fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Brynjar segir rök nýs formanns VR gamalkunn: „Þetta bítur allt í skottið á sér“

Ari Brynjólfsson
Fimmtudaginn 16. mars 2017 12:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd/DV

„Mesta hagsmunamál launafólks er efnahagslegur stöðugleiki. Menn gleyma því alltaf. Það skiptir líka miklu máli fyrir okkar samfélag að hér sé ekki allt logandi í verkföllum og vinnudeilum. Við erum í samkeppni við fjármagn í öllum heiminum, menn horfa til öruggs vinnumarkaðar og þetta þarf auðvitað að vera stöðugt en ekki að við séum að glíma við verkföll endalaust.“

Þetta sagði Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í þættinum Bítið á Bylgjunni í morgun, ræddi hann um SALEK-samkomulagið og vinnumarkaðinn við Ragnar Þór Ingólfsson nýkjörinn formann VR. Ragnar Þór hefur gagnrýnt verkalýðsforystuna og neitar hann að sitja í miðstjórn Alþýðusambands Íslands með Gylfa Arnbjörnssyni, er Ragnar Þór mótfallinn SALEK og vill hann láta taka til í lífeyrissjóðskerfinu.

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR. Mynd/DV

Segir Ragnar að með SALEK-samkomulaginu sé ASÍ að skerða samningsstöðu annarra stétta og þannig vopna viðsemjendur þeirra:

„Til að mynda sáum við forseta ASÍ ráðast mjög harkalega á kennarastéttina fyrir að ná mjög réttmætum kjarabótum. Þetta er andi þessa samkomulags, það er að halda öllu niðri. Ég get alveg tekið undir það að þetta norræna módel væri mjög gott fyrir okkur á Íslandi til að halda stöðugleika ef við værum með eitthvað traust í samfélaginu.“

segir Ragnar Þór og bætir við að ef það ætti að innleiða norrænt samningamódel, SALEK, þá þyrfti einnig að bjóða upp á norrænt velferðarkerfi, sem sé ekki nógu vel byggt upp og bendir Ragnar á vandann í heilbrigðiskerfinu í því samhengi. Brynjar segir rök Ragnars gamalkunn:

Þetta er vinnumarkaður, launin eru ekki alltaf eins og kjarasamningar segja. Hér er það orðið þannig að nánast hvert einasta verkalýðsfélag getur bara stöðvað samfélagið og náð miklu fram, svo elta hver annan og við erum að elta sjálf okkur. Svo erum við að glíma við að missa ekki verðbólguna úr höndunum og þá eru hærri vextir. Þetta bítur allt í skottið á sér.

segir Brynjar og bæti við:

Ég held að við náum engum alvöru árangri til lengri tíma, við erum búin að vera heppin, en það dugar ekki lengi ef við erum að fara aftur í sama farið þá vitum við alveg hvað gerist, allavega þeir sem eru eldri en tvævetur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt