vera að framleiða meira af korni.

 

Illa nýtt auðlegð

Heilt yfir telur Ragnhildur að Íslendingar gætu nýtt auðlindir sínar betur til að framleiða meira af landbúnaðarafurðum til manneldis.

Til þess ættum við að nota þessa orku sem við höfum. Við búum mjög víða að jarðhita og við höfum allt þetta rafmagn. Við höfum alveg gríðarlega möguleika. Ísland er alveg ótrúlegt land. Við ættum líka að passa betur upp á gott ræktunarland, að sólunda því ekki undir byggingalönd heldur stýra þessu betur.

Aðjúnktinn í landnýtingar- og umhverfisfræðum bendir á að í dag sé verið að flytja inn gríðarlega mikið af matvælum.

Dráttarvél á safninu af Fordson-gerð.

Kjötinnflutningur hefur til dæmis aukist á undanförnum árum. Við vitum ekkert við hvaða aðbúnað gripirnir hafa búið við sem þær afurðir eru af. Við höfum enga tryggingu fyrir því. Við vitum ekki einu sinni hvar það var alið því nú snýr upplýsingaskyldan bara að því hvar dýrinu var slátrað og hvar 50 prósent varð af verðmætaaukningunni. Talandi um nautakjöt sem dæmi þá vitum við ekkert hvar nautið var alið sem við borðum síðan á fínu veitingastöðunum hér á landi. Neytendur þurfa að vera meira meðvitaðir um þetta. Auðvitað er eðlilegt að gerð sé sú krafa á íslenska bændur um að þeir hafi góðan aðbúnað og meðferð á sínum dýrum og að eftirlit sé gott með þessu. En það sama á líka að gilda um aðra framleiðendur á þeim mat sem við erum að neyta.

 

Velgengni í Ullarseli

Við erum enn stödd á sama stað og spjallið hófst á, það er í Ullarselinu, þessari fallegu og hlýlegu verslun í gamla fjósinu á Hvanneyri.

Síðasta spurningin, svona rétt fyrir forvitnis sakir, snýr að því hvernig það gangi?

Ragnhildur segir það hreinlega blómstra.

Heimsóknum fjölgar ár frá ári og það skilaði góðri afkomu á síðasta ári. Hingað kemur fjöldi fólks, bæði innlent og erlendis frá. Það er mikill áhugi á íslensku ullinni og afurðum úr henni.

Viðskiptavinir í Ullarselinu á Hvanneyri. Það er í gömlu Halldórsfjósbyggingunni eins og Landbúnaðarsafnið. Heimasíða þess er einfaldlega ull.is.

Texti og myndir: Magnús Þór Hafsteinsson, ritstjóri héraðsfréttablaðsins Vesturlands. Viðtalið birtist í síðasta tölublaði þess. 

Vesturland má lesa á netinu:

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Flestir kjósa til vinstri, líka hægrimenn

Sigmundur Ernir skrifar: Flestir kjósa til vinstri, líka hægrimenn
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Katrín græðir tæpast á tengslum við handlangara Bjarna Ben

Orðið á götunni: Katrín græðir tæpast á tengslum við handlangara Bjarna Ben
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Vilja gera Snæfellsjökul að forseta Íslands

Vilja gera Snæfellsjökul að forseta Íslands
Eyjan
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Ísland á heima í ESB

Thomas Möller skrifar: Ísland á heima í ESB
Eyjan
Fyrir 1 viku

Stálin mættust stinn í gær – „Niðurstaðan af hvoru tveggja er að borgin er stjórnlaus“

Stálin mættust stinn í gær – „Niðurstaðan af hvoru tveggja er að borgin er stjórnlaus“