fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Eyjan

Jón Baldvin: „Þetta er alltaf sama vitleysan“

Ari Brynjólfsson
Laugardaginn 15. apríl 2017 10:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Baldvin Hannibalsson. Mynd/Þormar Vignir Gunnarsson

Jón Baldvin Hannibalsson segir að Sósíalistaflokkur Gunnars Smára Egilssonar sé ekki frumlegur og stefnumál flokksins séu öll eitthvað sem jafnaðarmenn á Íslandi hafi komið á, barist fyrir eða eigi að berjast fyrir. Sósíalistaflokkurinn Íslands hefur fengið nokkuð mikinn meðbyr ef marka má netheima og fullyrðir Gunnar Smári Egilsson stofnandi að aldrei hafi fleiri skráð sig í einn stjórnmálaflokk á jafn skömmum tíma í Íslandssögunni.

Jón Baldvin var formaður Alþýðuflokksins undir lok síðustu aldar, segir hann í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon, að jafnaðarmenn þurfi afl hér á landi til að ná árangri en til þess þurfi þeir að snúa bökum saman. Segir hann sósíalista á fyrri hluta tuttugustu aldar vera ábyrgir fyrir því að hafa klofið vinstrihreyfinguna á Íslandi:

Það var einu sinni til flokkur sem hér Sósíalistaflokkur Íslands, stofnaður ´38, fjaraði út einhverntímann á áttunda áratugnum. Hann varð til af því að gáfnaljós á Íslandi á kreppuárum, margt mjög gott fólk, vel innrætt, vildi vel, hafði ekki trú á því að kratarnir dygðu til stórræðna og tóku trú á Sovétið. En, eins og oft hendir gáfað velviljað fólk, ef það missir tengslin við veruleikann, þá breyttu þeir þessari skoðun sinni í trúarbrögð sem leiddi til þess að þeir afneituðu staðreyndum, sjáandi sáu þeir ekki hvernig þróunin var í Sovétríkjunum. Þeir ollu miklum skaða í verkalýðshreyfingunni, klufu hana í tætlur út á trúarbrögð sín og þar með komu þeir íhaldinu til valda.

Ekki sérlega frumlegt

Gunnar Smári Egilsson.

Hann segir Sósíalistaflokk Íslands, sem verður stofnaður 1.maí næstkomandi, ekki vera frumlegan:

„Þetta hefur verið gert áður, ég hef mætur á Gunnari Smára, maðurinn er skarpur og gerir margt gott í blaðamennsku. Vel fókuseraður á aðalatriði, hann er talnaglöggur og kann að sjá samhengi. Þó menn séu að skamma hann fyrir að honum hafi eitthvað orðið á í lífinu, ég segi stundum við sjálfan mig, hefur nokkurn tímann orðið eitthvað úr kapítalistum sem hafa ekki einhvern tímann orðið gjaldþrota? En þetta er ekki sérlega frumlegt.“

Þegar farið er yfir fyrstu baráttumál Sósíalistaflokks Íslands, líkt og sjá má á heimasíðu flokksins segir Jón Baldvin þau öll eitthvað sem jafnaðarmenn hafi komið á, berjist fyrir eða eigi að berjast fyrir á Íslandi:

Róttækur sósíaldemókrataflokkur núna á að berjast fyrir því af fullum krafti að loka öllum þessum helvítis skattundanskotabúllum og taka á fjármálakerfinu. Það er það sem varð Samfylkingunni að falli, hún hrundi ekki bara af því að allir voru svo vondir við hana, hún brást.

„Og hverjir eru þessir Vinstri grænir?“

Á tíð Jóns Baldvins í Alþýðuflokknum klofnaði flokkurinn tvisvar, og hafði hann klofnað þrisvar fyrr á 20.öld, klofnaði flokkurinn í Bandalag jafnaðarmanna árið 1983 og í Þjóðvaka árið 1994, í bæði skiptin var Alþýðuflokkurinn ekki að . Þegar rætt er um hvort þetta sé rétti tíminn til að stofna nýjan vinstriflokk þegar Vinstri grænir mælist með rúm 25% í skoðanakönnunum sagði Jón Baldvin:

Þetta er alltaf sama vitleysan. Og hverjir eru þessir Vinstri grænir? Er þetta sprottið upp úr rót róttækra vinstrisinnaðra Framsóknarmanna í kringum hann Skallagrím vin minn. Þetta er landsbyggðarfólk, vel innrætt og gott fólk. En íhaldssamt því miður. Þetta fólk sem er á móti því að taka upp auðlindagjöld er algjörlega fordæmanlegt og Vinstri græn sitja uppi með þá hneisu. Þessu var ekki komið á á síðasta kjörtímabili því þeir telja sér trú um að þetta sé skattur á landsbyggðina,

segir Jón Baldvin, eigendur kvóta séu orðnir að forréttinda lénsaðli og svo valdamiklir að það væri pólitískt harakírí að bjóða sig fram í Vestmannaeyjum og í Norðausturkjördæmi með það markmið að hækka álögur á útgerðina.

Ef við horfum á samhengi sögunnar, kommúnistar, sósíaldemókratar og þessi þjóðfélagsmódel á seinustu öld, og spyrjum okkar einnar spurningar, hvaða módel, óbeislaður kapítalismi, Sovétkommúnismi eða siðvæðing og beislun á kapítalisma skilaði besta samfélaginu. Niðurstaðan er einföld, það þarf ekkert að rífast um það, að norræna módelið ber af. Það er eina módelið sem hefur staðist dóm reynslunnar. Hananú. Af hverju geta menn ekki lært af þessu?

Mannkynsfrelsarar koma í veg fyrir samstöðu gegn íhaldinu

Í grunninn hafi norræna módelið sem Jón Baldvin talar um, byggst upp af flokkum með sterka tengingu við verkalýðshreyfinguna og komið í veg fyrir að fjármálaöflin hafi völdin:

Þeir sem að splundra því afli sem þarf til að gera þetta eru ekki á réttri leið.

Hann vill þó ekki slá því föstu að Sósíalistaflokkur Íslands splundri því afli. Nú sé landið í pólitískri eyðimörk, sjö flokkar á þingi og það stefni í annan tug framboða fyrir næstu þingkosningar. Jón Baldvin sér hins vegar jafnaðarmannastefnuna víða í þessum flokkum, til dæmis sé Inga Sæland í Flokki fólksins að tala fyrir jafnaðarstefnu.

Munið þið eftir Reykjavíkurlistanum? Íhaldið var búið að vera við völd í Reykjavík frá því að Ingólfur Arnarson steig á land, í þúsund ár eða svo. Alltaf voru einhverjir mannkynsfrelsarar, Albaníu-Valdar og aðrir slíkir, sem komu í veg fyrir það að þeir sem gættu almannahagsmuna stæðu saman upp gegn sérhagsmunaveldinu. Það tókst ekki fyrr en með Reykjavíkurlistanum.

Þá hafi flokkar grafið stríðsaxirnar og sameinast um aðalatriðin, það þurfi afl til umbóta og það fæst ekki nema með því að snúa bökum saman.

Flokkar þurfa grasrót

Að mati Jóns Baldvins þá sé nauðsynlegt fyrir stjórnmálaflokk að hafa grasrót, það dugi ekki til að hafa bara sterkan leiðtoga. Jafnvel í rústum Samfylkingarinnar sé grasrót, fólk með vilja og reynslu sem hægt sé að treysta líka í mótlæti, fyrir utan styrk í sveitarstjórnum. Vill Jón Baldvin fá að vita hvar fólkið í kringum Gunnar Smára sé.

Að lokum, varðandi nafnið á flokknum, Sósíalistaflokkur Íslands, segir Jón Baldvin:

Það er sjálfsmark. Ég bað hann í guðanna bænum, hættu þessu. Hann [Gunnar Smári] er bara of einþykkur, hann á að hlusta á gamla reynda menn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus