fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Eyjan

Er búið að leysa ráðgátuna um hver myrti Olof Palme?

Ari Brynjólfsson
Þriðjudaginn 14. mars 2017 22:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar 1969-1976 og 1982-1986.

Háttsettir sænskir lögreglumenn og sérfræðingur hjá bandarísku alríkislögreglunni FBI eru sannfærðir um að búið sé að leysa gátuna um hver myrti Olof Palme, þáverandi forsætisráðherra Svíþjóðar í mars 1986.

Morðið á Palme er líklegast umtalaðasta morðmálið á Norðurlöndunum síðustu áratugi. Það hefur ekki verið upplýst enn opinberlega þrátt fyrir mikla rannsóknarvinnu sænsku lögreglunnar en málið hefur margoft verið tekið til rannsóknar á nýjan leik.

Christer Pettersson var dæmdur fyrir morðið árið 1988 en eiginkona Palme hafði borið kennsl á hann og sagði hann hafa verið við morðvettvanginn. Hann var síðan sýknaður á æðra dómsstigi. Pettersson lést í september 2014. Málið er formlega enn óleyst og margar samsæriskenningar hafa verið á lofti um hver myrti Palme.

Í nýrri bók eftir Paul Smith, Palmemordet – historier & gøglebilleder fra en postfaktuel verden, segir Smith frá því hver hann telur að hafi myrt Palme og byggir það á niðurstöðum rannsóknar sem rannsóknarnefnd á vegum sænsku ríkisstjórnarinnar gerði. Smith eignar sér því ekki heiðurinn af málinu heldur vill hann aðeins segja frá hver hann telur að hafi myrt Palme.  2012 gaf Smith út bókina Palmes Morder? þar sem hann nafngreindi hinn meinta morðingja og birti mynd af honum.

Í nýju bókinni fer hann aftur yfir málið og er að vissu leyti reiður yfir að fyrri bók hans hafi ekki vakið meiri athygli almennings og fjölmiðla en það verða að teljast mikil tíðindi ef Smith hefur í raun og veru upplýst hver myrti Palme.

Hver skaut Olof Palme?

Smith segir í bók sinni að það hafi verið Anders Christer Henning Andersson sem myrti Palme. Andersson var 33 ára þegar morðið var framið. Nafn hans kom strax upp þegar rannsókn hófst á morðinu og á lista yfir grunaða var hann settur í áttunda sæti þegar raðað var eftir hversu líklegt þótti að viðkomandi hefði myrt Palme.

Þegar morðið var framið bjó Andersson í um 15 mínútna göngufjarlægð frá morðvettvanginum. Hann var félagi í skotklúbbi og átti skammbyssu af gerðinni Smith&Wesson .357 Magnum en það er mjög öflugt skotvopn. Það var einmitt skammbyssa af þessari gerð sem Palme var skotinn með.

Forsíða Dagens Nyheter eftir morðið.

Nokkrum árum fyrir morðið hafði lögreglan haldlagt byssuna eftir að Andersson hafði skotið á sjónvarpstæki sitt þegar Palme birtist á skjánum. Hann fékk byssuna síðan aftur. En enginn hugsaði út í þetta dagana eftir að Palme var myrtur. Lögreglunni barst ábending um að Andersson væri grunsamlegur og gæti tengst morðinu en hún týndist í allri þeirri ringulreið sem var í kringum rannsóknina.

Andersson fór ekki að tilmælum lögreglunnar sem hvatti alla eigendur Smith&Wesson .357 skammbyssa til að afhenda lögreglunni þær svo hægt væri að skjóta úr þeim og bera saman við þau sönnunargögn sem lögreglan hafði aflað á morðvettvanginum. Lögreglan sendi Andersson aðra beiðni um að gera þetta en hann svaraði ekki. Níu árum eftir morðið var Andersson yfirheyrður vegna málsins. Þá sagðist hann hafa selt byssuna fyrir löngu en hún hefur aldrei fundist. Andersson var ekki kærður fyrir ólöglega meðferð skotvopns eða ólöglega sölu þess. Smith telur að lögreglan hafi ekki viljað gera mál úr þessu því það hefði beint athyglinni að slælegum vinnubrögðum hennar.

En af þeim sem lágu og liggja undir grun um að hafa myrt Palme er Andersson sá eini sem uppfyllir öll skilyrði þess að hafa getað myrt Palme. Hann hafði tækifæri til að myrða Palme, hann átti vopn eins og notað var við morðið, hann hafði einnig ástæðu til að vilja Palme feigan. Ástæðan var að Andersson hafði stundað fjárfestingar í hlutabréfum og þegar ríkisstjórn Palme samþykkti mikla skattlagningu á hagnað af hlutabréfaviðskiptum hrundi verðmæti þeirra. Andersson fór illa út úr því en hann hafði tekið lán fyrir fjárfestingum sínum. Skattlagningin var samþykkt daginn áður en Palme var myrtur.

Andersson hataði Palme frá því áður og þegar hann sá Palme við kvikmyndahúsið við Sveavägen þann 28. febrúar 1986 hafði hann nægan tíma til að fara heim, sækja byssuna, fara aftur að kvikmyndahúsinu og elta Palme þegar hann kom út og skjóta hann.

2008 hafði bróðir Andersson áhyggjur af andlegri heilsu hans. Hann bað lögregluna um að kanna með ástand hans. Lögreglumenn fóru heim til hans en þegar lögreglumennirnir knúðu dyra og báðu hann um að opna heyrðu þeir skothvell. Andersson hafði skotið sig í höfuðið með haglabyssu. Þetta var 22 árum eftir að Palme var myrtur.

Hvað segja sérfræðingar?

Jan Olsson og Ulf Åsgård, sem unnu báðir að rannsókn morðsins á vegum sænsku lögreglunnar, eru sömu skoðunar og Smith um hver hafi myrt Palme. James W. Clarke, sérfræðingur hjá FBI kom að rannsókn málsins á sínum tíma, er einnig sama sinnis og í bréfi sem hann sendi Smith lýsti hann þeirri skoðun sinni.

Åsgård segir að ef hann ætti að gera lista núna yfir grunaða og raða þeim eftir hversu líklegt honum þykir að þeir hafi myrt Palme þá myndi hann setja Andersson í fyrsta sæti og engan á eftir honum fyrr en kannski í fimmta sæti. Andersson sé áhugaverðastur í þessu sambandi.

Åsgård segir einnig að hann hafi hitt Andersson einu sinni og að það hafi komið á óvart hversu vel hann svaraði til lýsinga vitna á morðingjanum. Eiginlega allt við hann hafi fallið vel að því sem vitnin sögðu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 5 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega