fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Segir frumvarpið geta leitt til lokunar 45 mjólkurbúa: „Froðu- og frasastjórnmál“

Ari Brynjólfsson
Mánudaginn 20. mars 2017 19:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arnar Árnason formaður Landssambands kúabænda og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Samsett mynd/Sigtryggur Ari

Arnar Árnason formaður Landssambands kúabænda segir markmið frumvarps Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um endurskoðun á samkeppnisumhverfi landbúnaðarins séu nú þegar í lögum. Vísar hann til viðtals við Þorgerði Katrínu í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi þar sem hún viðurkenndi að aukin samkeppni geti bæði hækkað og lækkað afurðaverð. Arnar tekur undir þau orð en bætir við:

En lítum nú aðeins á það hvaða vörur það eru sem sannarlega og óumdeilanlega eru seldar undir framleiðslukostnaði og þurfa því að hækka nokkuð í verði ef verðtilfærsla verður bönnuð. Þessar vörur eru nýmjólk, smjör og mjólkurduft,

segir Arnar:

Neytendur myndu sjá hækkunina á nýmjólkinni og smjörinu með beinum hætti þegar þessar vörur eru verslaðar útí búð. Hafa skal í huga að yfirleitt hefur verið litið á mjólk og smjör sem svokallaðar grunnvörur og er það ástæðan fyrir því hvers vegna verðinu á þeim hefur hingað til verið haldið lágu. Er þessi breyting virkilega neytendum til hagsbóta? Hækkunin á duftinu gæti orðið afar mikil eða um 40-57% verðhækkun. Sú hækkun myndi endurspeglast í hærra verði á innlendum ís, súkkulaði o.fl. matvörum sem framleiddar eru úr dufti. Aftur spyr ég, er það neytendum til hagsbóta?

Landssamband kúabænda leggst gegn því að frumvarpið verði samþykkt og leggur þunga áherslu á að málið verði unnið innan samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga.

Ef dæmið sé hugsað tvö skref  fram í tímann þá hlyti slík verðhækkun að leiða til meiri þrýstings á aukinn innflutning á dufti til innlendrar matvælaframleiðslu sem hefði bein áhrif á bændur og byggðalög landsins:

„Gleymum því ekki að neytendur búa alls staðar á landinu, ekki bara á einu svæði. Hér á ég við að ef við tökum t.d. árið 2016 þá var framleitt mjólkurduft úr um 11 milljón lítrum af mjólk. Það er meiri mjólk en framleidd er í báðum Húnavatnssýslunum til samans eða rúmlega það sem framleitt er á öllum Austfjörðum, allt frá Möðrudalsöræfum og suður að Skeiðarársandi. Ef sala á innlendu mjólkurdufti hyrfi þá hyrfu með því um 45 kúabú.“

Í tlikynningu á vef ráðuneytisins sem birtist 6. mars síðastliðinn segir að ef frumvarpið verði að lögum muni allir aðilar í mjólkuriðnaði geta keypt mjólk með sama tilkostnaði og markaðsráðandi afurðastöð. Þar segir einnig að framleiðsluhluti markaðsráðandi afurðastöðvar skuli vera fjárhagslega og stjórnunarlega aðskilin frá annarri starfsemi afurðastöðvarinnar. Þar segir ennfremur að aftirlit með markaðsráðandi afurðastöð samkvæmt búvörulögum verði í höndum Samkeppniseftirlitsins. Arnar segir þetta allt nú þegar í lögum og ekkert nýtt sé á ferðinni. Fjölbreytt vöruúrval og lægra verð séu vissulega vænleg markmið og síst minna hagsmunamál bænda en neytenda:

 Það þarf hins vegar annað en fögur orð og fyrirheit til að ná slíkum markmiðum. Ráðherra segir sjálf að mjólkuriðnaðurinn standi sterkt en í stað þess að vinna með því kerfi sem hefur virkað afar vel og skilað þeim árangri sem við sjáum í dag, virðist hún kjósa að gjörbylta því í einu vetfangi án þess að svo liggi mikið fyrir sem örlítil greiningarvinna á raunverulegum afleiðingum þess fyrir neytendur og bændur. Það er eðlilegt að endurskoða samkeppnisumhverfi landbúnaðarins og ekkert við það að athuga í sjálfu sér. Hins vegar þarf það að vera gert í góðu tímarúmi, með faglegum og viðamiklum undirbúningi og af réttum ástæðum. Froðu- og frasastjórnmál eru ekki vænleg til árangurs!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt