Eyjan

Hlegið að Smára McCarthy á fundi efnahags- og viðskiptanefndar

Ari Brynjólfsson
Mánudaginn 13. mars 2017 19:00

Smári McCarthy þingmaður Pírata og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. Samsett mynd/Sigtryggur Ari

Hlegið var að Smára McCarthy þingmanni á fundi efnahags- og viðskiptanefndar þegar hann spurði um hver áhrif afnáms fjármagnshafta gætu haft á íslenska hagkerfið. Segir hann á Fésbókarsíðu sinni að það hafi ekki komið fram nógu miklar upplýsingar frá ríkisstjórninni til að vita hver áhrifin verða:

„Engar sviðsmyndir, ekkert skýrt mat á líklegum áhrifum, ekkert. Ég skil vel að það þurfi að gæta trúnaðar um svona atriði sem gætu haft áhrif á fjármálamarkaði, en það er engin réttlæting til að fela þetta frá þinginu, sem hefur skýrt eftirlitshlutverk,“

segir Smári. Þegar hann hafi svo spurt um þetta á nefndarfundi hafi verið hlegið að honum:

Þegar ég spurði að þessu í Efnahags- og viðskiptanefnd áðan var bara hlegið (sökum trúnaðarreglna í nefndinni læt ég ekki fylgja sögunni hver hló), eins og þetta væri eitthvað sem kæmi mér alls ekkert við, eða að spurningin um hvaða afleiðingar afnám hafta gæti haft á hagkerfinu væri asnaleg.

Aukið eða dregið úr trausti?

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði í útvarpsþættinum Harmageddon í morgun að áhrifin yrðu óbein fyrir venjulegt starfandi fólk:

En óbeinu áhrifin eru þau að við erum að endurheimta traust á því sem er að gerast á Íslandi, við erum að sýna það að við þurfum ekki höft til að stjórna okkar málum,

sagði Bjarni. Höftin hefðu virkað eins og sjúkleikamerki á hagkerfið og útheimt mikla skriffinnsku í tengslum við undanþágur. Segir Smári ýmist óljóst við stöðuna, hann vilji gjarnan trúa því að vel sé staðið að málum en ferlið dragi úr trausti:

Þannig að þótt ég vildi gjarnan trúa því að hér sé vel staðið að málum er ferlið og leynimakkið að vekja tortryggni og draga úr trausti. Ríkisstjórnin ætti að reyna að hætta að beinlínis gefa okkur í stjórnarandstöðunni ástæður til að efast um heilindi hennar. Stóð ekki annars til að auka traust á Alþingi og til stjórnvalda?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af