fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

Hjálpaði Íslendingum í Noregi í neyð

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 19. mars 2017 09:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Séra Arna Grétarsdóttir var prestur íslenska safnaðarins í Noregi frá 2007 til 2106. Þar upplifði hún afleiðingar efnahagshrunsins á Íslandi fyrir Íslendinga sem bjuggu í Noregi. Svo kom flóðbylgjan af fólki sem hafði hrakist frá eigin fósturjörð, margt þeirra allslaust, án atvinnu og húsnæðis. Hér lýsir hún meðal annars þeirri reynslu.

Séra Arna Grétarsdóttir tók við sem nýr sóknarprestur á Reynivöllum í Kjós þann 1. júlí í fyrra. Fyrr hafði séra Gunnar Kristjánsson setið staðinn í hartnær 38 ár. Áður en Arna hóf störf sem nýr prestur á Reynivöllum hafði hún starfað í ein níu ár sem prestur íslenska safnaðarins í Noregi. Það var mikil reynsla. Aðeins um ári eftir að hún hélt til Noregs ásamt fjölskyldu sinni árið 2007 dundi efnahagshrunið mikla yfir haustið 2008. Sem prestur Íslendinga í Noregi varð Arna að takast á við verkefni sem vart eiga sér fordæmi í sögunni. Til Noregs streymdu þúsundir Íslendinga í kjölfar hrunsins. Margt af því fólki kom allslaust frá Íslandi. Það hafði hvorki vinnu né húsaskjól og átti varla fyrir mat og öðrum nauðsynjum.

 

Stelpa úr Breiðholtinu

Allt það sem á gekk meðal Íslendinganna í Noregi fyrir tæpum áratug síðan kann að virka frekar fjarlægt þar sem við sitjum eitt síðdegi í mars 2017 í stofunni að prestsetrinu á Reynivöllum í Kjós. Arna er með ársgamla dótturdóttur sína í pössun. Sú er reyndar fædd í Noregi. En við erum stödd í íslensku umhverfi, í íslenskum veruleika.  Þjóðin hefur smám saman náð að jafna sig eftir hrunið þó enn séu mörg sár sem enn eiga eftir að gróa. Kannski verður tjónið aldrei bætt til fulls. Margir Íslendingar fluttu af landi brott. Sumt af því fólki mun aldrei flytja heim til Íslands á ný en aðrir hafa á síðustu misserum verið að snúa aftur. Arna og fjölskylda hennar eru þeim hópi. Eins og kom fram í inngangi þá fluttu þau reyndar út áður en hrunið skall á. Við ætlum að ræða aðeins um það hér í þessu viðtali en spyrjum fyrst hinn nýja prest á Reynivöllum hvaðan hún eigi uppruna sinn?

Ég er nú bara alin upp í Breiðholtinu. Malbiksstelpa,

segir Arnar og hlær. Það kemur þó strax á daginn að eins og margir höfuðborgarbúar á hún ættir að rekja til landsbyggðarinnar.

Faðir minn Grétar Skarphéðinsson er Vestfirðingur, nánar tiltekið frá Krossnesi í Árneshreppi á Ströndum.  Móðir mín Ruth Árnadóttir er úr Landssveitinni. Pabbi flutti ungur suður til Reykjavíkur. Þar kynntist hann mömmu og þau hófu sinn búskap.

 

Fékk hvatningu á Hrafnistu

Arna segist hafa alist upp á ofur venjulegu og veraldlegu kristnu heimili, svona eins og flestir Íslendingar. Breiðholtið var á þeim tíma að byggjast upp.

Það var engin kirkja komin í Breiðholtinu en Hjálpræðisherinn var þarna á laugardögum og við krakkarnir fórum oft á samkomur til þeirra. Ég held ég hafi verið trúuð á unglingsárunum. Til dæmis man ég þegar ég var að velja fermingarversið mitt að þá fannst mér ómögulegt að láta einhvern velja það fyrir mig eða taka það af einhverju blaði. Ég las mér til í Biblíunni í leit að versi fyrir mig.

Að loknu stúdentprófi vann Arna í eitt ár á elli- og hjúkrunarheimilinu Hrafnistu í Reykjavík.

Séra Árni Bergur Sigurbjörnsson (1941–2005).

Þar hitti ég séra Árna Berg Sigurbjörnsson heitinn. Hann var prestur í Áskirkju og kom alltaf einu sinni í viku og hélt helgistundir á Hrafnistu sem var hluti af hans prestakalli.  Það voru forréttindi fyrir mig sem var aðeins tvítug að fá svona aðgang að prestinum sem kom alltaf og drakk kaffi með okkur sem störfuðum þarna. Ég vissi ekki alveg hvaða nám ég ætti að fara í eftir stúdentinn og hann spurði mig af hverju ég færi ekki bara í guðfræðinám? Ég ákvað að prófa að taka nokkur fög og svo leiddi eitt af öðru.

 

Flutningur til Noregs

Arna segist hafa verið lengi með guðfræðinámið því hún vissi aldrei almennilega hvað hún ætlaði að gera að því loknu.

Ég vann töluvert með náminu. Ég spilaði á gítar og hafði lært á fiðlu fram á unglingsár. Það vantaði oft gítarista í kirkjurnar og ég tók það að mér. Þegar ég átti lokaritgerðina eftir var ég orðin æskulýðsfulltrúi við kirkjuna á Seltjarnarnesi og þá kom hugur í mig að drífa þetta af. Þá fékk ég vissu fyrir því að ég ætlaði að verða prestur. Síðan vígðist ég til Seltjarnarneskirkju. Séra Sigurður Grétar Helgason var sóknarprestur þar og ég starfaði með honum. Í það heila starfaði ég í níu ár við Seltjarnarneskirkju,

segir Arna.

Árið 2007 fluttum við fjölskyldan svo til Noregs.

Þarna var sem sagt komið að tímamótum. Arna hafði sótt um og fengið stöðu sem prestur íslenska safnaðarins í Noregi.

Arna og fjölskylda hennar höfðu ekki búið áður í Noregi.

Þá fórum við út fjögurra manna fjölskyldan. Þetta var þó reyndar ekki alveg út í óvissuna. Systir mín var búin að búa í Noregi í rúm 20 ár þegar þetta var og ég naut þess að hafa tengslin við hana. Norska samfélagið þótti mér svipað og það íslenska. Það var aðallega tungumálið sem mér fannst öðruvísi. Ég var reyndar lengur að ná norskunni heldur en flestir, aðallega vegna þess að ég notaði ekki norskuna sem tungumál í vinnunni heldur talaði ég íslenskuna þar sem ég var að sinna Íslendingunum í Noregi. En ég þurfti líka að reyna að tala norsku í daglega lífinu og í samskiptum við norsku kirkjuna þannig að maður lét bara vaða á sinni skandinavísku og þá fór þetta að koma.

 

Hrunið skellur á

Örnu þótti spennandi að koma út til Noregs og sinna því sem var. Rúmu ári eftir að hún flutti út ásamt fjölskyldu sinni breyttist hins vegar allt og það gerðist mjög skyndilega.

Þessi fjármálakreppa skall á haustið 2008.

Þarna reyndi virkilega á hlutverk prestsins því þegar í nauðirnar rak þá leitaði fólk mikið til kirkjunnar.

Eftir á að hyggja þá var þetta svakalegt,

rifjar Arna upp alvarleg í bragði.

Það fyrsta sem gerðist eftir að fjármálahrunið varð heima á Íslandi var að íslenska námsfólkið í Noregi komst nánast á vonarvöl. Það var búið að loka öllum leiðum þeirra að fjármunum heiman frá. Gjaldeyrisflæðið var stöðvað og íslenska krónan ekki lengur á skrá sem gjaldmiðill hjá bönkum. Öryrkjar og aðrir sem fengu fé sent frá Íslandi voru sömuleiðis í miklum vandræðum. Fólk átti ekki fyrir mat og öðrum nauðsynjum. Við buðum námsmönnum í mat heima hjá okkur því þau höfðu ekkert að borða.

 

Samtakamáttur Íslendinga

Strax voru haldnir neyðarfundir í íslenska sendráðinu í Ósló.

Götumynd frá Tromsö í Norður-Noregi.

Sendiráðið, stúdentafélögin, Íslendingafélögin og íslenski söfnuðurinn í Noregi tóku ásamt öðrum höndum saman um að reyna að aðstoða fólk. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir sendiherra var afar dugleg að fá alla með sér í að halda upplýsingafundi. Það veitti ekki af slíku. Bæði ríkti mikil óvissa og svo var mikið af röngum upplýsingum sem búið var að dreifa meðal fólks. Samtakamáttur Íslendinganna bjargaði miklu. Fólk stóð saman. Síðan var stofnaður neyðarsjóður á vegum íslenska safnaðarins. Hann er enn við lýði og kallast Ólafíusjóðurinn. Í hann renna meðal annars vaxtatekjur af fjármunum sem söfnuðurinn á.

Arna segir að allir Íslendingar sem á annað borð voru háðir tekjum frá Íslandi hafi fundið illa fyrir kreppunni. Sjálf var hún ekki undanskilin. Hún var íslenskur prestur launuð af Þjóðkirkjunni en búsett í Noregi, fékk sín laun greidd í íslenskum krónum sem síðan varð að skipta í norskar. Þegar gengi íslensku krónunnar hrundi þá lækkuðu laun hennar um helming.

Um tíma var það svo að ég hefði haft meiri laun í norskum krónum starfandi ófaglærð á leikskóla í Ósló heldur en sem prestur. En maður lét sig hafa þetta og þraukaði.

 

Allslaust fólk á vergangi

Einhvern veginn tókst að leysa úr málum þannig að fólk bjargaðist fyrir horn. Þessir erfiðleikar voru hins vegar aðeins byrjunin.

Síðan leið smá tími þar til bylgjan kom af fullum krafti með öllu fólkinu sem flutti frá Íslandi til Noregs. Þau sem komu út og höfðu vinnu og þekktu eitthvað fólk í Noregi, spjöruðu sig vel. Við heyrðum lítið af því fólki. En svo voru hin sem fóru kannski út í einhvers konar örvæntingarástandi án þess að hafa hugsað allt dæmið nægilega vel. Sum þeirra voru hvorki búin að útvega sér atvinnu né húsnæði áður en þau héldu til Noregs. Þetta fólk leitaði eftir hjálp og ráðum hjá söfnuðinum, sendiráðinu og öðrum Íslendingum. Það fór mikill tími í að upplýsa hvernig norska kerfið virkaði. Fólk fór ekkert sjálfkrafa inn á einhverjar bætur þar um leið og það lenti í Noregi. Eins og allt í Noregi þá tóku hlutirnir sinn tíma.

Arna dregur enga dul á að álagið var mikið.

Séra Arna prédikar í Reynivallakirkju í Kjós við guðsþjónustu 5. mars síðastliðinn. Þar er hún sóknarprestur í dag.

Við vorum að versla í matinn fyrir fólk og reyna að hjálpa því á alla vegu. Ég man að við fjölskyldan höfðum keypt okkur ævagamalt hjólhýsi sem við ætluðum að nota í fríum. Við lánuðum það út svo Íslendingar gætu búið í því. Ég átti líka sæng og sængurver í poka sem ég átti til reiðu ef gesti bæri að garði og ég man ég lét það frá mér. Ég heimsótti eitt sinn íslenska fjölskyldu sem bjó á tjaldsvæði. Þetta var ekkert einsdæmi. Sumt fólk var hreinlega allslaust á götunni. Þetta hjálparstarf gilti ekki bara um okkur sem unnum á vegum kirkjunnar. Það voru fleiri Íslendingar í Noregi sem reyndu að tína allt til svo hjálpa mætti löndum sem höfðu hrakist að heiman frá Íslandi og voru nú komin til okkar. Vissulega var þetta allt tímabundið en meðan á þessu stóð þá var þetta mjög erfitt fyrir fjölskyldurnar og fólkið sem var í þessum aðstæðum.

 

Fólkið undir miklu álagi

Vandamálin voru bæði fjölbreytt og flókin. Prestur íslenska safnaðarins í Noregi sá fljótt að hún yrði að koma á fót teymi af fólki með sérfræðiþekkingu sem hún gæti vísað skjólstæðingum sínum til.

Sem prestur hafði ég að sjálfsögðu ekki þekkingu á öllu sem varð að glíma við til hjálpa fólki. Ég fann því norskan lögfræðing sem talaði íslensku. Stundum voru vandamálin þannig að meðferðarúrræði þurfti til. Það var mikil vanlíðan meðal fólks. Ég fékk því einnig sálfræðing og geðlækni til liðs við okkur.

Arna lýsir því svo að fyrstu viðbrögðin hjá fólki í svona kreppu sé að útvega sér helstu lífsnauðsynjar.

Íslendingar sem fluttu til Noregs fóru meðal annars í ýmiss konar umönnunarstörf þar í landi.

Eftirköstin koma svo síðar. Þá vaknar fólk kannski upp við þann raunveruleika að það hefur flust á brott fá heimalandi sínu og það tekur miklu lengri tíma en ætlað var að finna vinnu. Það var nú ein af vitleysunum sem gekk meðal fólks, að það gæti bara farið til Noregs og fengið vinnu um leið. Hið sama gilti um húsnæðismálin. Kannski leystist úr þessu og fólk komst á vinnumarkaðinn og fékk þak yfir höfuðið. Þá kom kannski áfallið yfir því að vera í þessum aðstæðum. Það gat líka verið erfitt að koma börnunum í skóla. Þau voru líka undir álagi í nýju og framandi umhverfi þar sem þau þurftu að takast á við að læra norsku og eignast nýja vini. Síðan gerðist það að fólkið sem var komið til Noregs varð fyrir frekari áföllum og streitu vegna tíðinda heiman frá Íslandi þar sem það var kannski að missa húsin sín og þar fram eftir götunum.

 

Öllum var sinnt

Hún bætir því við að það reyni til hins ítrasta á fjölskyldur að flytja svona milli landa, að ekki sé talað um í svona aðstæðum.

Ég var til dæmis með mikið af hjónaviðtölum. Margt fólk gat ekki þegið þá hjálp sem kannski var í boði í Noregi vegna tungumálaerfiðleika. Þetta er sérlega erfitt þegar um tilfinningar er að ræða. Að geta tjáð sig um eigin tilfinningar á erlendu máli er eitt það síðasta sem fólk nær tökum á þegar það er að læra málið. Sumir læra það jafnvel aldrei.

Aðspurð segir Arna að engir sem leitað hafi hjálpar hafi komið að lokuðum dyrum hjá íslenska söfnuðinum í Noregi.

Við sinntum öllum sem leituðu til okkar. Ég fékk stundum fólk í viðtöl sem þurfti hjálp en tók fram að það væri ekki kristið. Það skipti engu máli. Það var sjálfsagt mál að hjálpa,

segir Arna. Hún þagnar smá stund og verður íhugul meðan hún hugsar til baka.

Eftir á að hyggja þá var þetta afar lærdómsríkur og áhugaverður tími. Ég kynntist mörgu góðu fólki.

 

Raunirnar styrktu söfnuðinn

Álagið á söfnuðinn minnkaði smám saman, sérstaklega hvað varðaði það að útvega húsnæði og upplýsa fólk um hvaða réttindi það hefði. Eftir því sem fleiri komu til Noregs og fólk fór að komast inn í samfélagið þá hjálpaðist það líka að.

Söfnuðurinn stækkaði mikið á þessum tíma. Arna segir að um tvö þúsund manns hafi verið í íslenska söfunuðinum þegar hún kom 2007.

Fjöldinn var kominn upp í átta þúsund þegar ég fór heim í fyrra. Íslendingar í Noregi eru þó mun fleiri því ekki eru öll skráð í Þjóðkirkjuna. Í heildina búa nú á bilinu 11 og 12 þúsund Íslendingar í Noregi.

Fjölgunin í íslenska söfnuðinum þýddi auknar tekur frá norska ríkinu. Þeim fylgja ákveðnar reglur um þjónustuskyldu sem eykst í takt við stærð safnaðarins.

Við messu í Reynivallakirkju nú í mars. Karl M. Kristjánsson á Eystri-Fossá í Hvalfirði les ritningaorð.

Starfið jókst mjög víða um Noreg. Ég var mikið á ferðinni um landið allt frá norðri til suðurs. Það voru sunnudagaskólar, unglingastarf og messur svo eitthvað sé nefnt. Þar af leiddi að starfsfólki safnaðarins var fjölgað. Fyrst var bætt við fræðslufulltrúa sem síðar breyttist í hálfa stöðu fræðslufulltrúa og hálfa stöðu prests. Nú er einn prestur í fullu starfi, annar í hálfu, fræðslufulltrúi í hálfu starfi og síðan ritari og bókari í fullu starfi. Til viðbótar eru svo íslenskir sunnudagaskólaleiðtogar á einum 12–13 stöðum vítt og breitt um landið.  Sú starfsemi er mikilvæg því hún gefur oft íslensku börnunum færi á að hitta önnur íslensk börn sem eru búsett í Noregi.

 

Heim komin til Íslands

Fyrir um ári síðan þótti Örnu og fjölskyldu hennar komið nóg.

Mér fannst ég einhvern veginn vera búin í Noregi. Ég hafði sótt um stöðu sóknarprests í Noregi á sínum tíma vegna þess að mér þótti þetta spennandi. Eftir efnahagshrunið á Íslandi þá fann ég sterkt að ég hefði bæði tilgang og hlutverk með því að starfa í Noregi. Svo kom að því að mér fannst ég hafa byggt upp og gert það sem ég gæti þar. Þá kom upp heimþráin og ég viðurkenni líka að ég var í einlægni orðin svolítið þreytt. Álagið var búið að vera mikið.

Arna sótti um þegar Reynivallaprestakall var auglýst.

Kirkjugestir ganga úr Reynivallakirkju fyrr í þessum mánuði.

Tilhugsunin að starfa hér var að mörgu leyti bæði heillandi og spennandi. Það hafði verið umræða um að leggja prestakallið af við þau tímamót þegar séra Gunnar hætti og sameina það Lágafellssókn í Mosfellsbæ. Fólkið sem býr hér barðist gegn þessum áformum og vildi að hér yrði áfram staða prests sem sæti Reynivelli. Sjálf er ég baráttukona að upplagi og mér þótti þetta heillandi. Ég var alveg til í að taka þátt í þeirri baráttu.

Arna bætir því líka við að sóknin sé ekki of langt frá Reykjavíkursvæðinu. Auk prestsþjónustu í Kjós og á Kjalarnesi sinni hún nú hlutastarfi á Biskupsstofu.

Við höfum fengið mjög góðar móttökur. Hér býr dásamlegt fólk, bæði í Kjósinni og á Kjalarnesi,

segir séra Arna Grétarsdóttir að lokum.

 

Viðtal og ljósmyndir á Reynivöllum: Magnús Þór Hafsteinsson.

Viðtal þetta birtist í Vesturlandi. Smellið á forsíðuna hér fyrir neðan til að lesa blaðið í heild á netinu: 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega