Eyjan

Smári: Mútugreiðslur Och-Ziff valda áhyggjum

Ari Brynjólfsson skrifar
Mánudaginn 20. mars 2017 13:17
Smári McCarthy þingmaður Pírata.

Smári McCarthy þingmaður Pírata segir að mútugreiðslur sem Och-Ziff Capital Management hafi viðurkennt að hafa stundað í Afríku valdi áhyggjum þar sem mikilvægur hluti af íslenska hagkerfinu sé nú í eigu fyrirtækis sem hefur átt beinan þátt í spillingarmálum. Líkt og greint hefur verið frá keyptu þrír alþjóðlegir fjárfestingasjóðir ásamt Goldman Sachs tæplega 30 prósenta hlut í Arion banka af Kaupþingi fyrir samtals ríflega 48,8 milljarða króna, þar af  keypti Och-Ziff 6,6% hlut í Arion banka.

Smári segir að vandamálið við söluna á Arion banka ekki felast ekki í sölunni sjálfri þar sem um séu að ræða einkaaðila sem sé að selja einkaaðilum:

Vandinn er að einkaaðilarnir eru ógagnsæir sjóðir með miklar eignarhaldskeðjur. Ég hef verið að skoða eignarhaldið svolítið, og hef rakið hluta eignakeðjunnar til baka, en það er ómögulegt að vita hvort það séu einhverjir sem eru að fjárfesta í gegnum þessa sjóði með ógagnsæjum hætti,

segir Smári. Þar sem bankar og fjármálastofnanir séu kerfislega mikilvægir fyrir hagkerfi Íslands þá þurfi eignarhaldið að „liggja fyrir með algjörlega ótvíræðum hætti“. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður Framsóknarflokksins benti á í gærkvöldi að Och-Ziff hefði borgað 213 milljón dollara sekt til bandaríska ríkisins eftir að sjóðurinnar varð uppvís að hafa greitt mútur til opinberra starfsmanna í Lýbíu og Kongó, Smári segir þetta áhyggjuefni:

Það að Och-Ziff hafi verið fundið sekt áður fyrir mútugreiðslur veldur klárlega áhyggjum ─ mikilvægur hluti okkar hagkerfis er núna í eigu fyrirtækis sem hefur átt beinan þátt í spillingarmálum. Ekki hjálpar heldur að fyrrum sérstakur ráðgjafi núverandi forsætisráðherra um málefni kröfuhafa bankanna hafi verið ráðgjafi við söluna, þótt það út af fyrir sig sé ekki tilefni til ásakana af neinu tagi umfram eðlilegar kvartanir um snúningshurðir. Þetta eru atriði sem skipta máli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af