fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Skellum okkur í Sundabraut

Ritstjórn Eyjunnar
Laugardaginn 18. mars 2017 07:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mynd/Getty

Ákvörðun meirihluta Alþingis að standa ekki við nýsamþykkta samgönguáætlun er óskiljanleg og arfavitlaus. Oft er rætt um að traust á stjórnmálamönnum sé í lágmarki. Í nýjustu könnun Gallup nú í febrúar mældist traust til Alþingis aðeins 22 prósent. Aðeins borgarstjórn Reykjavíkur, Fjármálaeftirlitið og bankar mælast lægri. Það er auðvitað galin staða að löggjafarstofnun sem starfar samkvæmt lýðræðislegu umboði þjóðarinnar skuli einungis treyst af rétt fimmta hverjum Íslendingi. En hún verður skiljanleg einmitt í ljósi þessa. Þingmenn segja eitt rétt fyrir kosningar og svíkja það svo jafnharðan um leið og búið er að kjósa. Hvernig á að vera hægt að byggja upp traust þegar fólk hegðar sér með þessum hætti?

Undanfarið hefur nokkuð verið rætt um að nú sé nauðsynlegt að tvölfalda Hvalfjarðargöngin. Það verður trauðla gert nema með því að þar verði áfram haldið að innheimta veggjöld. Þessi umræða er illskiljanleg. Göngin eru mjög örugg. Ef ekki væru þar gjaldhlið sem tefja umferð á mestu álagstímum væru sjaldan eða aldrei biðraðir. Á næsta ári eiga göngin að verða gjaldfrí og ríkið að taka við þeim. Það er mjög brýnt að staðið verði við þetta. Hér er um að ræða fyrirheit sem voru gefin þegar farið var í gerð ganganna. Í þessu tölublaði Vesturlands er áhugavert viðtal við Jón Gunnarsson samgönguráðherra. Hann viðrar hugmyndir um að farið verði í vegaframkvæmdir sem fjármagnaðar yrðu með veggjöldum. Eigi að fólk til að fallast á slíkt þá verður að liggja skýrt fordæmi fyrir því að innheimtu slíkra vegatolla við ákveðin mannvirki ljúki í fyllingu tímans. Að ekki sé komin á enn ein skattlagningin sem síðan verði ómögulegt að losna við. Það verður að standa við efndir til að byggja upp trúverðugleika.

Vilji menn fara í ný verkefni með vegatollum þá á lagning Sundabrautar hiklaust að verða næst. Með henni má bæði spara tíma, fjármuni vegna aksturs, minnka mengun og stórauka öryggi, ekki síst með tilliti til þess að fyrir hendi sé skilvirk samgönguleið út frá höfuðborgarsvæðinu til kæmi til hættuástands. Hér næðist samstaða. Þetta gæti orðið verðugt verkefni að halda utan um fyrir það ágæta félag Spöl eftir að gangahlutverki þess á að ljúka á næsta ári. Samhliða þessu ætti ríkið svo að tvöfalda Vesturlandsveg milli Kollafjarðar og Hvalfjarðar. Þegar þetta er búið má skoða það að tvöfalda göngin. Ekki fyrr.

Magnús Þór Hafsteinsson

Birtist fyrst í Vesturland. Smelltu hér til að lesa blaðið í heild sinni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt