fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

Jafnaðarmenn: Fórnarlömb eigin árangurs?

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Laugardaginn 18. mars 2017 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Baldvin Hannibalsson.

Jón Baldvin Hannibalsson skrifar:

Norræna módelið er eina þjóðfélagsmódelið, sem mótað var á öldinni sem leið, sem staðist hefur dóm reynslunnar á tímum hnattvæddrar samkeppni á 21stu öldinni. Kommúnisminn er huslaður á öskuhaugum sögunnar. Óbeislaður kapítalismi skv. forskrift nýfrjálshyggjunnar hrekst úr einni kreppunni í aðra – en tórir enn í gjörgæslu ríkisins.

Hvernig má þá vera í ljósi þessa árangurs, að jafnaðarmannaflokkarnir í Evrópu – m.a.s. líka á Norðurlöndum – eiga víðast hvar í vök að verjast? Er það vegna þess að velmegun velferðarríkisins „dregur eðlilega úr löngun okkar til að hugsa til breytinga á samfélaginu“, eins og Þröstur Ólafsson orðaði það í erindi í tilefni af aldarafmæli Alþýðuflokksins. Þröstur sagði það skýra, að „pólitísk tómhyggja“ réði ríkjum. „Við erum… hætt að trúa því, að til sé hagskipan, sem virki betur en kapítalismi, bragðbættur með nýfrjálshyggju“.

Þarna er ég ósammála Þresti. Norræna módelið er svar jafnaðarmanna við nýfrjálshyggjunni – og það svínvirkar. Hitt er nær lagi, að við séum fórnarlömb eigin árangurs í þeim skilningi, að ef stéttaríkið sem slíkt tilheyrir nú liðinni tíð, ekki síst fyrir okkar atbeina, „hvaða meining er þá í því að berjast fyrir samfélagi án stéttamismunar?“, eins Þröstur spyr.  Svo er vofa kommúnismans ekki lengur ofar moldu til að brýna okkur kratana til dáða. Má ekki í vissum skilningi segja, að við höfum þar með „misst glæpinn“?

En ætli Þröstur hafi ekki hitt naglann á höfuðið, þegar hann talaði um mannréttindahreyfinguna í hundrað ár, sem hefur nú týnt draumnumútópíunni – hugsjóninni um framtíðarlandið, sem á að leysa af hólmi óbreytt ástand og hvetja fólk til baráttu fyrir bættum heimi – breyttu þjóðfélagi? Þetta er nú einu sinni hreyfing, sem eitt sinn „ hafði framtíðina að léni og mótaði samtíma sinn í spegilmynd hennar“, eins og Þröstur lýsti því með svo skáldlegum tilþrifum.

Erindisbréfið

Höfum við virkilega týnt erindisbréfinu? Þöstur segir: „Hér verður „misskipting, hvort heldur sem er tækifæra, auðs eða tekna, sífellt augljósari, alþjóðlega sem og hérlendis. Hér eflast eignastéttir og láta æ meira til sín taka, meðan fátækt er aftur orðin smánarblettur á Íslandi. Með aukinni misskiptingu rýrnar einnig lýðræðið. Enginn jafnaðarmannaflokkur hefur komið með marktækt andsvar við þessu. Því skrikar þeim fótum. Tiltrúin sveipast þoku“.

Fórnarlömb eigin árangurs? Eða höfum við gleymt uppruna okkar? Fjöldinn allur af afkomendum verkafólks, sem verkalýðshreyfingin og flokkar jafnaðarmanna ruddu brautina fyrir, hafa klifið menntaveginn og tilheyra nú millistétt.  Eigið húsnæði, einstaklingsbundnir starfssamningar, fjölgun sérfræðinga af öllu tagi í þjónustugeirum samfélagsins – allt ýtir þetta undir einhvers konar einstaklingshyggju. Það dregur úr stéttarvitund og félagslegri samstöðu. „Það er ekkert til, sem heitir þjóðfélag – bara einstaklingar“, sagði járnfrúin Maggie Thatcher.

Einhvern tíma var sagt: „Forðaðu mér frá vinum mínum – sjálfur get ég séð um óvini mína“. Hafa ekki demókratar í Bandaríkjunum vingast um of við auðjöfrana á Wall Street? Það fullyrðir Bernie Sanders. Hafa ekki Blairistarnir vingast um of við braskarana í The City of London? Það segja þeir, sem tóku við verkamannaflokknum af þeim.

Þjóðfélagssáttmálinn

Frjálshyggjutrúboðið byrjaði sem uppreisn gegn velferðarríkinu. Velferðarríkið er holdgerving hugmyndafræði okkar jafnaðarmanna. Pólitískt erindisbréf okkar hljóðar upp á að verja hagsmuni vinnandi fólks gegn fjármagnseigendum;  að verja almannahagsmuni gegn rótgrónum sérhagsmunum; að verja mannréttindi vinnandi fólks  gegn ráðningarvaldi atvinnurekenda.  Okkar verkefni er að beita lögmætu valdi lýðræðislegs ríkisvalds gegn sjálfteknu valdi auðræðisins. Þetta er okkar hlutverk. Um þetta snýst okkar pólitíska erindisbréf.

Sjálft norræna módelið á rætur að rekja til þess, að jafnaðarmenn  brugðust við kerfisbresti  hins óhefta kapítalisma með því að koma böndum á skepnuna; með því að beisla græðgi spilavítiskapitalisma, sem lét ekki lengur að stjórn. Nú hefur nýfrjálshyggjan skorið á böndin og hleypt græðgisskepnunni á varnarlausan almenning enn á ný. Og jafnaðarmenn létu þetta líðast, víðast hvar. Þeir sváfu á verðinum. Fórnarlömb eigin árangurs?

Í kapítalísku markaðshagkerfi hefur verið óskráður en viðurkenndur þjóðfélagssáttmáli, sem verður að halda í heiðri, ef við eigum að gera okkur vonir um að viðhalda félagslegri samheldni og trausti almennings á stofnunum þjóðfélagsins. Ein grundvallarreglan er þessi: Þú ert frjáls að því að keppa eftir hámarksarði og uppskera ríkulegan ávinning, svo lengi sem þú tekur áhættu með eigið fé og spilar samkvæmt settum leikreglum. Svo lengi sem þú samþykkir, að þú berir tapið sjálfur, ef illa fer. Hagnaður og tap eru tvær hliðar á sömu mynt. Og svo lengi sem þú greiðir skatta og skyldur til samfélagsins, sem gerði þig ríkan. Ljáum eyra Warren Buffet, sem er einn af ríkustu mönnum heims, og sagði um stöðu sína sem margmilljarðamærings: „Hvað ætli hefði orðið úr mér, hefði ég verið fæddur í Bangladesh?“

Það er á grundvelli þessa óskráða þjóðfélagssáttmála, sem flestir samþykkja ójöfnuð upp að vissu marki, sem réttmæta umbun fyrir frumkvæði, dugnað, sköpunarkraft – og vilja til að taka áhættu. En ef þessum grundvallarreglum er öllum snúið á haus; ef ofurarður bóluhagkerfisins er allur einkavæddur (og jafnvel skattsvikinn) en tapið í niðursveiflunni er þjóðnýtt – þá er þessi óskráði þjóðfélagssáttmáli þar með rofinn. Þá erum við ekki bara að fást við afleiðingar fjármálakreppu. Fjármálakreppan er þá að grafa undan burðarstoðum hins kapítalíska markaðskerfis sjálfs. Þá erum við stödd í miðri  þjóðfélagskreppu.

Sjúkt fjármálakerfi

Þegar hinir ofurríku – þetta svokallaða 1% –  bíta höfuðið af skömminni með því að fela uppsafnaðan auð sinn í svokölluðu skattaparadísum, til að forðast að leggja sitt af mörkum til samfélagsins, þá hafa þeir tekið lögin í eigin hendur – sagt sig úr lögum við samfélagið. Hinn skattskyldi hluti einn og sér af þeim auði, sem falinn hefur verið í skattaskjólum, utan við lög og rétt, mundi duga til að leysa skuldakreppuna, sem nú hrjáir þjóðríkin eftir hrunið 2008.

Lítill hluti þessara földu fjársjóða hinna fáu mundi  duga til að endurreisa velferðarríkin, sem sum eru að hruni komin. Veruleikinn er hins vegar sá, að skattgreiðendur í þeim löndum, sem harðast hafa orðið úti í fjármálakreppunni, eru nú neyddir til að greiða hærri skatta og þola harkalegan niðurskurð á samfélagslegri þjónustu (í heilbrigðis- og menntamálum) – í því skyni að bjarga fjármálakerfi hinna ofurríku. Þetta er  harkalegasta ógnin við lýðræðislegt stjórnarfar, allt frá því að fasistar náðu völdum í Evrópu á millistríðsárunum. 

Það var getuleysi lýðræðislegra ríkisstjórna til að fást við afleiðingar heimskreppunnar milli 1930-40, sem skapaði frjóan jarðveg fyrir fasismann, sem síðan leiddi af sér seinni heimsstyrjöldina. Þekkjum við ekki sjúkdómseinkennin? Erum við dæmd til að endurtaka öll þessi mistök enn og aftur? Hvenær ætlum við að læra af reynslunni?

(Jón Baldvin Hannibalsson var formaður Alþýðuflokksins 1984-96)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Notum tímann núna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Notum tímann núna