fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Hrun sósíaldemókrata í Evrópu: Rósirnar visna

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 16. mars 2017 14:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ein af stærstu tíðindunum við niðurstöður þingkosninganna í Hollandi í gær var afhroð flokks sósíaldemókrata. Hollenski Verkamannaflokkurinn (Partij van de Arbeid, skammstafað: PvdA) fór úr 24,8 prósenta fylgi í kosningunum 2012 niður í 5,7 prósent nú. Árið 2012 vann flokkurinn á og jók fylgi sitt. Hann fékk þá 38 af 150 sætum á hollenska þinginu og myndaði ríkisstjórn með hinum hægri sinnaða Þjóðarflokki fyrir frelsi og lýðræði (VVD) þar sem Mark Rutte formaður VVD varð forsætisráðherra.

En í gær var ballið búið. Hollenskir sósíaldemókratar sitja í dag í algerri niðurlægingu, búnir að missa 29 þingsæti og halda aðeins níu. Jafnaðarmannaflokkurinn sem stofnaður var eftir samruna fleiri flokka 1946 og hefur lengst af verið einn af stærstu flokkum Hollands er í dag meðal þeirra minnstu.

Þetta fall er ekkert einsdæmi. Hrun Samfylkingarinnar á Íslandi í síðustu Alþingiskosningum í október síðastliðinn er mörgum eflaust enn í fersku minni. Enda var það fordæmalaust og vakti athygli langt út fyrir strendur Íslands.

Það finnast þó enn fleiri dæmi um að sósíaldemókratar eða svokallaðir jafnaðarmenn eigi víða erfitt uppdráttar í Evrópu. Uppdráttarsýki þeirra hefur varað lengi og virðist ólæknandi.

Simon Hix prófessor við London School of Economics hefur sýnt fram á að flokkar sósíaldemókrata í Suður- og Vestur-Evrópu hafi hrapað úr 30,3 prósentum árið 1998 niður í 21,5 prósent árið 2016. Og þetta var fyrir afhroð Samfylkingarinnar á Íslandi og Verkamannaflokksins í Hollandi. Í Grikklandi hefur líka orðið fylgishrun hjá krötum. Teikn eru á lofti um að illa gangi hjá sósíaldemókrötum í Danmörku (25 prósent), í Svíþjóð (30 prósent) og í Finnlandi (17 prósent). Í Noregi eru dökk ský á himni fyrir Verkamannaflokkinn. Hann hefur ítrekað mælst með undir 30 prósenta fylgi í vetur. Slíkt þykir óásættanlegt og næstkomandi september verður gengið til kosninga í Noregi.

Línuritið sýnir samanlagða fylgisþróun sósíaldemókratískra flokka í 18 löndum í Vestur Evrópu frá 1980 til 2016. Rauða línan er venjulegt meðaltal en brotalínan sýnir vegið meðaltal eftir stærð þjóðanna. Tilheigingin er sú sama: Fylgishrun.

Í Frakklandi virðast sósíalistar stefna í ósigur í komandi forsetakosningum sem verða nú í vor. Francois Hollande forseti er með afbrigðum óvinsæll. Benoit Hamon forsetaframbjóðandi sósíalista mælist með einungis um 14 prósenta fylgi í könnunum.

Margar ástæður eru nefndar fyrir vandræðum krata í Evrópu. Tímaritið The Economist birti fréttaskýringu um þetta í apríl á síðasta ári. Þar var meðal annars sýnt línurit sem bendir til að erfiðleikarnir hafi fyrst byrjað fyrir alvöru eftir efnahagkreppuna sem dundi yfir haustið 2008:

Þetta línurit úr The Economist sýnir fylgisþróun sósíaldemókrata í Vestur-Evrópu þar sem árið 1970 er viðmiðun og sett á 100. Fallið hefur verið stöðugt síðan kreppan hófst 2008.

Síðan hefur evran meðal annars lent í vandræðum og flóttamenn streymt til Evrópu sem aldrei fyrr. En hverjar eru annars skýringarnar? Þær eru eflaust margar og umdeildar. Sósíaldemókratar hafa verið sakaðir um að taka stöðu með fjármálaöflunum gegn alþýðu landanna. Þeir hafa sömuleiðis þótt hallir undir alþjóðavæðingu sem gerist oft á kostnað alþýðustéttanna. Að lokum eru þeir gagnrýndir fyrir að vera meira uppteknir af hagsmunum förufólks og hælisleitenda heldur en af velferð borgara í sínum eigin löndum.

Svarið við þessu öllu virðist síðan vera að margt alþýðufólk snýr baki við krötum og stígur lengra til hægri þar sem fólk á borð við Geert Wilders og Marine Le Pen segist bíða þeirra með faðminn opinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Birgir í klemmu

Orðið á götunni: Birgir í klemmu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“